Breiðhyltingar – ,,Hverfið mitt“ kallar á ykkur

Sara Björg Sigurðardóttir
formaður íbúaráðsins í Breiðholti.

Breiðholtið er fullt af fjölbreytileika og skapandi einstaklingum en þið voruð einmitt svo öflug að koma með hugmyndir og ábendingar tengdar Hverfisskipulaginu að eftir var tekið. Í hugmyndasöfnun Hverfið mitt í ár slóum við met í innsendum hugmyndum sem var síðan að forvalliðum í byrjun sumars. Hvort tveggja segir mér að ykkur er annt um hverfið okkar og viljið gera það enn betra. Fimmtudaginn 30. september hefst kosning í Hverfið mitt og mun standa yfir í tvær vikur eða til hádegis þann 14. október 2021.  

 Upphæðin sem við í Breiðholti höfum til ráðstöfunar eru 130 milljónir króna og hefur aldrei verið hærri. Fyrir þá upphæð getum við gert hverfið okkar enn betra og skemmtilegra en upphæðin er sú hæsta sem hverfi borgarinnar fá til ráðstöfunar í ár. Það er í senn einfalt og fljótlegt að kjósa um þær hugmyndir sem forvaldar voru af ykkur í vor. Eftir tveggja ára hlé verður hægt að kjósa um eftirfarandi hugmyndir og koma þeim síðan í framkvæmd næsta sumar.  Þær hugmyndir sem hægt verður að kjósa um í stafrófsröð á tímabilinu 30. september til og með hádegis 14. október eru:  

 • Áningarstaður í Elliðaárdal
 • Bætt lýsing á völdum stöðum í hverfinu  
 • Endurgera leikvöll við Kambasel  
 • Endurnýja fótboltavöll á miðsvæði Efra-Breiðholts  
 • Endurnýja körfuboltavelli í hverfinu  
 • Fegra umhverfi í Bakkahverfi og Stekkjahverfi  
 • Fleiri bekki í hverfið  
 • Gróðursetja fleiri tré á völdum stöðum í Breiðholti  
 • Heilsuræktargarður í Seljadal  
 • Jólaljós í tré milli Efra- og Neðra Breiðholts  
 • Jólaljós við Seljatjörn  
 • Klifurleikvöllur í Efra-Breiðholti  
 • Leikvöll með risaeðluþema í Hábergi  
 • Nýjan brettagarð við Jafnasel  
 • Nýjar ruslatunnur í hverfið  
 • Skólahreystibraut við Fellaskóla  
 • Sparkvöll og leikvöll við Jaðarsel  
 • Stór róla í Breiðholti  
 • Stækka vaðlaugina í Breiðholtslaug  
 • Trampólíngarður  
 • Trjá- og gróðursöfn víðsvegar um hverfið  
 • Umbætur á Markúsartorgi  
 • Uppfæra strætóskýli á völdum stöðum í Breiðholti  
 • Útiborðtennisborð  
 • Útiæfingatæki á völdum stöðum í Breiðholti  
 • Vatnspóstar á valda staði í hverfinu  
 • Þrekstigi úr Neðra-Breiðholti upp í Efra-Breiðholt  
 • Ærslabelgur í Efra-Breiðholti  
 • Ærslabelgur í Neðra-Breiðholti  
 • Ærslabelgur í Seljahverfi  

Hvernig á að kjósa og hvað ber að hafa í huga 

Kosningin er rafræn og geta allir íbúar með lögheimili í Reykjavík og eru fæddir árið 2006, eða fyrr, tekið þátt. 

Kosið er á vefsvæðinu; www.hverfidmitt.is og opnar kosning þar 30. september.

Notendur auðkenna sig með Íslykli eða rafrænum skilríkjum en atkvæðin eru dulkóðuð og kosningin því leynileg.  

Íbúi velur fyrst borgarhluta og svo þær hugmyndir sem hugnast kjósanda þangað til upphæð hverfisins hefur verið ráðstafað.  

Hægt er að skoða þær hugmyndir sem kosið verður um á Hverfidmitt.is.  

Einungis er hægt að kjósa í einum borgarhluta og velur kjósandi í upphafi kosningar í hvaða borgarhluta hann kýs í. 

Síðasta kosning er gild en það er samt hægt að kjósa oftar en einu sinni.  

Ráðstöfunarfjárhæðin sést efst í valglugganum. Íbúar geta sett stjörnu við eina af þeim hugmyndum sem þeir kjósa og þannig gefið þeirri hugmynd tvöfalt vægi, þ.e. tvö atkvæði í stað eins. Ekki er nauðsynlegt að velja fyrir alla upphæðina sem hverfið hefur til ráðstöfunar, nægilegt er að velja eina hugmynd.  Vakin er athygli á að til geta kosið þarf að vera með rafræn skilríki í síma eða Íslykil. 

Allar nánari upplýsingar um auðkenni má nálgast á www.audkenni.is og um íslykil á www.island.is/islykill 

Hvenær kemst kosin hugmynd í framkvæmd

Hönnun verkefna, sem hljóta kosningu haustið 2021, fer fram veturinn 2021-2022 og stendur fram á vor. Að því loknu verða verkefnin boðin út og hefjast framkvæmdir sumarið 2022. Upplýsingum um framgang þeirra verður miðlað á vef Reykjavíkurborgar sem heitir Framkvæmdasjá. Leitast verður við að hafa samráð við hugmyndasmiði og íbúaráð um útfærslu verkefna – ekki síst í þeim tilfellum þegar þarf að breyta hugmyndum eða aðlaga svo þær séu framkvæmanlegar. Þeim hugmyndum sem ekki ná kosningu verður eftir atvikum komið í ákveðinn farveg hjá Reykjavíkurborg, t.d. sem ábendingum til fagráða eða sem innleggi í skipulagsumræðu. 

Aðstoð við að kjósa er hægt að fá í Þjónustuveri Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12 til 14, og á öllum fimm þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar á meðan kosning stendur yfir. Nánari upplýsingar um þjónustumiðstöðvar borgarinnar er hægt að nálgast á http://reykjavik.is/thjonustumidstodvar. Vakin er athygli á því að ekki er um að ræða íbúakosningu í skilningi 107. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er tóku gildi 1. janúar 2012.  

Tökum þátt og kjósum þau verkefni sem við viljum fá í hverfið okkar – Áfram Breiðholt. 

Sara Björg Sigurðardóttir

Höfundur er formaður íbúaráðsins í Breiðholti og varaborgafulltrúi Samfylkingar  

You may also like...