Ég þurfti alltaf að gera eitthvað með höndunum sem barn

– segir Esther Meehwa Herman útskrifaðist frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti með stúdentspróf og sem húsasmiður –

Esther Meehwa Herman undir ljósum á Cocina Rodriguez í Gerðubergi á dögunum.

Esther Meehwa Herman útskrifaðist frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti með stúdentspróf og einnig sem húsasmiður í lok liðinnar annar. Hún hafði nýlokið sveinsprófi þegar fundum hennar og Breiðholtsblaðsins bar saman á kaffihúsinu hjá Evelyn Rodriguez í Gerðubergi á dögunum. Esther er fædd hér á landi en af erlendi bergi brotin. Faðir hennra er Paul Michael Herman frá New Jersey í Bandaríkjunum en móðir hennar er Sayu Yamamoto Herman frá Japan. Þau komu hingað til lands fyrir 23 árum á vegum Unification movement sem er trúfélag, stundum kallað Sameiningarkirkjan. Hreyfingin á uppruna í Suður Kóreu. Var formlega stofnuð árið 1954 af Sun Myung Moon sem var trúarleiðtogi en einnig kunnur af afskiptum í veraldlegum málum.  

Hvernig stóð á því að þau ákváðu að flytja til Íslands. „Foreldrar mínir kynntust í Bandaríkjunum. Þau voru búin að vera saman í um eitt ár þegar þeim bauðst að fara til Íslands. Þau störfuð á vegum Sameiningarkirkjunnar og markmiðið var að kynna kenningar hennar og starfsemi hér á landi. Þau bjuggu fyrsta árið í litlu húsi á Hverfisgötunni en flutti síðan í Seljahverfið. Ég var eins árs þegar ég kom þangað og hef átt heima þar síðan.

Lærði japönsku til að ná sambandi við ömmu sína

Þótt Esther hafi búið frá eins árs aldri í Seljahverfi hefur hún ferðast mikið. Auk Bandaríkjanna hefur hún farið til Japan og dvalið hjá móðurfólki sínu þar. „Ég átti ömmu í Japan og því varð ég að læra dálítið í japönsku. Við systurnar vorum skildar eftir hjá henni til þess að læra máið og venjast japanska umhverfinu. Hún talaði ekki ensku svo ekki var um annað að gera en læra málið til að ná sambandi við hana. Það kom sér líka vel hér heima því ég fékk japönskuna metna sem aukamál í FB. Þurfti því ekki að byrja á nýju tungumáli.“ Esther hefur einnig komið til Suður Kóreu sem er ferðaskylft við Japan en meiri athygli vakti þegar hún sagðist hafa verið í Rúmeníu. Hvað var hún að gera þar. „Eldri bróðir minn bjó þar um tíma. Ég fór til hans og var í Búkarest og kom lítið út á land. Það er fallegt í Rúmeníu og mér fannst gaman að koma í rúmenska sveit. Það er dálítið sérstakt og öðruvísi en hér heima, vestanhafs og einnig í Japan.“

Esther Meehwa tekur við prófskírteini sínu úr hendi Guðrúnar Hrefnu Guðmundsdóttur skólameistara FB. 

Lærði íslenskuna í leikskólanum

Esther talar mjög góða íslensku og varla verður vart við erlendan hreim í málfari hennar. „Ég lærði íslenskuna í skóla en mamma og pabbi hafa aldrei lært íslensku að gagni. Við tölum alltaf ensku heima. Ég held það tengist starfsumhverfi þeirra hér á landi. Mamma hefur að mestu unnið að ferðamálum og pabbi í hótelbransanum. Þar gildir enska frá degi til dags. Þau töluðu hana í vinnunni jafnt sem heima og það gekk ekki upp hjá þeim með íslenskuna. Ég var svo heppin að komast snemma í leikskóla. Ég var í Hálsaborg sem heitir víst Hálsaskógur í dag og svo tók Seljaskóli við. Þannig kynntist ég íslenskunni snemma og náði tökum á henni sem barn. En ég skil alveg að fólki finnist erfitt að læra íslensku. Tungumálið er nokkuð flókið – einkum málfræðin og allar þessar beygingar. Þær geta verið erfiðar fyrir þá sem ekki eru vanir þeim. Ég á leikskólanum að mestu að þakka hvað ég náði íslenskunni fljótt.“

