Nýjung sem ekki hefur elst vel

Fjöldi fyrirtækja og verslana hafa verið með starfsemi á Eiðistorgi í gegnum tíðina og hafa flest þeirra hætt starfsemi.

Eiðistorg er á mörkum Reykjavíkur og Seltjarnarness og dregur nafn sitt af býlinu Eiði sem stóð skammt frá þar sem Eiðistorg er nú. Býlið varð að víkja fyrir nýrri byggð og var það brennt í maí 1979. Fjórum árum síðar eða 1983 er farið að reisa byggingar á Eiði. Var um húsaþyrpingu að ræða þar sem íbúðir og verslun skyldi halda hönd í hönd. Hugmyndin var að þarna risi miðbær á Seltjarnarnesi en Nesið hafði ekki flaggað neinu er gæti talist til þess fram að þeim tíma. Í Morgunblaðinu 18. maí 1983 er fjallað um þessar byggingaframkvæmdir sem nýstárlegan miðbæ sem væri að rísa á Seltjarnarnesi. Miðbæ sem vekja muni athygli.

Þessar byggingar sem hannaðar voru af arkitektunum Örnólfi Hall og Ormari Þór Guðmundssyni voru í engri líkingu við það sem áður hafði sést hér á landi. Miðja hins nýja miðbæjar var yfirbyggt miðbæjartorg, upphitað með afrennslisvatni húsa í næsta nágrenni. Gert var ráð fyrir að hlýtt og notalegt yrði á torginu allan ársins hring og að fólk gæti gengið á milli verslana og fyrirtækja án þess að þurfa að berjast við kulda og trekk. Þá var einnig gert ráð fyrir að miðbæjartorgið yrði samastaður fyrir margvíslegar uppákomur og skemmtanir. Árið 1978 var auglýst eftir aðilum sem kynnu að hafa áhuga á að taka þátt í byggingu miðbæjar á Seltjarnarnesi reyndist strax mikill áhugi fyrir þessu verkefni.

Að bjóða upp á nýtt og sérstakt

Í Morgunblaðinu 19. maí 1983 var birt viðtal við Sigurgeir Sigurðsson sem þá var bæjarstjóri á Seltjarnarnesi. Í viðtalinu sagði Sigurgeir að þegar farið hafi verið að skipuleggja miðbæ á Seltjarnarnesi horfði orðið ljóst að til þess að gera slíkan stað eftirsóknarverðan fyrir fyrirtæki og viðskiptavini yrði að bjóða upp á eitthvað nýtt og sérstakt. Einnig yrði að taka tillit til veðurfars sem geti orið vindasamt á Seltjarnarnesi. Sigurgeir sagði að eftir ítarlegar athuganir hafi verið ákveðið að reisa yfirbyggt miðbæjartorg. Það hafi verið talið vænleg leið til þess að fá fólk til þess að fjárfesta og versla.

Íbúðahlutinn átti að styrkja verslunarhlutann

Í upphafi ver ákveðið að skipta Eiðisgrandasvæðinu í tvo megin hluta. Annars vegar íbúðahluta að austanverðu til að mynda skjól og nýta útsýnið. Þar er íbúðablokk númer 1 til 9 við Eiðistorg, sem að flestra dómi er mjög athyglisverð í öllu tilliti. Þar eru um 70 íbúðir. Margar hverjar með stórkostlegu útsýni og bílskýli fylgdi mörgum þeirra. Sigurgeir sagði í viðtalinu að þessar íbúðir myndi skapa miðsvæðinu ákveðna festu. Norðan Suðurstrandar, í framhaldi af miðbænum, væri Byggung að reisa sjö stórhýsi sem í verða um 120 til 130 íbúðir. Enn fremur yrðu 400 til 500 íbúðir í göngufjarlægð austan svæðisins, þannig að góður viðskiptakjarni er þegar fyrir hendi.

