Nýsköpun er ein af burðarstoðum samfélagsins
– segir Þórður Magnússon stjórnarformaður Eyris Invest, Eyris Sprota og Eyris Ventures
Þórður Magnússon stjórnarformaður Eyris Invest, Eyris Sprota og Eyris Ventures spjallar við Vesturbæjarblaðið að þessu sinni. Um aldamótin síðustu ákvað hann ásamt Árna syni sínum að hefja starfsemi með mikla framsýni að leiðarljósi. Að stofna fjárfestingarsjóði sem hefðu það að megin markmiði að styðja við og efla nýsköpun í atvinnulífinu. Í dag um tveimur áratugum síðar fara sjóðirnir fyrir um 10 milljarða króna fjárfestingum í 15 ólíkum fyrirtækjum. Hann segir að líkja megi hlutverki sjóðanna við foreldrahlutverk og leggur áherslu á að vinna náið með stjórnendum við að byggja þau upp. Á meðal fyrirtækja sem Eyrir Invest á hluta að eru Marel sem er löngu þekkt fyrir sérhæfingu í þróun og framleiðslu búnaðar til framleiðslu matvæla og stoðtækjafyrirtækið Össur auk annarra fyrirtækja sem starfa á ýmsum sviðum.
Hvaðan kemur þessi maður sem hefur óbilandi áhuga á skapandi íslensku atvinnulífi og hefur lagt hluta starfsævi sinnar til að efla það og einkum sprotafyrirtæki sem byggð hafa verið upp í kringum hugvit. Þórður er fljótur til svars. “Ég er alin upp í Þingholtunum, fæddur við Bergstaðastræti en hef nánast alið allan vinn aldur í Vesturbænum. Lengst af á högunum með stuttum útúrdúr í Frostaskjólinu. Ættir mína liggja þó utan af landi eins og margra. Úr Laxárdal í Suður Þingeyjarsýslu. Sveitinni þar sem vagga kaupfélaganna stóð og langafi minn var Torfi Bjarnason í Ólafsdal við Gilsfjörð. Hann var mikill frumkvöðull í landbúnaði eins og margir þekkja. Stofnaði meðal annars búnaðarskóla.” Þórður kveðst hafa stofnað heimili ungur og verið enn í menntaskóla þegar elsti sonur hans fæddist. “Sá drengur er Árni Þórðarson sem nú er forstjóri Marel. Hinir eru Magnús Geir þjóðleikhússtjóri og Jón Gunnar. Hann er með bakgrunn úr leikhúsi líkt og Magnús Geir bróðir hans. Hann hefur starfað við leikstjórn og er nú framkvæmdastjóri Mussila sem er sprotafyrirtæki og vinnur að því að kenna börnum tónfræði og tónlist í gegnum tölvutækni.” Eiginkona Þórðar og móðir drengjanna er Marta María Oddsdóttir. “Konan er hreinræktaður Vesturbæingur. Ættuð af Grenimelnum og það kom eiginlega aldrei annað til greina en að búa sér heimili í þeim bæjarhluta.”
Góð ár í Minnesota
Þórður kveðst hafa farið að vinna eins og margir gerðu og gera enn með námi. “Ég fór að vinna í birgðageymslu hjá Símanum og var gerður að birgðastjóra þegar sá sem gegndi því starfi veiktist. Eftir stúdentspróf stundaði ég nám við Háskóla Íslands og fór síðan til Minnesota þar sem ég var við nám í tvö ár.” Þórður segir árin vestra hafa verið mjög góðan tíma. “Þarna var gamla íslenska samfélagið öflugt. Valdimar Björnsson fyrrverandi ráðherra var þarna allt í öllu. Hann var fæddur vestra. Var af annarri kynslóð vesturfara og talaði ágæta Íslensku. Valdimar hafði haft afskipti af stjórnmálum og blaðamennsku. Hann dvaldi líka á Íslandi á árum heimstyrjandarinnar og þar kynntist hann Guðrúnu konu sinni. Þarna starfaði Hekluklúbburinn og mikið félagsstarf var á meðal hinna Íslandsættuðu. Við duttum talsvert inn í þetta samfélag og gaman að kynnast þessu fólki.”