Eina barnið af asískum uppruna í Seljaskóla

„Ég fór svo í Seljaskóla. Hann er nánast við hliðina á okkur. Mér fannst góður andi í skólanum og líkaði vel. Ég er enn í sambandi við nokkur skólasystkini þótt við færum flest í sitt hvorn skólann þegar grunnskólanum lauk.“ Esther segir að margt hafi breyst frá því þau komu hingað til lands. „Ég var eini krakkinn af asískum uppruna í Seljaskóla. Nú eru fjöldi asísksættaðra barna þar og þó einkum í Fellaskóla. Í Fellunum er hreint fjölmenningarsamfélag. Ég man að ég var alltaf með í foreldraviðtölum. Ég þurfti að þýða fyrir mömmu og pabba. Kennararnir töluðu eðlilega ekki japönsku og sumir vildu heldur ekki tala ensku. Þetta hefur breyst. Flestir kennarar tala ensku í dag. Ég man líka að af því ég er ekki með erlendan hreim í íslenskunni þá héldu kennararnir að ég talað ekki ensku þótt hún sé mitt eiginlega móðurmál og alltaf töluð heima.“

Var alltaf að gera eitthvað með höndunum

Og svo tók FB við. „Já, ég var staðráðin í að fara í húsasmíðina. Ég var alltaf að gera eitthvað með höndunum þegar ég var krakki. Það átti meira við mig en að liggja í bókum. Ég tók stúdentsprófið með smíðinni til vonar og var ef ég vildi fara síðar í háskóla. Húsasmíðin getur verið góð undirstaða fyrir fög sem tengjast henni – til dæmis arkitektúr eða verkfræði. Þá er gott að kunna handverkið. En ég er ekki komin með nein áform um háskólanám hvað sem síðar kann að verða.“ En hvernig var fyrir stelpu að vera í húsasmíðanámi í FB. „Mér fannst það ágætt. Við vorum tvær stelpur sem vorum saman í þessu. Ég var líka dálítið í kvöldskólanum. Kennararnir voru skemmtilegir og allir af vilja gerðir til þess að hjálpa okkur. Aðstaðan í FB er líka góð. Stórt og rúmgott húsnæði. Síðasti áfanginn var við smíði sumarhúsa. Þá þurftum við að vinna úti og það gat verið dálítið kalt.“

Nemendur í húsasmíði við FB.

Hamarinn og nótnaborðið eiga enga samleið

Esther tók nokkurn þátt í íþróttum þegar hún var yngri. „Svo lærði ég dálítið á píanó. Tónskóli Sigursveins er hér nánast við hliðina á FB og stutt að fara. Mér fannst gaman að læra á píanóið. Það er allt annar heimur en ég verð aðeins að gæta að fingrunum þegar ég er að smíða. Hamarinn og nótnaborðið eiga enga samleið. Það gengur ekki að spila með fingur í gifsi.“ Esther kveðst hafa verið í sambandi við krakka af hinum og þessum uppruna. „Ég þekki krakka af japönsku uppruna og fór í japanskan skóla hér heima á laugardögum frá því að ég var fimm ára til þess að læra japanska letrið og byrja að læra tungumálið.  

Smíðin í blóðinu frá japanska afanum

Esther gerir ráð fyrir að fara fljótlega að vinna. Við smíðar en segist ekki vilja vinna mikið úti. „Nei ég er ekki svo mikið fyrir útiveru eða mikinn kulda. Þess vegna mun ég leggja áherslu á að fara í fínsmíði frekar en húsasmíðina sjálfa. Ég fæ að sjálfsögðu að halda á hamri þótt ég vinni mest innan dyra. Ég hef oft hugsað um hvaðan smíðaáhuginn er kominn. Hvort hann geti leynst í fjölskyldum mínum. Fyrir nokkru frétti að japanski afi minn sem er fallin frá fyrir alllöngu hafi verið smiður. Ég hef trúlega áhugann frá honum.“

Vil að mín börn fái íslenskt uppeldi

Esther er alþjóðleg í sér en hugsar hún sér að búa á Íslandi í framtíðinni. Hún segir það óákveðið. „Ég geri ráð fyrir að fara erlendis þegar þessu ástandi sem hefur takmarkað allar ferðir lýkur. Mér hefur komið til hugað að flytja um tíma til Japan. Kannski á ég eftir að smíða þar. Ég gæti alveg hugsað mér að fara aftur til Rúmeníu um tíma. Kunni vel við mig þar. Ég vona að ég geti látið verða af því að fara eitthvað í sumar. Veit ekki enn hvert en mig langar til að gera eitthvað skemmtilegt. Ég veit heldur ekki hvar ég mun koma til með að búa í framtíðinni. Ég get alveg hugsað mér að búa hér á landi þegar ég verð eldri. Ég er ein. En ef ég á eftir að stofna heimili og eignast börn finnst mér nauðsynlegt að þau fái íslenskt uppeldi. Alla vega til þess að læra tungumálið.

You may also like...