Verkefnin eru næg

Sigurþóra Bergsdóttir ásamt eiginmanni sínum Rúnari Unnþórssyni og börnunum Margréti Rán og Eyjólfi Felix Rúnarsbörnum.

Sigurþóra Bergsdóttir er stofnandi Bergsins Headspace. Hún ákvað að stofna samtök um að bæta stuðningsumhverfi ungs fólks. Sigurþóra hefur reynslu af þessum málum sem aðstandandi en sonur hennar upplifði mikla vanlíðan og erfiðleika sem enduðu með því að hann tók eigið líf 19 ára gamall árið 2016. Sigurþóra er vinnusálfæðingur og hefur unnið ýmis störf í gegnum tíðina en auk þess að veita Berginu headspace forstöðu situr hún í bæjarstjórn á Seltjarnarnesi fyrir Samfylkinguna. Sigurþóra spjallar við Nesfréttir að þessu sinni.

“Ég er fædd á Blönduósi en er grjótharður Vesturbæingur. Ég er alin upp á Túnsbergi. Í gula húsinu sunnanvert við Starhaga. Foreldrar mínir keyptu þetta hús þegar þau fluttu að norðan til Reykjavíkur þegar faðir minn Bergur Felixson tók til starfa hjá Reykjavíkurborg. Húsið er enn í fjölskyldunni því Felix bróðir minn og Baldur eiginmaður hans keyptu húsið af foreldrum okkar þegar þau ákváðu að minnka við sig. Og nú er fjölskyldan enn að breiða úr sér við Starhaga því Álfrún Perla dóttir þeirra og Árni maður hennar eru að byggja hús við hliðina á Túnsbergi. Pabbi og mamma fluttu á Skúlagötuna. Urðu Miðborgarbúar og eru alsæl með þau skipti. Þau hafa gaman af að fara út og hitta fólk og það er góður göngutúr fyrir þau að labba um miðbæinn.“

Var tvö ár á Egilsstöðum

Sigurþóra segist hafa farið þennan hefðbundna Vestur-bæjarveg í gegnum skólakerfið. „Ég var í leikskóla í Vesturbænum þá Melaskóla og síðan Hagaskóla. Þaðan lá leiðin í MR og eftir stúdentsprófið fór ég í Háskóla Íslands þar sem ég lagði stund á nám í sálfræði.“ Sigurþóra hefur alið aldur sinn að mestu í Vesturbænum og síðan austast á Seltjarnarnesi. „Ég hélt þó aðeins fram hjá Vesturbænum því ég bjó austur á Egilsstöðum í tvö ár. Ég bjó þar með drenginn minn lítinn og starfaði sem forstöðumaður fyrir sambýli fyrir fatlað fólk.“

Aftur á skólabekk

„Nei – ég hitti framtíðar manninn minn ekki fyrir austan. Ég hitti hann þegar ég var í helgarfríi í Reykjavík og þá flutti ég aftur suður.  Ég starfaði við eitt og annað eftir Egilstaðadvölina. Ég stýrði 118 hjá Símanum í nokkur ár og setti upp þjónustuver Reykjavíkurborgar á sínum tíma. Ég hafði lokið grunnnámi í sálfræði og nú fannst mér kominn tíma til þess að ljúka því. Ég settist aftur á skólabekk í sálfræðideild Háskóla Íslands og lauk námi í vinnusálfræði.“

Eignuðumst góða nágranna á Nesinu

Síðan fluttu þið á Seltjarnarnes. „Já – það var þó ekkert markmið að flytja á Nesið. Ég vildi búa á Vestursvæðinu þar sem ég er uppalin og hafði búið lengst af. Við þurftum að fá okkur stærra húsnæði og fórum að leita. Tilviljun réð að Seltjarnarnes varð fyrir valinu. Við fundum húsnæði þar og sjáum ekki eftir því. Við búum við hliðina á Sæbóli við Nesveginn og þar eignuðumst við strax frábæra nágranna. Gunnlaug Ástgeirsson og Ósk Magnúsdóttur. Þau voru stundum að passa fyrir okkur og ég tók eitt sinn eftir því að dóttir okkar var orðin læs þótt hún væri ekki byrjuð í skóla. Þá hafði Gunnlaugur verið að kenna henni að lesa svo lítið bar á. Og nú er Freyja dóttir þeirra flutt heim á Sæból eftir búsetu erlendis. Hún og Egill Arnarson maður hennar hafa því bæst í nágrannahópinn.“

