Leiknisstarfið er mikilvægt

Gudny Sævins 1

Guðný Sævinsdóttir og auðvitað stillti hún sér upp undir merki Leiknis – hvað annað.

Guðný Sævinsdóttir var tveggja ára að aldri þegar foreldrar hennar fluttu í Breiðholtið og kveðst hún ekki hafa yfirgefið þessa byggð nema með tímabundnum hætti á háskólaárum sínum í Háskóla Íslands og erlendis. Guðný er með meistarapróf í spænsku en starfar í hugbúnaðargeiranum hjá Applicon ehf. dótturfyrirtæki Nýherja. Hún er þriggja barna móðir og hefur tekið virkan þátt í skóla- og tómstundastarfi. Aðallega hefur hún þó ljáð félagsstarfi Leiknis krafta sína og situr nú í stjórn félagsins. Ég tel starf Leiknis mjög mikilvægt ekki síst fyrir krakkana í hverfinu,“ segir Guðný sem gaf sér stund til að skreppa út á Te og Kaffi í Borgartúninu í einu hádegishléi á dögunum og spjalla um byggðina sína.

„Ég tel mig vera ekta Breiðhylting enda man ég ekki eftir mér annars staðar. Ég var rétt um tveggja ára aldurinn þegar foreldrar mínir fluttu upp eftir. Við bjuggum fyrstu átta árin í Asparfelli en svo byggðu pabbi og mamma hús í Neðstabergi við hliðina á Fella- og Hólakirkju. Ég byrjaði í Fellaskóla og þegar við fluttum í Neðstabergið átti ég að skipta um skóla og fara í Hólabrekkuskóla ásamt systkinum mínum. Ég var hins vegar ekkert á því að yfirgefa skólann minn og var því allan grunnskólann í Fellaskóla. Ég var held ég ekki mikið fyrir breytingar og kennarinn minn á þeim tíma, Sveinfríður Jóhannesdóttir, var í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég var frekar rólegur krakki og sótti svo sem ekki mikið í félagslífið. Ég fór t.d. ekki oft í Fellahelli en ég fór á skóla-skemmtanir með skólafélögum mínum og átti góðar vinkonur í Fellaskóla. Í dag búa þó nokkrir úr mínum árgangi í hverfinu þannig að maður er í sambandi við suma t.d. í gegnum fótboltann. Mér finnst það dásamlegt. Í Neðstaberginu voru samt bestu vinirnir sem ég var með eftir skóla. Það var einstakur hópur af krökkum í götunni. Við vorum örugglega um 30 sem héldum hópinn og vorum úti að leika á daginn og fram á kvöld. Þegar við komumst á unglingsárin tóku mörg okkar virkan þátt í æskulýðsstarfinu í Fella- og Hólakirkju en það var hentugt að hafa kirkjuna nánast í garðinum hjá sér. Það var mjög gaman að alast upp í svona samfélagi frumbyggja ef svo má kalla. Fólk var að koma sér þaki yfir höfuðið og gera garðana sína fallega og mér finnst eins og það hafi verið mikil samheldni og mikill samgangur. Allir þekktust og hjálpuðust að. Það eru eintómar góðar og dýrmætar minningar frá þessum tíma. Þegar við uxum úr grasi og fórum í framhaldsskóla splittaðist hópurinn auðvitað upp að einhverju leiti en ég veit að margir halda góðu sambandi. Sumir fóru í FB en aðrir í skóla utan hverfisins og svo bara eins og gengur fer fólk í mismunandi áttir en maður veit samt nokkurn veginn hvar allir eru niðurkomnir og við hvað fólk er að fást, þökk sé samfélagsmiðlunum. Sem krakki fór ég mikið í sveitina á sumrin. Var hjá móðursystur minni austur á Mýrum í Hornafirði. Þar voru aðallega hestar og refarækt og ég gat yfirleitt ekki beðið eftir því að komast í sveitina. Ég veit ekki nákvæmlega hvað dró mig helst þangað því auðvitað var líka í boði að vera heima á sumrin og fara í unglingavinnuna eins og systkini mín. Kannski voru það óendanlega stríðnu frændur mínir eða bara fólkið mitt í sveitinni. Kannski bara dýrin og sveitaloftið. En ég hef alltaf haft mikla þörf fyrir að vera að gera eitthvað og í sveitinni fékk maður svo sannarlega verkefni.“

