Nýtt íþróttahús ÍR í Suður Mjódd
Hafin er bygging nýs íþróttahúss á íþróttasvæði ÍR í Suður Mjódd í Breiðholti. Í húsinu verður hægt að iðka ýmsar íþróttagreinar, þar verður mögulegt að spila keppnisleiki í handknattleik og körfubolta í efstu deildum. Fjöldi áhorfenda verður um 800 manns í útdraganlegum áhorfendabekkjum og möguleiki á 1000 manna borðhaldi á salargólfi.
Við norðurhlið íþróttasalar verða búningsherbergi, þrjú sett, þar sem tvö og tvö búningsrými sameinast um sturtu- og þurrkaðstöðu. Í þessum húshluta verður einnig aðstaða fyrir starfsfólk, kennara og dómara, ræstingu og afgreiðslu hússins sem aftur tengist forsal og aðalinngangi. Forsalurinn mun leiða að áhorfendasvölum í íþróttasal. Fjölmiðlaherbergi, aðgengilegt um svalir í sal er í útbyggingu á suðurhlið og inniheldur einnig tæknirými og geymslur.
Hægt að spila á þremur völlum
Við æfingar og fjölliðamót yngri flokka verður íþróttasal skipt upp í tvo eða þrjá hluta með tjöldum þvert á sal. Hægt verður spila á þremur völlum, þvert á aðalsal þegar yngstu deildirnar eru að spila og þá án áhorfendapalla. Einnig er hægt að skipta salnum í tvennt og spila á tveimur völlum. Í öðrum hlutanum verður spilað á völlum í fullri stærð með áhorfendum en á æfingavöllum án áhorfenda í hinum.
Gert er ráð fyrir að húsið verði tekið í notkun í byrjun árs 2022. Hönnuðir íþróttahússins eru ASK arkitektar.