Nýja Reykjavík

– Dagur B. Eggertsson fjallar ýtarlega um tímann í borgarmálunum í nýrri bók. Hér er gripið niður í kaflann um Breiðholtið – 

Séð yfir hluta Efra Breiðholts.

Út er komin bókin Nýja Reykjavík Umbreytingar í ungri borg. Höfundur bókarinnar er Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Nýmæli er að borgarstjóri í Reykjavík fjalli um uppvöxt sinn í borginni og þróun hennar frá því hann var strákur í Árbænum til dagsins í dag þegar hann er að ná átta árum í starfi borgstjóra og um tveimur áratugum í starfi að borgarmálum. Í upphafi bókarinnar segir hann frá því hvernig það bar til að hann fór að hafa afskipti af borgarmálum. Dagur kemur mjög víða við þar sem hann tvinnar saman æsku sína. Lífshlaup og störf að borgarmálum. Hér verður gripið nipur í kafla þar sem hann fjallar um Breiðholtið. Byrjum þar sem hann fjallar um Elliðaárdalinn sem er í næsta nágrenni við Breiðholtið og skilur Árbæinn og Breiðhotið að. Gefum Degi orðið.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

„Umræðan um Elliðaárdalinn er þó alltaf mikil og stundum heit. Til dæmis um svæðið sunnan hans, við Stekkjarbakka þar sem hugmyndir hafa verið settar fram um BioDome eða framsækinn áfangastað með fjölbreyttum gróðri. Óvíst er hvort nokkurn tímann verður af þeim áformum enda fjárfrek og áhættusöm framkvæmd.

Hugmyndir um framtíð Toppstöðvarinnar eru líka margar og sumar spennandi. Miðstöð jaðaríþrótta gæti orðið á þeim stað. Stóra verkefnið framundan er að vernda dalinn með uppbyggingu innviða og áningarstaða vegna útivistar. Ráða þarf til lykta framtíðarumhverfi Árbæjarstíflu sem hefur lokið hlutverki sínu og margir hverfisbúar sakna uppistöðulónsins sem þar var í nánast heila öld vegna rafmagnsframleiðslu. Ég skil þær tilfinningar mætavel og deili þeim að mörgu leyti. Hagsmunir laxa og lífríkisins kalla hins vegar á að lónið víki og það verði sírennsli í ánum. Lagt hefur verið til að fara í samkeppni um umhverfi stíflunnar. Vonandi leiðir það og betrumbætur á svæðinu til sátta. Í Elliðaárdalnum er jafnframt að fæðast orkusafn í botni dalsins sem verður skemmtileg viðbót og mun að sínu leyti halda sögu dalsins til haga eins og verðugt er.“

Áherslan á Breiðholtið er beint frá hjartanu

„Það vakti mikla athygli þegar við kynntum nýjan borgarstjórnarmeirihluta á þaki stærstu blokkar landsins í Breiðholti, Æsufellinu. Okkur fannst það táknrænt því við ætluðum að leggja áherslu á þetta gamla góða en stundum vanrækta hverfi. Margt var komið á tíma, eins og við var að búast um fimmtíu árum eftir að bygging þess hófst. Annað hafði látið undan síga vegna borgarþróunar. Gömlu hverfiskjarnarnir voru margir hálfgerð hryggðarmynd. Íþróttafélögin kölluðu eftir athygli og fjárfestingu. Skólanir einnig. Vandinn var sá að fjármunir til fjárfestinga voru takmarkaðir svona skömmu eftir Hrun en við forgangsröðuðum í þágu hverfisins. 

