Mikill hugur í stelpunum
– segir Anna Margrét Sigurðardóttir Breiðhyltingur, ÍR-ingur og harður stuðningsmaður kvennaboltans –
Nokkurt uppnám varð í Breiðholtinu þegar ákveðið var að leggja kvennalið ÍR niður. Í lok mars ákvað handknattleiksdeildin að senda kvennaliðið ekki til keppni á næstu leiktíð vegna fjárhagsstöðu félagsins. Leikmenn kvennaliðs ÍR voru ekki hafðir með í ráðum þegar þessi ákvörðun var tekin. Bikarmeistarar Fram buðust til að mæta ÍR í Breiðholtinu í fjáröflunarleik til þess að halda lífi í liðinu. Í tilkynningu Framara kom fram að í þessu erfiða árferði sem nú gengur yfir berist dapurlegar fréttir frá félögum í Breiðholtinu. “Við í Fram höfum skilning á því að það er kostnaðarsamt að reka handboltalið á Ísland og ekki auðvelt að ná í tekjur til að standa straum af kostnaði. En við teljum að kvennahandboltinn á Íslandi megi alls ekki við því að missa fleiri félög úr deildarkeppninni,“ sagði í tilkynningunni frá Fram.
Sá þrýstingur sem kom fram varð til þess að hætt var við að taka kvennaliðið úr keppni og hefur ÍR ráðið Finnboga Grétar Sigurbjörnsson sem þjálfara liðsins. Í yfirlýsingu frá ÍR segir meðal annars að ljóst sé að mikill kraftur hafi vaknað í Breiðholti eftir að tilkynnt var um að leggja ætti flokkinn niður og fjöldi fólks lýst sig reiðubúið til að aðstoða við endurreisn kvennastarfsins. Ætlunin sé að byggja upp meistaraflokk á þeim ungu og efnilegum leikmönnum sem félagið hefur yfir að ráða. Anna Margrét Sigurðardóttir hefur leikið handbolta frá unga aldri og er einnig einn af ötulustu stuðningsmönnum boltans í ÍR. Hún spjallar við Breiðholtsblaðið að þessu sinni.
Varð öskureið
“Ég varð öskureið þegar þessi ákvörðun var tekin,” segir Anna Margrét þegar hún var sest niður með Breiðholtsblaðinu á Gamla Kaffihúsinu við Drafnarfell í Efra Breiðholti. Ég varð því ákaflega ánægð að finna þann mikla stuðning sem handboltastelpurnar fengu í Breiðholtinu eftir þessa ákvörðun stjórnar ÍR. Ég taldi það strax misráðið að leggja kvennaboltann niður en halda karlaboltanum sem er mun dýrari Nú er búið að ákveða að stofna meistaraflokk kvenna í handboltanum hjá ÍR. Í meistaraflokksráðinu eru foreldrar sex barna og þar að auki eru fimm nefndir að störfum. Því eru um 30 manns komin til þess að starfa fyrir kvennaboltann og sex eru í stjórn. Aldrei hafa svo margir komið að þessu verkefni áður. Við höfum aldrei verið með svo marga bakhjarla. Þetta er magnað og við vonum að við getum haldið þessu gangandi. Við erum með konu sem formann ÍR og þetta afl er farið af stað. Ég held að kvennaboltinn sé kominn til þess að vera Vona að meistaraflokkur kvenna hjá ÍR nái sem lengst. Þið sem viljið og getið hjálpað okkur að halda kvennaboltanum gangandi í Breiðholti væri æðislegt ef þið gætuð styrkt þetta verkefni og lagt inn á reikning sem kvennaboltinn er með á hjá ÍR.”
Spila enn í utandeildinni
Anna Margrét er Breiðhyltingur í húð og hár eins og hún kemst sjálf að orði. Ég ólst upp við Skriðustekk frá því ég var níu ára og átti áður heima við Ferjubakka. Við vorum kölluð Stekkjarbörnin. Við vorum ekki mörg á þessum tíma. Fyrsta bylgjan var gengin yfir. Börn frumbyggjanna voru flest komin á ungdómsár. Þeir krakkar sem enn voru á barnsaldri voru flest eldri en ég. Bróðir minn var þá fjögurra ára og hann átti engan jafnaldra í hverfinu. Leið mín lá í Breiðholtsskóla og síðan byrjaði ég í kvennahandboltanum hjá ÍR. Ég er búin að spila handbolta síðan ég var 11 ára gömul og er enn að spila í utandeildinni. Það er verið að pressa á mig að taka alla vega eitt ár í viðbót þótt ég sé farinn að finna mun á mér. Maður er orðinn þyngri á sér og ekki eins snöggur en þetta er gott bæði fyrir líkamann og sálina. Ég hef líka komið að þjálfun handboltastelpna og áhugann skortir ekki. Stundum heldur maður sig vera yngir en maður er. En hugurinn fer með mann langt þótt líkaminn fylgir ekki alveg á eftir eins og hann gerði á ungdómsárunum. Maður er ekki lengur tvítugur.”
Varð ekki innlyksa á Spáni
Skólaganga Önnu Margrétar einkenndist af íþróttaáhuga hennar. “Ég fór á íþróttabrautina í FB. Eftir FB tók ég pásu sem stendur enn. Ég flutti um tíma til Spánar þar sem ég var með handboltahóp. Mér fannst yndislegt að vera á Spáni. Veðrið og verðlagið snertu mig mest. Það er eiginlega alltaf gott veður og ég skil vel eldra fólk sem kýs að flytja þangað til að eyða efri árunum. Þar verður líka meira úr fjármunum fólks. Mun ódýrara að lifa. Vandinn fyrir okkur er ef til vill að fæstir Íslendingar einkum eldra fólk talar ekki spænsku að neinu ráði og Spánverjar eru ekki góðir í ensku eða ef til vill ekki viljugir að tala hana. Yngra fólk er þó meira farið að leggja spænsku fyrir sig en til dæmis þýsku sem var algengasta þriðja málið í framhaldsskólakerfinu hér. Spænskan er mun praktískari þar sem hún er töluð mun víðar en þýska. En hvað sem því líður þá ákvað ég að koma aftur heim til Íslands.”
