Breiðholt 3 – Fella- og Hólahverfið
– húsnæðisvandinn rak á eftir framkvæmdum –
Þegar Breiðholtið var skipulagt í fyrstu var ekki gert ráð fyrir þeirri byggð sem reis í þeim hluta sem kallað er Efra Breiðholt. Samkvæmt tillögum í aðalskipulagi höfði áætlanir miðast við að í fjarlægð framtíð myndi um fimm þúsund manna byggð rísa þar. Þetta gekk ekki eftir. Svo fljótt var þrýst á um framkvæmdir að Efra Breiðholt sem er nefnt Breiðholt 3 var byggt á undan Seljahverfinu sem er kallað Breiðholt 2.
En hvað gerðist. Reynslan af Neðra Breiðholti og einkum af Bakkahverfinu var að koma í ljós. Með byggingu þess hafði tekist að höggva nokkuð í þann hnút sem húsnæðismál voru í. Margar fjölskyldur höfðu geta komið sér upp framtíðar húsnæði og nokkuð hafði gengið að útrýma kassafjalaskúrum og herbyggingum sem fólk hafði notast við sem bústaði og virtist ekki eiga möguleika út úr. En sagan var ekki öll. Margt fólk bjó enn við óviðunandi búsetuskilyrði. Ef takast ætti að útrýma heilsuspillandi og öðru óviðunandi húsnæði í Reykjavík varð að halda áfram. Þessi knýjandi þörf fyrir áframhaldandi byggingu íbúðarhúsnæðis varð til þess að framkvæmdanefnd byggingaráætlunar sóttist eftir byggingarlandi undir næstu áfanga. Nefndin horfði til efri hluta Breiðholtsins og fór fram á að fá að skipuleggja svæðið sjálf. Þetta varð til þess að ákveðið var að afhenda nefndinni svæðið uppi á Breiðholtshvarfinu umhverfis Sauðhólsmýrina.
Að halda kostnaði í lágmarki
Reynslan af byggingu Bakkahverfisins hafði sýnt að nauðsynlegt var að bæta tækni við svo stórtækar byggingaframkvæmdir sem framkvæmdanefndin stóð fyrir. Í ljós hafi komið að dýrara væri að byggja U-laga bygginga en Bakkarnir sem hannaðir eru af Birni Ólafs arkitekt sem starfað hefur í París eru byggðir á því formi. Lagði nefndin til að áhersla yrði lögð á að koma mætti stórvirkum vinnuvélum að byggingu húsa auk þess að vinna mætti í fjöldaframleiðslu. Var þetta einkum hugsað til þess að halda kostnaði við byggingaframkvæmdirnar í lágmarki. Arkitektarnir Geirharður Þorsteinsson og Hróbjartur Hróbjartsson voru fengnir til þess að skipuleggja nýtt hverfi. Þeir lögðu til að ráðist yrði í mun þéttari byggð en gert var ráð fyrir í aðalskipulagi. Byggð með allt að tólf þúsund íbúum. Til að koma svo mörgum íbúðum fyrir á svæðinu var ljóst að leggja þyrfti áherslu á að byggja fjölbýli. Var hafist handa við að skipuleggja byggð samkvæmt því og eru um 82% allra íbúða í Efra Breiðholti í fjölbýli.
Tuttugu stigagangar við þrjár götur
Fá ef nokkur líkindi eru með Breiðholtshverfunum þremur. Neðra Breiðholt er byggt á hugmyndinni um U-laga fjölbýlis-byggingar. Seljahverfið er hverfi einbýla og raðhúsa þótt ákvörðun hafi verið tekin um byggingu nokkurra stærri fjölbýla. Eitt af því sem áhersla var lögð á við skipulag Efra Breiðholts var hönnun langra bygginga þar sem engin uppbrot voru og lítið um gafla sem þóttu auka byggingarkostnað. Móderistar í byggingalist höfðu um tíma horft til óbrotinna lína í húsbyggingum og þarna gafst hönnuðum hverfisins tækifæri til að útfæra slíkar hugmyndir. Útkoma vinnu þeirra var lengsta blokk landsins. Blokk sem nær samfell um 300 metra frá austri til vesturs. Alls eru 20 stigagangar í blokkinni og hún stendur við þrjár götur. Sitt sýndist hverjum um þessar hugmyndir og jukust gagnrýnisraddir eftir því sem byggingin reis af grunni. Fljótlega var farið að uppnefna bygginguna og festist nafnið “langavitleysa” við hana alla vega um tíma. Skipuleggjendur töldu á hinn bóginn að finna mætti ýmsa kosti við þetta skipulag byggingar. Auk þess að spara fé sem færi í að byggja óþarfa gafla með tilheyrandi einangrun gæfi samfellan kost á að stýra umferð gangandi vegfarenda til og frá hverfinu og húsið beindi einnig gangandi umferð skólabarna að ákveðinni gangbraut.