Gunnlaugur bauð mér á stofnfundinn

Sigurþóra situr í bæjarstjórninni á Seltjarnarnesi. Hvernig kom til að hún fór inn á þá braut. „Ég hef alltaf verið jafnaðarmaður. En það er eiginlega Gunnlaugi Ástgeirssyni að kenna að ég fór af stað. Við fluttum á Nesveginn árið 2006 og fjórum árum síðar var kosið til bæjarstjórnar á Nesinu. Þá var ákveðið að endurvekja Samfylkingarfélagið með formlegum hætti. Áður hafði Neslistinn starfað sem var sambland af fleiri aðilum og hann starfar enn í samstarfi við Viðreisn. En þarna var komið á ákveðnum kaflaskiptum og Gunnlaugur bauð mér á stofnfundinn. Hann sagði að nú væri kominn tími á mig að taka þátt í samfélaginu. Ég lét til leiðast. Þetta þróaðist á þann veg að við Margrét Lind Ólafsdóttir vorum í efstu sætum nýs lista Samfylkingarinnar á Seltjarnarnesi. Við fengum einn mann í þeim kosningum og ég varð fyrsti varamaður í bæjarstjórninni. Í dag erum við tvö ég og Guðmundur Ari Sigurjónsson bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar.“

Miðaldra og eldra fólk 

Var þetta rétt ákvörðun hjá Samfylkingunni að bjóða sérstaklega fram. „Já ég held að hún hafi verið rétt. Við höfum haldið fast við það síðan að koma fram undir eigin nafni. Þegar stofnað var til Neslistans var það svolítið undir áhrifum frá R-listanum í Reykjavík. Þá var önnur stemning í samfélaginu og munaði minnstu að þau næðu fjórða manni inn. Við teljum það hafa sína kosti fyrir okkur að standa keik og við höfum gott bakland í flokknum sem gefur aukinn styrk. Samfylkingin verður skýrari valkostur með þessum hætti.” En meirihluti Sjálfstæðisflokksins stendur enn óhaggaður. „Já þetta er nokkuð fastur kjarni sem byggist á gömlum merg. Seltjarnarnes er svolítið sérstakt að þessu leyti. Hér er mikið um eldra fólk sem hefur fylgt Sjálfstæðisflokknum. Margt frá dögum Sigurgeirs Sigurðssonar sem var bæjarstjóri um langt árabil. En þetta getur tekið breytingum. Kynslóðaskipti verða og með nýrri byggð kemur nýtt fólk á Nesið. Vandinn við stjórnunarhætti Sjálfstæðismanna er einkum sá hversu erfitt er að fá þá til þess að horfa á heildarmyndina í bæjarmálunum. Það er erfitt að fá þá til þess að horfa á stærra plan. Ef til vill er þetta vegna þess að þau hafa alltaf ráðið og hafa lítið þurft að semja við aðra um lausn mála. Eitt vandamálanna er að ekki má hnika útsvarinu upp á við þótt vandi sé í að ná endum saman í rekstri bæjarins. Viðvarandi hallarekstur kemur til af því að farið er yfir áætlanir í rekstri þar sem áætlanir eru í raun ekki nægilega vel unnar eða þeim fylgt eftir. Ár eftir ár er afkoman verri en ráð var gert fyrir. Við vildum færa útsvarið til samræmis því sem er í Kópavogi og Hafnarfirði. Með því væri auðvelt að eyða hallarekstrinum.“  