Fylgi börnunum ef þau fara til íþróttaiðkanda
Anna Margrét segist ekki vita hvort hún eigi eftir að flytja aftur til Spánar en trúlega eigi hún eftir að fylgja börnum sínum fari þau til íþóttaiðkana erlendis. Og þau eru byrjuð að þreyfa fyrir sér ef svo má segja. Fyrr á þessu ári fór 15 ára gamall sonur hennar Huldar Einar Lárusson til Redding til reynslu. “Huldar er alinn upp í ÍR eins og hann á kyn til en skipti yfir í Víking í september 2019 og spilar þar bæði með öðrum og þriðja flokki og æfir með U15 ára landsliði Íslands. Hann fór til Redding í febrúar þar sem hann dvaldi í eina viku til reynslu og við æfinga. Hann vakti mikla athygli á síðast liðnu sumri þegar hann skoraði samanlagt 60 mörk á Íslands- og Reykjavíkurmótunum og var í kjölfarið valinn í Reykjavíkurúrvalið sem hann fór með til Svíþjóðar.” Anna Margrét segist fastlega búast við hann eigi eftir að leita fyrir sér erlendis en fyrst þurfi hann að klára framhaldsskólann hér heima. Hann hefur stefnt á að ná lengra í fótboltanum síðustu tvö árin eða frá því að hann var 13 ára gamall. Vinkona mín komst þannig að orði um hann að hann væri ekki aðeins með fulla einbeitingu á fótboltavellinum heldur líka að rækta þurfi sjálfan sig sem og aðra í kringum sig hvort sem um er að ræða liðsfélaga, vini eða fjölskylduna sem á stóran stað í hjarta hans. Yngri strákar hafa verið að leita til hans til að fá ráð og vita hvað var það sem að gerði hann áberandi góðann.
Vil gjarnan fara aftur að versla
Anna Margrét hefur staði að ýmsu sem flokka mætti til góðagerðarmála. “Ég er svo aumingjagóð,” segir hún og hlær. “Mér finnst ég þurfa að létta undir ef ég get komið að liði. Börnin mín segja ég þurfi ekki að hjálpa öllum. Ég hef verið að gefa fatnað af mínum börnum. Þau vaxa upp úr fötum sem oft eru að mestu óslitin og þá er bara aðillegt að önnur börn fái að njóta þeirra. Ég þekki nokkuð til barnafatnaðar því ég rak sjálf barnafataverslun um tíma. Verslunin var í Faxafeni og mig Breiðhyltinginn langaði til þess að opna í Mjóddinni. Ég var of rög við það og kannski hefði ég farið á hausinn með tvær verslanir. Það er talsvert meiri kostnaður við að halda tveimur verslunum opnum en einni. Mig langar til að fara aftur í verslanarekstur. Veit samt ekki hvort af því verður. Yngri sonur minn spyr mig stundum hvenær ég ætli aftur að opna búðina. Okkur vantar svona verslun í hverfið. En ég verð aðeins að sjá til með það. Það fer svolítið eftir því hvort ég þarf að elta eldri soninn út í heim. Hann er fullur áhuga á að fara í atvinnumennsku og ef hann fer mjög ungur myndi ég ekki þora að sleppa honum einum.”
Alltaf jafn ánægð í Breiðholtinu
“Já – ég er alltaf jafn ánægð í Breiðholtinu,” heldur Anna Margrét áfram. “Það er dásamlegt að búa hér fast við Elliðaárdalinn. Ég nýti dalinn nánast á hverjum degi. Ég er þeirrar skoðunar að leyfa honum að vera eins og hann er með sinni náttúru. Ég var í unglingavinnunni á sínum tíma og var þá meðal annars að gróðursetja tré í Elliðaárdal. Ég er alin upp við þessa náttúru rétt við bæjardyrnar og sé ekki fyrir mér að farið verði út í neinar risa framkvæmdir þar. Ég sé heldur ekki hvernig hægt yrði að reka svo mikil mannvirki sem hugmyndir hafa komið fram um. Eins og staðan er í dag vitum við ekki hvernig ferðaþjónustan þróast þegar veirufaraldrinum lýkur. Hvort hún fer í svipað far eða verður með breyttu sniði. Ég hef heyrt því skotið fram að aðgangseyrir að gróðurhvelfingu eins og rætt hefur verið um þyrfti að vera mjög hár. Ef við fimm manna fjölskyldan færum myndi kostnaðurinn hlaupa á tugum þúsunda. Ég sé ekki fyrir mér að Íslendingar myndu fjölmenna fyrir þá upphæð til þess að skoða pálmatré. Þetta passar að mínu mati ekki inn í Elliðaárdalinn og ég fæ ekki séð að það gæti orðið rekstrarfært.”
Vona að meistaraflokkur nái sem lengst
“Núna bíð ég spennt eftir því að kvennabotinn fari af stað hjá ÍR. Ég veit að mikill hugur er í stelpunum og baklandið er tilbúið til að gera sitt besta. Ég el þá von með mér að meistaraflokkur nái sem lengst og veit að ég deili þeirri von með mörgum.”