Þegar ullin var og hét
“Þegar ég kom heim gerðist ég markaðsstjóri fyrir ullar- og skinnavinnslu. Þetta var á þeim tíma þegar ullin var og hét. Mikil atvinna fylgdi ullar- og skinnavinnslunni. Um tíu þúsund manns höfðu atvinnu af henni á tímabili. Ég held að við höfum náð að byggja upp veruleg verðmæti í viðskiptasamböndum bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum. Síðan var einnig selt til Austur Evrópu. Eftir þetta starfaði ég sem framkvæmdastjóri fyrir Fríhöfnina í tvö ar. Fríhöfnin var þá lítil verslun í gömlu flugstöðinni. Verkefni mitt á þessum tíma var einkum að innleiða nútímann í starfsemi hennar. Færa hana í takt við nýja og breytta tíma. Svo flutti ég mig til Eimskip þar sem ég gerðist framkvæmdastjóri. Við Hörður Sigurgestsson komum þangað um svipað leyti. Þá var að hefjast nýtt tímabil í sögu skipafélagsins. Miklar breytingar urðu á skömmum tíma. Þar á meðan þurfti að skipta skipastólnum út. Með tilkomu gámaflutninga urðu gömlu skipin úrelt og útvega þurfti skip sem hentuðu fyrir slíka flutninga. Á þessum tíma voru farþegaflutningar að mestu komnir í loftið og Gullfoss hættur að sigla. Þegar þarna var komið sögu var starfsemin einnig að flytja á nýjar slóðir. Í Sundahöfnina sem búið var að skipuleggja þótt höfuðstöðvarnar væri enn í gamla húsinu við Hafnarstræti.”
Nýtt skref um aldamótin
Svo lá leiðin í einkareksturinn. “Já – ég hafði verið að að kenna við Háskóla Íslands með fram öðrum störfum. Markaðsfræði og eins alþjóðafjármálastjórnun eins og það hét. En þarna um aldamótin ákváðum við feðgarnir að stíga skref og halda á nýjar lendur. Við ákváðum strax í upphafi að byggja rekstur okkar á langtímamarkmiðum. Við vorum eina fjárfestingafélagið sem lifði hrunið 2008 af. Á árunum 2004 og 2005 gerðumst við stórir hluthafar í fyrirtækjunum Marel og Össuri. Við horfum til langs tíma til að byggja upp verðmæti. Við verðum að byggja reksturinn upp á væntingum sem eru að verða í heiminum. Dæmi um það er verkefni Marel að finna leiðir til þess að nýta hráefni betur. Það er í fullum takt við tímann og þá hugsun sem er að ryðja sér til rúms. Núna er verið að þróa verksmiðju þar sem þríviddartækni er beitt til þess að geta séð hlutina fyrir áður en farið er af stað. Raunverulega er hægt að horfa á verksmiðjuna starfa í myndrænni útfærslu. Þetta er dæmi um samstarf háskóla, umhverfis og atvinnurekstrar. Þetta hefur verið að þróast. Í fyrstu var það bundið við fiskinn en er nú að færast yfir í kjúklingaframleiðsluna. Það er verið nýta þá þekkingu sem hefur verið að skapast varðandi fiskvinnsluna yfir í aðrar afurðir. Nú er verið að setja upp möguleika þrívíddarinnar í kjúklingavinnslunni. Það styttir þróunarferlið að geta keyrt verksmiðjur áður en búið er að setja þær upp. Þróunin í gerð forritanna er að hluta til byggð á þekkingu sem hefur orðið til við gerð tölvuleikja.”
Grundvallaratriði að spyrja
Þórður segir að nú sé litið til að fjárfesta í sprotafyrirtækjum sem vinna að því að gera heiminn betri. Þar megi finna ýmsa þættir sem snúist um breytingar sem séu að eiga sér stað í heiminum. “Grundvallar atriði í þessu sambandi er að spyrja spurninga um starfsemi og rekstur fyrirtækja jafnvel þótt vegferð þeirra sé komin verulega fram á við. Grundvallaratriði í mínum huga að hafa skýra stefnu. Stundum þarf að fara yfir stöðuna. Jafnvel að hugsa markmið og leiðir fyrirtækja upp á nýtt. Stundum geta legið hlykkir á leið þessarar stefnu – þessari leið. Erfitt getur reynst að hverfa frá einhverju sem fólk hefur skapað af ástríðu og átt hug þess. En þá er að reyna að finna nýjar leiðir. Það hoppar enginn hærra en hann hugsar.”
