Náttúruvernd og minjavernd takast á
Miklar umræður hafa skapast vegna þeirrar ákvörðunar Orkuveitu Reykjavíkur að tæma Árbæjarlón í Elliðaánum endanlega en hætta að tæma það og fylla eftir árstíðum eins og verið hefur. Í ljósi þeirrar umræðu sem hefur skapast eftir varanlega tæmingu Árbæjarlóns ofan Árbæjarstíflu hefur Hafrannsóknastofnun birt minnisblað sitt sem Friðþjófur Árnason líffræðingur setti saman að beiðni Orkuveitu Reykjavíkur.
Þar kemur fram að svæðið á lónsstæðinu sé sífellt að breytast með árlegri söfnun vatns og tæmingu en við þannig aðstæður verður nær ólíft fyrir hrogn og seiði.
Mælingar sem gerðar voru við tæmingu Árbæjarlóns vorið 2020 sýndu að neðan við stíflu fór súrefnismagn árvatnsins niður 9,3 prósent mettun við lok tæmingar vegna súrefnissnauðs vatns úr botni lónsins. Það ástand varði í um klukkutíma og varð þá súrefnismettun eðlileg á ný.
Minjastofnun ósátt
Minjastofnun Íslands hefur gert alvarlega athugasemd um tæmingu lónsins á þeim grundvalli að Árbæjarstílfan sé friðuð þótt lónið ofan hennar teljist ekki friðað. Minjastofnun óskaði upplýsinga um hvort að Orkuveitan hafi kannað hvort og þá hver áhrif það kann að hafa á varðveislu stíflunnar að ekki verði lengur uppistöðulón fyrir ofan hana. Málið varðar því ekki lónið sjálft heldur áhrif tæmingarinnar á mannvirkið að mati Minjastofnunar.
Orkuveita Reykjavíkur ákvað að tæma Árbæjarlón til frambúðar eftir ráðgjöf frá Hafrannsóknastofnun þar sem hagsmunir lífríkis Elliðaáa voru hafðir að leiðarljósi.
Óskaði tillagna frá Hafró
Orkuveitan óskaði eftir tillögum frá Hafrannsóknastofnuninni eftir að vatnsgæðamælingar í vor sýndu að árleg tæming á lóninu væri ekki æskileg fyrir lífríkið. Stofnunin lagði fram fjórar sviðsmyndir og raðaði þeim eftir vænleika með tilliti til vatnalífríkis. Hafrannsóknarstofnun taldi vænlegast að fjarlægja Árbæjarstíflu og ganga frá svæðinu í upprunalegt ástand. Í gögnum frá Hafrannsóknastofnun kemur fram að þótt Árbæjarstífla teljist lítil stífla geti áhrif hennar á lífríkið þó verið talsverð, einkum fyrir göngufiska eins og laxfiska og ál.
Óánægja á meðal íbúa
Íbúar í nágrenni stíflunnar hafa lýst yfir óánægju með tæmingu lónsins en margir hafa áhyggjur af breyttu fuglalífi sem og mannlífi. Svæðið er vinsæll staður þar sem fjölmargir staldra við þegar gengið er stífluhringinn til að njóta náttúrunnar og gefa öndunum að borða. Andapollurinn er sagður hafa mikil áhrif á andlega heilsu þeirra sem nýta svæðið til útivistar en samkvæmt dýravistfræðingi er líklegt að endurnar færi sig um set nú þegar lónið er farið. Borgarráð hefur skipað sérstakan stýrihóp til að vinna að tillögu í samráði við helstu hagsmunaaðila, um mótvægisaðgerðir í kjölfar tæmingar lóns Árbæjarstíflu sem horfir meðal annars til fuglalífs, annarrar náttúru og mannlífsins í dalnum.