Besta fáanlega þjónusta hérlendis

Hins vegar er það svo verslunar og viðskiptahlutinn, sem liggur sunnan og vestan við yfirbyggða torgið. Grípum niður í viðtalið við Sigurgeir. “Þar er Vörumarkaðurinn hf. að byggja markaðsverslun, sem verður að gólffleti um 3.300 fermetrar, kjallari, tvær hæðir og ris. Það er óhætt að fullyrða að þessi verslun komi til með að bjóða bestu fáanlega þjónustu hérlendis, því hér er byggt frá grunni hús til að þjóna verslun eins og hún getur best orðið. Við torgið verður Útvegsbankinn með ágætt útibú, þarna verður lyfjabúð, fataverslun, tískuverslun, blómabúð, gleraugnaverslun, gullsmiður, hárgreiðslustofa, rakari og póstur og sími með aðstöðu. Og fleira mætti nefna.”

Fjöldi fyrirtækja á torginu

Fyrsta verslunin sem var opnuð á Eiðistorgi var matvöruverslunin Vörumarkaðurinn sem tók til starfa í ágúst árið 1983. Í kjölfarið fjölgaði verslunum á torginu og á blómaskeiði þess hafði fjöldi fyrirtækja þar aðsetur. Þar á meðal Útvegsbanki Íslands, síðar Íslandsbanki, Íslandspóstur, Nesapótek, bókaverslunin Eymundsson, skyndibitastaðurinn Selbitinn, íþróttavöruverslunin Sportlíf, leikfanga- og bókabúðin Hugföng, Blómastofan, snyrtivöruverslunin Evíta, vídeóleigan Tröllavídeó og fatahreinsunin Kjóll og hvítt. Um árabil hafði lögreglan bækistöð á Eiðistorgi og Lyfjastofnun var þar einnig lengi til húsa.

Nýtt líf með Innovation house 

Skemmst er frá því að segja að ekkert af þessu er enn starfandi á Eiðistorgi. Verslunin Nýibær tók við að Vörumarkaðnum og Hagkaup tók síðan við rekstri matvörubúðarinnar. Þar er nú auk Hagkaupa Bókasafn Seltjarnarness hárgreiðslustofan Perma, vínbúðin ÁTVR, veitingastaðurinn Rauða ljónið, Apótekarinn, Arna ís- og kaffibar og frumkvöðlasetrið Innovation house. Nokkur verslunar- og skrifstofurými standa auð og hafa sum þeirra ekki verið í notkun um nokkurn tíma. Með tilkomu Innovation house færðist nokkuð líf í starfsemi á Eiðistorgi en aðaleigandi þess Jon von Tetzchner hefur á undanförnum árum fjárfest umtalsvert í húsnæði á Eiðistorgi en hann er fæddur og uppalinn á Seltjarnarnesi.

Nýjar hugmyndir fengu blendnar viðtökur

Árið 2015 var haldin hugmyndasamkeppni um skipulag miðbæjar á Seltjarnarnesi og var þremur aðilum boðin þátttaka. Kanon Arkitektum, Trípólí/ VA Arkitektum og Hornsteinum. Kanon Arkitektar unnu samkeppnina sem náði til þriggja reita: Eiðistorgs, Austurstrandar og Melhúsareits þar sem leikskólar bæjarins eru. Samkeppninni var ætlað að draga fram hugmyndir sem skapa áhugavert bæjarrými til frekari þróunar og tengja reitina betur saman sem samhangandi heild. Ætlunin var að svæðið gæti byggst upp til að mæta þörf fyrir fjölbreyttari gerðir íbúðarhúsnæðis, sterkara atvinnusvæði og varðveislu þjónustu í bænum. Einnig að tekið yrði tillit til nærliggjandi þjónustu bæjarins á stofnana- og íþróttasvæðum. Skipulagshugmyndir Kanon arkiteka gerðu ráð fyrir miklum breytingum á þessu svæði. Þar á meðal íbúðabyggð við Norðurströnd þar sem nú er atvinnusvæði. Einnig íbúðabyggingum á Melhúsareitnum og víðar. Skemmst er frá því að segja að hugmyndirnar hlutu blendnar viðtökur á Seltjarnarnesi. Ekkert var aðhafst á grundvelli þeirra. Nú hefur verið ákveðið að efna til byggingar nýs leikskóla á Melhúsareit og þar með slegnar af allar hugmyndir um íbúðabyggð þar. Þessar hugmyndir munu endanlega hafa verið lagðar til hliðar.

You may also like...