Félagslegur vandi
Lengi hefur verið deilt um ágæti þessa byggingaskipulags. Löng hús hafa sjaldnast verið talin koma vel úr auk þess að skera hverfi í sundur, hindra gangandi vegfarendur og loka fyrir útsýni. Þarna var gert ráð fyrir að um félagslegar íbúðir yrði að ræða. Þar byggi fólk sem þyrft á félags-legum stuðningi að halda. Aldrei hefur reynst vel að þjappa fólki sem búið hefur við félagslegan vanda saman í stórar húseiningar. Betur hefur reynst að dreifa slíkum íbúðum. Má leiða líkum að því að það orðfar sem lengi fór af Breiðholti og erfitt hefur reynst að kveða niður að fullu eigi sér uppruna og rót í þessum fjölbýlishúsabyggingum.
Frístundahúsbyggjandinn þjóðhagslega óhagkvæmur
Annað sem einkenndi byggingu Efra Breiðholts er hús sem stundum var nefnt kastalinn. Er það blokkin sem byggð var við Asparfell og Æsufell nánast við enda “lönguvitleysunnar”. Hrafnkell Thorlacius arkitekt teiknaði húsið ásamt Birni Emilssyni tæknifræðingi. Breiðholt stóð að byggingu þess og sölu íbúða sem ekki voru byggðar í félagslega kerfinu. Áhersla var lögð á aukna vélvæðingu á byggingarsvæði líkt og þegar “langavitleysan” svokallaða var byggð. Páll Friðriksson sem var byggingarstjóri við Æsufell lét hafa eftir sér í blaðaviðtali í september 1971 að frístundahúsbyggjandinn væri þjóðhagslega óhagkvæmur. Þar átti hann við þá sem byggðu hús sín sjálfir og keyptu vinnu af ýmsum iðnaðarmönnum. Segja má að bygging Breiðholtsins hafi ýtt nýjum aðferðum við húsbyggingar af stað. Fyrirtæki fóru í auknum mæli að annast byggingaframkvæmdir í stað einstaklinga.
Austurbergið er miðbæjargata
Við byggingu Hólahverfis sem er hluti Efra Breiðholts og stendur norðan Fellanna var á margan hátt stuðst við sambærilegar hugmyndir og í Fellunum. Ekki var þó ráðist í ofurlangar blokkabyggingar eða stórhýsi á borð við “kastalann” við Asparfell og Æsufell. Hverfið er byggt í hring en utan hans standa einbýlishús fyrir norðan sjálft hverfið og snúa í átt að Elliðárdalnum. Stærsti hluti Hólana saman stendur af háum blokkarbyggingum með miklum þéttleika. Tvær tengigötur tengja Fella- og Hólahverfin saman. Vesturberg og Austurberg. Austurberg er einskonar miðbæjargata Fella og Hóla. Þar eru ýmsar þjónustustofnanir. Hólabrekkuskóli, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, Breiðholtslaugin, Íþróttahús og líkamsræktarstöð á vegum World Class og íþróttasvæði Leiknis. Hinum megin götunar má nefna Heilsugæsluna í Efra Breiðholti, Tónskóla Sigursveins, Miðberg miðstöð frístunda- og ungmennastarfs í Breiðholti og síðast en ekki síst Menningarhúsið Gerðuberg. Gerðuberg á sér þá sögu að afgangur varð að fjármunum sem varið var til bygginga á vegum framkvæmdanefndar. Var ákvörðun tekin um að nýta þá til þess að byggja menningar-miðstöð í þessum nýja borgarhluta. Útibúi Borgarbókasafnsins var komið fyrir í Gerðubergi. Hafið var öflugt félagsstarf fyrir eldri borgara, listsýningar voru settar upp og allskyns menningar-tengd starfsemi efld. Gerðuberg er fyrsta menningarlega starfseiningin sem komið var á fót í Reykjavík.
Fjölmenningarhverfi
Á síðari árum hefur fjöldi fólks sem flutt hefur hingað til lands sest að í Efra Breiðholti. Íbúðaverði hefur lengst af verið ívið lægra í þessum borgarhluta en annar staðar sem kann að eiga þátt í áhuga fólk sem komið er lengra að um að fjárfesta í húsnæði. Þetta hefur orðið til þess að myndast hefur fjölbreytt fjölmenningarsamfélag í byggðinni. Margt hefur verið gert til þess að auðvelda aðlögun fólks að breyttum heimkynnum og hefur Fellaskóli gjarnan farið þar fremstur á meðal jafningja. Oft hefur verið rætt um að mörg mistök hafi verið gerð við byggingu þessa hluta Breiðholtsins – bæði í skipulagi og byggingum og einnig að samsetning íbúa hafi ekki reynst eins og best var á kosið. Íbúasamsetningin hefur breyst mikið einkum með tilkomu aðflutts fólks sem fyrir löngu er farið að setja skemmtilegan svip á byggðina.