Gróttubyggð – nýtt hverfi á Nesinu

Nýlega fór í loftið vefsíðan Gróttu­byggð, www.grottubyggd.is. Eins og flestir Seltirningar vita stendur til að reisa nýtt hverfi nyrst á Seltjarnarnesi, næst Gróttu, þar sem áður var iðnaðarhverfið við Bygggarða. Nýtt deiliskipulag hefur verið samþykkt fyrir svæðið og nú er unnið að hönnun hverfisins.

Gróttubyggð ehf. sér um framkvæmdir en það félag er dótturfélag fasteignaþróunarfélagsins Landeyjar ehf. Þorgerður Einarsdóttir, framkvæmdarstjóri Landeyjar, segir að vonir standi til að framkvæmdir geti hafist á A-hluta svæðisins 2021 og að fyrstu íbúðirnar komist í sölu 2022. “Það er að mörgu að huga við hönnun á hverfi sem þessu en mikið verður lagt upp úr því að tengja byggingarnar og nærumhverfi þeirra náttúru svæðisins”.

Vefsíðan verður lifandi svæði  þar sem allar nýjustu upplýsingar um svæðið verða settar inn. Áhugasamir aðilar geta til að mynda skráð sig á póstlista og fengið þá tilkynningu þegar teikningar liggja fyrir, þegar einingar koma í sölu o.s.frv.

“Við finnum fyrir miklum áhuga á þessu verkefni og skal engan undra, þar sem staðsetningin er einstök.” segir Þorgerður.

You may also like...