Hagaborg er 60 ára
Hagaborg er 60 ára um þessar mundir. Leikskólinn við Fornhaga í Vesturbæ Reykjavíkur, sem á sér einstaka sögu. Barnavinafélagið Sumargjöf byggði húsið og setti á stofn fjögurra deilda dagheimili sem tók til starfa þann 14. nóvember árið 1960. Sú starfsemi var einungis á neðri hæð hússins, en á efri hæðinni hefur margs konar starfsemi farið fram, sem velflest tengist börnum á einhvern hátt. Sumargjöf var þar með skrifstofu sína og fundarsal til langs tíma. Þar var ljósastofa Hvítabandsins í nokkur ár og um tíma íbúð fyrir forstöðukonu dagheimilisins. Skrifstofur Dagvistar barna voru á efri hæðinni þar til þær fluttu í Hafnarhúsið.
Eftir að skrifstofa Dagvistar barna flutti í Hafnarhúsið var efri hæðinni í Hagaborg breytt töluvert og sett á stofn skóladagheimili sem hét Hagakot. Þegar skóladagheimili borgarinnar voru lögð niður fékk Melaskóli húsnæðið til afnota fyrir skólasel eða lengda viðveru yngri barna. Árið 1997 keypti Reykjavíkurborg húsið af Sumargjöf, og um tíma ríkti nokkur óvissa um framtíðarhlutverk þess. Að endingu varð niðurstaðan sú að Hagaborg fengi allt húsið fyrir sína starfsemi. Vorið 1999 hófust gagngerar endurbætur og breytingar á húsinu og lauk þeim sumarið 2000.
Fimm deilda leikskóli
Í dag er Hagaborg fimm deilda leikskóli og dvelja þar að jafnaði 94 börn samtímis á aldrinum eins til sex ára. Dags daglega koma þar saman um það bil 120 einstaklingar til að læra saman í gegnum leik og góð samskipti. Ég er fullviss um að Hagaborg eigi sérstakan stað í hjörtum margra, enda er listinn langur yfir fyrrverandi og núverandi hagaborgara. Fyrir hönd starfsmanna og barna í Hagaborg, óska ég leikskólanum til hamingju með 60 árin. Megi Hagaborg lengi lifa.
Með kveðju.
Ólafur Bjarkason leikskólastjóri í Hagaborg.