Sumargleði og sæla

Í sumar hafa börn í frístundaheimilum Tjarnarinnar verið á ferð og flugi vítt og breitt um borgina. Börnin hafa upplifað ýmis ævintýri og kynnst spennandi stöðum, stöðum sem mörg þeirra eru að sjá í fyrsta sinn.
Siglt hefur verið til Viðeyjar, farið á hestbak, álfa leitað í Hellisgerði, söfn skoðuð, vaðið í lækjum, farið í berjamó, Öskjuhlíðin könnuð, ferð á Ylströndina, ævintýraleikvöllurinn Matthíasarborg heimsóttur, rýnt í fuglalífið, nýjar íþróttir prófaðar, pylsur grillaðar, vatnsstríð á sólardögum og svo lengi mætti telja. Börnin hafa svo jafnvel dregið fjölskylduna sína á nýja staði eftir heimsóknir með frístundaheimilinu og þannig skapað dýrmætar minningar. Að fá að upplifa gott sumar með vinum sínum og jafnvel kynnast nýjum er ómetanlegur þáttur í félagslífi barna. Þegar börnin geta gert það með frístundaheimilinu sínu og starfsfólki sem það þekkir vel, þá verður umhverfið afslappað og traust – og auðvelt að njóta alls þess fjölbreytta starfs sem er boðið er upp á. Það er því ekki skrítið að aðsókn í sumarstarf frístundaheimilanna sé mikil, þar er ávallt fjör og allir geta fundið sér eitthvað við sitt hæfi.

