Markmið um brotthvarf olíustöðvarinnar óraunhæf
Stjórn Faxaflóahafna hefur ekki gert athugasemdir við að olíustöðin í Örfirisey verði lögð af fyrir lok gildistíma gildandi aðalskipulags en bendir á að sú tímalína kunni að vera óraunhæf. Stefna Reykjavíkurborgar er að minnka umfang olíubirgðastöðvarinnar í Örfirisey um 50% á næstu fimm árum. Óvíst er þó að hún gangi upp sé mið tekið af nýrri samþykkt stjórnar Faxaflóahafna.
Stefna borgarinnar á sér rætur í að á fundi borgarráðs 7. maí 2019 þar sem samþykkt var tillaga borgarstjóra þess efnis að herða á því markmiði að fækka bensínstöðvum í borginni um helming fyrir árið 2025 en ekki árið 2030 eins og segir í aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum. Í tillögu borgarstjóra frá þeim tíma kemur fram að það verði teknar upp viðræður um að umfang olíubirgðastöðvarinnar í Örfirisey minnki með tímanum og markmiðið verði að umfang hennar verði helmingi minna en nú er, eigi síðar en árið 2025. Lóðaleigusamningur við Olíudreifingu er í gildi til ársins 2036 og gera Faxaflóahafnir ráð fyrir að hann verði framlengdur. Hins vegar kemur fram í samþykkt stjórnar Faxaflóahafna stuðningur við frumkvæði til að bregðast við þróun í loftslagsmálum og breytingar sem mögulega þarf að gera þar að lútandi.