Þarf að vinna út frá stærra plani 

Sigurþóra segir að bæjaryfirvöld verði að fara að vinna út frá stærra plani í stað þess að hnippa í eitt og eitt mál í einu. Á þetta hafi þau í Samfylkingunni lagt áherslu í starfi sínu í bæjarstjórn. Hún nefndir málefni fatlaðs fólks sem dæmi.  Þegar málefnin komu til sveitarfélaganna var samið við Reykjavíkurborg um þjónustuna og svo þeim samningi sagt upp án varaplans. Það hefði átt að vera komin búsetukjarni fyrir fatlað fólk fyrir löngu, þjónustan fyrir flóknustu málin er að mestu aðkeypt og því dýrari en ella. Hægt væri að sinna þessu málaflokki mun betur með vandaðri grunnvinnu. Það starfsfólk sem sinnir þessum málum hjá okkur er þó framúrskarandi og gerir sitt besta en stuðninginn vantar stundum.”

Ráðagerði keypt án stefnu

Sigurþóra segir að ferðamála-stefna Seltjarnarness hafi verið í vinnslu árum saman en ekki tekist að klára þrátt fyrir gríðarlegan fjölda ferðamanna á nesinu síðustu ár. “Fyrir síðustu kosningar var rokið til þess að kaupa Ráðagerði án þess að ákveðið plan væri fyrir hendi um hvernig mætti nota það og hefur þetta fallega hús staðið autt síðan. „Ég tel að setja hefði mátt Ráðagerði strax í leigu með hliðsjón af nýtingu fyrir ferðaþjónustu, en þar sem stefnuna vantaði þá var ekkert gert. Annað sem má nefna er Miðbæjarskipulagið og framtíð Eiðistorgs sem aldrei virðist hægt að ljúka við. Að auki eru hugmyndir um byggingu leikskóla svo stórar að þær virtast óviðráðanlegar. Við vildum fara hægar í endurnýjun leikskólans. Byggja hann upp í áföngum á núverandi leikskólasvæði. Verðlaunatillagan sem kom úr samkeppninni er mjög metnaðarfull en verður erfitt að framkvæma miðað við stöðu fjármála bæjarins. Seltjarnarnes er fremur lokað samfélag og til að fá aðgang að því verður að fara í gegnum Gróttu. Það er í raun kjarninn í samfélaginu okkar. Þó má ekki gleyma því að mjög margt er vel gert hér á Nesinu og gott að búa með börnum enda skólinn og þjónustan þar sérstaklega góð.”

Sigurþóra Bergsdóttir ásamt syni sínum Bergi Snæ.

Verkefnin eru næg

Sigurþóra víkur að megin verkefni sínu þessa dagana. Það er Bergið headspace. “Dag nokkurn fékk ég þá flugu í höfuðið að búa til betra aðgengi ungs fólks að geðheilbrigðisþjónustu. Þegar sonur minn féll frá fann ég mikinn vilja fólks í kringum mig til að gera eitthvað. Því stofnuðum við minningarsjóð um hann sem er grunnurinn að Berginu headspace. Haustið 2018 stofnuðum við svo samtök sem fengu mikla athygli og góðar undirtektir og margir voru tilbúnir að leggja lið. Mín fyrirmynd að þessari stofnun voru Samtök um kvennaathvarf, þar sem konur komu saman og framkvæmdu á stuttum tíma. Bergið hóf starfsemi sína síðasta haust og er í stöðugri þróun. Vel á annað hundrað ungmenna hafa komið og fengið stuðning og aðstoð í Berginu og sýna tölur okkar að þau eru ánægð með þjónustuna og upplifa betri líðan og virkni sem er markmiðið. Sigurþóra segir að Bergið Headspace sé byggt á ástralskri fyrirmynd. “Bergið byggir á Headspacehugmyndafræðinni og er svokölluð lágþröskuldaþjónusta. Hugmyndafræðin byggist á því að ungt fólk á aldrinum 12 til 25 ára geti gengið að því sem vísu að eiga kost á því að leita til einhvers. Það eru engin takmörk á því að leita til Bergsins headspace, aðeins aldur, Við segjum alltaf að það sé ekkert vandamál of lítið eða of stórt, allir geta komið. Það er búinn að vera mikill kraftur í þessu og ég vona að við munum njóta velvildar til þess að halda starfinu áfram. Verkefnin eru næg.”

You may also like...