Jón Gnarr fékk þá snilldarlegu hugmynd að færa skrifstofuna sína tímabundið í hverfið. Af hverju hafði engum dottið það í hug áður? Mér fannst ótrúlega spennandi að takast á við þetta. Hafði sjálfur sett af stað pælingar um Breiðholt í hundrað daga meirihlutanum en ekki unnist tími til að vinna úr þeim. Við ákváðum að skólalóðirnar, umhverfi barnanna, yrðu í fyrsta forgangi í Breiðholti. Í stað sand- og moldroks af skólalóð Seljaskóla komu risavaxin hreystibraut og hreyfitæki. Skólalóð Fellaskóla varð eins og samfellt listaverk og þannig mætti áfram telja. Jón vildi fókusera á menningu. Mér leist vel á það og velti upp þeirri hugmynd að gefa málningu til að mála allar blokkirnar í Efra-Breiðholti í alls konar litum. Þetta var ekki úr lausu lofti gripið heldur hugmynd sem ættuð var frá Edi Rama sem valinn var borgarstjóri heimsins eftir að hafa gert þetta á stórum skala í höfuðborg Albaníu, Tirana. Hafþór Yngvason forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur var virkjaður í hugmyndavinnu og fékk miklu betri hugmynd. Að fá bestu listamenn þjóðarinnar til að gera veggmyndir á hina risavöxnu gafla í Breiðholtinu. Hin risavaxna Fjöður Söru Riel á gafli Asparfellsins var fyrsta verkið og sló strax í gegn. Verkin voru hvert öðru betra. Theresa Himmer gerði verk í Jórufelli. Erró gerði verk í Álftahólum sem einnig var sett upp sem mósaíkverk við Breiðholtslaug og Ragnar Kjartansson endurgerði jólakort til kærustu sinnar á gaflana í Krummahólum, vatnslitamynd öðrum megin og ástarorð hinum megin. Algerlega magnað allt saman. Verkin urðu bæði umtöluð og umdeild. Það var hluti tilgangsins. Að umræðan um Breiðholt breyttist, snerist meira um list og sköpun en síður um vandamál fortíðar eða neikvæða hluti. Ég talaði um Efra-Breiðholt sem stærsta listasafn landsins. Og elskaði þetta. Við fluttum reyndar einnig tvær klassískar höggmyndir eftir Ásmund Sveinsson í Seljahverfið. Þetta voru hin gullfallegu verk Móðir mín í kví kví og Fýkur yfir hæðir. Þau voru, merkilegt nokk, fyrstu útilistaverkin sem sett voru upp í hverfinu.“ 

Langavitleysa endurgerð

„Eitt af stóru verkefnunum í Breiðholtinu var að taka í gegn og endurgera göngustíginn sem lá meðfram lengstu blokkinni í Fellunum sem kölluð hefur verið Langavitleysa. Það var skemmtileg framkvæmd og gerð eftir hugmyndasamráð við tólf ára bekki í Fellaskóla. Hægt gekk að koma fjárfestingum einkaaðila af stað í gamla hverfakjarnanum í Eddufelli og Völvufelli. Við reyndum að hvetja til þeirra með því að setja þar upp FabLab í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Við höfðum einnig milligöngu um að hluti starfsemi Nýlistasafnsins fluttist í húsnæði á svæðinu. Ein íbúðablokk reis. Á endanum misstum við þolinmæðina í bið okkar eftir eigendum annarra fasteigna á svæðinu og ákváðum að kaupa þær upp og endurskoða deiliskipulagið til að raunveruleg endurnýjun ætti sér stað. Þetta var þrautalending en mun leiða til farsællar niðurstöðu. Sömu aðferð ákváðum við að beita í Arnarbakka eftir að tilraunir til að ná eignaraðilum saman um uppbyggingu höfðu siglt í strand. Bæði verkefni munu verða andlitslyfting fyrir hverfin.

Menningarmiðstöðin Gerðuberg í Breiðholti er gersemi sem við vildum hlúa að. Húsnæðið hefur fengið andlitslyftingu og torgið fyrir utan ætti að vera næst á dagskrá. Við auglýstum einnig eftir áhuga líkamsræktarstöðva á að staðsetja sig við Breiðholtslaug. Úr því varð samningur um glæsilega stöð WorldClass. Ég hef líka ræktað sambandið við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og frábæran skólameistara FB, Guðrúnu Hrefnu Guðmundsdóttur. FabLabið sem hóf göngu sína í Eddufelli er nú komið inn í skólann. Áfram er lögð áhersla á góð tengsl við grunnskóla hverfisins. Við höfum einnig gert samning við menntamálaráðuneytið um að reisa í sameiningu nýjar byggingar yfir iðn- og listgreinar skólans við Hraunberg og verður allt verkefnið með grænu ívafi og umhverfisvottað. Ég er viss um að þessi viðbót verði skólanum mikilvæg í frekari sókn.“

Ungt fólk og íþróttir í brennidepli

Samstarfið við ÍR var einnig mjög í forgrunni. Þetta gamla íþróttastórveldi státar af einna flestum iðkendum allra íþróttafélaga landsins í fjölmörgum deildum. Starfsemin hefur þó náð of lítið til krakkanna í Efra-Breiðholti. Þar hefur Leiknir verið með starfsemi, nær eingöngu í knattspyrnu. Því miður hefur ekki gengið vel að auka samvinnu þessara félaga. Við gerðum tvo stóra samninga við ÍR, byggða á eldri samningum sem ekki höfðu komist til framkvæmda. Fyrstu skrefin voru að endurnýja gólf og aðstöðu í íþróttahúsi Seljaskóla og Austurbergi til að ÍR fengi öfluga heimavelli í handbolta og körfubolta. Félagið tók yfir rekstur húsanna og síðar einnig hús Breiðholtsskóla. Samið var um gerð fullkomins æfingavallar fyrir frjálsar íþróttir á svæði félagsins í Mjódd. Í síðari samningi var samið um að byggt yrði fjölnota knatthús með aðstöðu fyrir innanhússæfingar í frjálsum og til viðbótar keppnishús í boltaíþróttum í Mjódd og loks fimleikahús í Efra-Breiðholti.