Þurfum að koma nýrri tækni á markað
Nú stendur Eyrir Invest fyrir stofnun að nýjum sjóði til að fylgja þessum fjárfestingum eftir. Byggja upp fjármögnunarleiðir og deifileiðir til að fylgja þessum fjárfestingum eftir. “Við þurfum að koma nýrri tækni á markað. Allt tekur tíma og vegurinn er ekki alltaf beinn og breiður. Ég verð þó að segja að flest af því sem við höfum verið að gera hefur gengið upp.” Þórður viðurkennir að allt þetta kosti þrautseigju og seiglu. “Tækifærin eru mörg. Við erum til dæmis að ná langt í lyfjageiranum. Þar hefur mikil þekking og reynsla verið að myndast. Við trúum því að þau verkefni sem við erum að taka þátt í muni gera heiminn betri en hann er. Hluti af því er að leggja áherslu á vistvæna þætti. Íslenska vatnið. Hreina orku og annað sem við höfum fram að færa.”
Fólk lifir lengur
Þórður nefnir annað dæmi. “Við stöndum frammi fyrir því að fólk lifir lengur. Verður eldra. Meðalaldur fer hækkandi í heiminum. Spurning er um hvernig við ætlum að bregðast við þessu. Hverju þurfi að breyta til þess að bæta og varðveita lýðheilsu. Málið er hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að fólk veikist og þá ekki bara að bregðast við þegar vandinn hefur barið að dyrum. Í dag þarf fólk að fá tækifæri til þess að vinna lengur vegna þess að margir halda heilsu mun lengur en áður. Ef við höldum rétt á spilum mun starfsævin lengjast. Staðreyndin er hins vegar að hæfni líkamans til þess að vinna efni úr fæðunni minnkar með árum og aldri. Og þá er málið hvernig hægt er að vinna þau til þess að gera líkamanum kleyft að nýta þau og njóta. Til að styrkja ónæmiskerfi líkamans til að draga úr hrörnun. Gera þarf líkamanum leyft að hafa aðgang að þeim efnum sem hann þarf en nær ekki úr fæðu með árum og aldri.”
Þörungar og heilsujurtir
Saga Natura er eitt þeirra verkefna. Þar er verið að framleiða heilsubótarefni. Bæði úr þörungum og líka úr hvönn. Saga Natura þróar og framleiðir íslensk fæðubótarefni og heilsuvörur úr þörungum og heilsujurtum. Þörungarnir eru ræktaðir hér í Hafnarfirði og notuð er lífræn ætihvönn úr Hrísey. Saga Natura á sér skemmtilega sögu. Hana má að hluta rekja til Sigmundar Guðbjarnasonar lífefnafræðings og fyrrum rektors Háskóla Íslands. Af öðrum sem komu að þessu í byrjun má nefna Steinþór Sigurðsson, Bændasamtök Íslands, Ævar Jóhannesson og Þráinn Þorvaldsson. Þekktasta vörumerki fyrirtækisins var SagaPro en fyrirtækið hefur náð góðum árangri í útflutningi á sínum vörum. “Við teljum að Saga Natura sé búin að þróa tækni til að ná framleiðslu með minni tilkostnaði og betri gæðum með góðri framleiðslutækni, hreinu vatni og sjálfbærri orku. Ég er einnig þeirrar trúar að þörungarnir geti verið mikil uppspretta fyrir heilsubótavörur og í fæði framtíðarinnar.”
Krónan gerir erfitt fyrir
Þórður segir að þótt umgjörð um nýsköpun sé orðin góð verði að líta til þess að þegar kreppi að fái góðar hugmyndir ekki brautargengi. Þetta sé að gerast á sama tíma og þegar margt fólk sé án atvinnu og þar af stór hluti þess ungt fólk. “Námsmenn eiga í erfiðleikum með að fá vinnu. Nýsköpunarsjóður námsmanna þarf að hafa fjármuni og styrk til þess að úthluta meiru. Ég er að tala um þetta á sama tíma og verið er að greiða fjölda fólks atvinnuleysisbætur. Ég tel að opinberum fjármunum yrði betur varið með því að efla og styrkja ungt fólk til nýsköpunarstarfa. Nýsköpun verður að verða ein af burðarstoðum samfélagsins. Svo er það krónan,” heldur Þórður áfram. “Hún er að gera okkur miklu erfiðara fyrir en þyrfti að vera. Hún hleypur upp og niður og erfitt er að gera áætlanir. Svona lítill gjaldmiðill virkar ekki. Maður verður ekki þreyttur af því sem maður gerir heldur af því sem maður gerir ekki,” segir Þórður Magnússon að lokum.”