Um 45 þúsund fermetra byggingar fyrirhugaðar á Grandagarði

Byggja á 15 hús, alls um 42.000 fermetra undir fjölbreytta atvinnustarfsemi á Fiskislóð 22 til 30 við Gömlu höfnina í Reykjavík. Nýbyggingarnar eiga að verða tveggja til fjögurra hæða og koma í stað eldri húsa sem hafa meðal annars verið nýtt fyrir iðnað og til geymslu. Samþykkt var á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar fyrir skömmu að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi þess efnis en þær byggja á tillögum arkitektastofunnar ASK fyrir hönd félagsins Línbergs sem er lóðarhafi.

Verði tillögur að breyttu skipulagi sem nú hafa verið auglýstar fyrir Eiðisgranda að veruleika má gera ráð fyrir allt að 45 þúsund fermetra byggingum á Línbergsreitnum. Núverandi byggingar þar eru um 7.500 fermetrar. Svæðið sem um ræðir er á Grandagarði austan við Sjóminjasafnið. Með deiliskipulagstillögunni er gert ráð fyrir að starfsemi á svæðinu verði breytt úr „hafnsækinni starfsemi“ yfir í verslun, þjónustu og fínlegri atvinnustarfsemi.

Páll Gunnlaugsson arkitekt hjá ASK arkitektum segir þessar hugmyndir í samræmi við þróun sjávarútvegs undanfarin misseri og þróun sambærilegra borga í Evrópu. Hafnarsvæðin séu orðin afar eftirsótt fyrir margskonar viðburði á sviði menningar og þjónustu auk hafnsækinnar starfsemi. Markmiðið sé að svara aukinni eftirspurn eftir húsnæði til ýmiss konar nota á svæðinu. Páll segir að yfirbragð svæðisins muni taka mið af gangandi umferð og takmarkaðri þjónustuumferð. Skamtímahjólastæði verði staðsett nálægt inngöngum bygginga. Þá verði byggt bílastæðahús fyrir 300 bíla sem bæði verði ætlað starfsmönnum og almenningi.

Línbergsreitur eins og hann mun koma til með að líta út verði hinar nýju tillögur að veruleika.

Margvísleg starfsemi hefur þróast á svæðinu

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 til 2030 er að finna tilteknar forsendur og markmið fyrir skipulag og uppbyggingu svæðisins. Í því er m.a. lögð áhersla á að hafnsækinni starfsemi verði sköpuð góð vaxtarskilyrði. Á svæðinu vesturhafnarinnar er að finna margháttaða starfsemi tengda sjávarútvegi auk þess sem á undanförnum misserum hefur þróast þar fjölbreytt menningar- og þjónustustarfsemi sem fallið hefur að framtíðarhugmyndum borgarinnar um skipulag svæðisins. 

Vantar fjölbreytt framboð atvinnuhúsnæðis

Páll segir þessa breytingu á deiliskipulagi byggða á sjónarmiðum sem fram koma í aðalskipulagi borgarinnar. Við hluta Grandagarðs sé gert ráð fyrir fjölbreyttri menningar- og þjónustustarfsemi og þróun á starfsemi og uppbyggingu á Örfiriseyjarsvæðinu. Stefna borgarinnar sé að fjölbreytt atvinnulíf, nýsköpun, skapandi greinar og sprotafyrirtæki blómstri í Reykjavík. Til þess þurfi fjölbreytt framboð atvinnuhúsnæðis og atvinnusvæða og hafa skapandi hverfi á Granda verið nefnt meðal vaxtarbrodda í því sambandi. Páll segir það mat Faxaflóahafna sf. að hafa verði þá þróun sem átt hefur sér stað í sjávarútvegi hér á landi undanfarin misseri til hliðsjónar við skipulag svæðisins og megi nefna starfsemi Sjávarklasans og ýmissa hátæknifyrirtækja því til stuðnings. Þá er á svæðinu rekin einhver stærsta útgerð og fiskvinnsla á landinu og fiskmarkaður, ásamt fjölmörgum nýsköpunarfyrirtækjum í tengslum við sjávarútveg. 

Götumyndir eins og arkitektar ASK arkitektar sjá þær fyrir sér.

You may also like...