Alls verða þetta fjárfestingar fyrir um fimm milljarða og algjör umbylting á allri aðstöðu. Kannski lýsir það þó landlægri tortryggni og vantrausti í garð borgaryfirvalda að það var meira en að segja það fyrir Ingigerði Guðmundsdóttur, öflugan formann félagsins, og Hjálmar Sigþórsson forvera hennar að standa með okkur að þessum samningum og verkefnunum sem af þeim leiða. Það gerðu þau bæði með sóma. Við ákváðum að fimleikahúsið yrði einnig fyrir dans sem nýtur mikilla vinsælda í hverfinu og er vinnuheiti verkefnisins Dans- og fimleikahús Reykjavíkur – í Breiðholti.

Húsið verður staðsett á besta stað við Austurberg. Draumur minn er að Fjölbrautaskólinn í Breiðholti byrji með dansbraut en skólinn hefur náð miklum árangri með kennslu í myndlist og öðrum listgreinum á framhaldsskólastigi.

Einsleit félagsleg samsetning er arfur fortíðar í vissum götum Breiðholts. Það verður að horfast í augu við það. Góð félagsleg blöndun er því augljóslega svarið í framtíðinni. Í nýju hverfaskipulagi fyrir Breiðholt er hugsað fyrir þessu. Við viljum að stúdentaíbúðir rísi í Efra- og Neðra-Breiðholti, viljum gjarnan að græn þróunarverkefni með íbúðarhúsnæði verði einnig að veruleika þar og opnum á stærri hús og íbúðir. Reisa á nýjan og öflugan leikskóla í Völvufelli í stað þriggja lítilla eininga sem verða sameinaðar. Þannig á að vinna gegn því að fátt fagfólk hefur fengist til starfa og að nánast einungis börn af erlendum uppruna eru í sumum skólunum.

Jafnframt hafa Félagsbústaðir og Reykjavíkurborg í hyggju að ráðast í róttækar breytingar í Jórufelli þar sem félagslegar íbúðir eru margar á einum stað. Efna á til skipulagssamkeppni og ekki er útilokað að hluta núverandi húsnæðis verði gjörbreytt eða það jafnvel rifið að einhverju leyti.

Að baki áherslunni á Breiðholt, fjárfestingunni og verkefnunum þar býr hugsjón um aukinn jöfnuð og sérstaklega jöfn tækifæri barna og unglinga. Sú var ekki raunin í Breiðholti þegar ég var að alast upp í Árbænum. Fjöldi efnilegra krakka ólst þar upp. Þeir sem voru bestir í fótbolta voru allir dregnir í KR, Val, Víking eða Fram. Þeir lakari sátu eftir og árangurinn var í samræmi við það. Við unnum Leikni iðulega með meira en tíu marka mun.

Það var áfengislykt af þjálfaranum. Staðan var betri í handboltanum.

Líklega var það hinum góðu hand-boltahúsum að þakka. Það vantaði hins vegar margt í umhverfið til að styðja við þátttöku og árangur. Það er í mínum huga á ábyrgð borgarinnar að leggja sitt af mörkum til að breyta því. Í tölulegum gögnum hefur blasað við ár eftir ár að þátttaka barna og unglinga í góðu frístundastarfi er minni í Breiðholti en í öðrum hverfum. Margir töldu að þetta værivegna mismunandi menningarheima og fjölda innflytjenda í Breiðholti.

Þegar prófað var að hafa íþróttir án endurgjalds fyrir yngstu hópana rauk þátttakan hins vegar upp. Ástæðan var meðal annars fjárhagsleg. Við höfum því ekki látið nægja að auka fjárfestingar heldur höfum sett af stað sérstakt verkefni, Frístundir í Breiðholti.

Þar veitum við aukna styrki og opnum á alls konar tilraunir til að auka þátttöku. Verkefnið er leitt af kraftaverkamanninum Þráni Hafsteinssyni. Ég er sannfærður um að það muni skila árangri og að Dans- og fimleikahúsið geti einnig skipt miklu máli þegar fram í sækir. Við hættum ekki fyrr en við höfum náð þeim árangri sem að er stefnt, að krakkar í Breiðholti gefi krökkum í öðrum hverfum ekkert eftir í þátttöku. Það er fátt sem stendur mér nær hjarta en einmitt þetta.“

You may also like...