Spænskan heillaði mig

Þú valdir spænsku þegar kom að háskólanámi. Var það ekki framandi á þeim tíma? „Nei, í rauninni ekki, vinsældir spænsk-unnar voru mjög að vakna á þessum tíma. Ég hafði alltaf mikinn áhuga á tungumálum. Valdi þýsku sem valgrein í 10. bekk og fór á málabraut í FB. Þar kenndi Sigrún Eiríksdóttir mér spænsku og hún hafði mikil áhrif á mig og marga aðra, enda var hún mjög gefandi og ástríðufullur kennari í faginu. Ég fór reyndar sem skiptinemi til Þýskalands þegar ég var 18 ára og var í eitt ár en spænskan hafði samt yfirhöndina. Eftir stúdentspróf fór ég ásamt bestu vinkonu minni til Madrídar sem Aupair og í beinu framhaldi fórum við báðar í spænsku í Háskóla Íslands. Mig langaði svo að bæta meiru við mig þannig að mastersnám í spænskukennslu var síðasta skrefið á þessari braut. Svo var bara stefnan tekin á allt aðra hluti!” Þegar ég var í FB byrjaði ég að vinna í Reykjadal á sumrin en það eru sumarbúðir fyrir fötluð börn á vegum Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Ég vann þar á sumrin áfram á meðan ég var í BA náminu og þetta var ótrúlega skemmtilegur og gefandi tími og manni lærðist margt í þessu umhverfi. Það var alltaf gleði upp á hvern einasta dag. Eftir útskrift úr háskólanum fékk ég vinnu við móttöku og símsvörun hjá Hagvangi sem er ráðgjafafyrir-tæki á sviði mannauðsmála. Ég fór svo í mastersnámið en hélt áfram hjá Hagvangi eftir námið og var þá í ráðningum. Eftir nokkur ár á þeim vettvangi var ég komin á þann stað sem ég er í dag, s.s. til Applicon sem er dótturfyrirtæki Nýherja. Þetta er þróunarfyrirtæki sem vinnur meðal annars að hugbúnaðargerð. Ég er þó ekki sjálf að fást við forritun heldur starfa sem ráðgjafi við uppsetning-ar á hugbúnaði og þjónustu. Við erum til dæmis núna að vinna við uppsetningu á launa- og mannauðskerfi fyrir Reykjavíkurborg sem er gríðarlega mikið verkefni.“ Hugbúnaðarráðgjöf er ekki ósvipuð kennslu; maður er mikið að leiðbeina viðskiptavinum og finna út bestu mögulegu lausn. Þannig má segja að mastersnámið mitt nýtist. Ég fæ líka mikið út úr tæknilega hlutanum, mér finnst gaman að sökkva mér ofan í hluti og gera og græja eins og maður segir.

Leiknir gegnir þýðingarmiklu hlutverki

En Guðný hefur einnig verið að sinna félagsmálum og komið talsvert við sögu Leiknis að undanförnu. „Ég var aldrei í fótbolta sjálf og hafði ekki sérstakan áhuga á honum. Ég var hins vegar í fimleikum um tíma. Þegar ég varð fullorðin byrjaði ég svo að hlaupa og það hefur verið mitt helsta sport þó ég hafi dregið úr síðustu tvö árin eða frá því ég varð ófrísk af síðasta krílinu. En ég hef tekið þátt í tveimur maraþonhlaupum, einu í Kaupmannahöfn og öðru í Stokkhólmi og aldrei að vita nema maður taki eitt í viðbót. Afskipti mín af Leikni byrjuðu þegar strákarnir mínir, sem eru fæddir árin 2000 og 2003, fóru í íþróttaskólann hjá Leikni. Þá kynntist maður félaginu fyrst. Þegar þeir voru svo báðir byrjaðir að æfa með yngri flokkunum þá sogaðist maður einhvern veginn inn í þetta starf og á endanum var ég farin að starfa með unglingaráðinu. Ég held að það megi segja að þetta hafi verið eitt af mínum stærstu áhugamálum síðan, þ.e. félagið og velferð þess. Mér finnst Leiknir og allt í kringum Leikni frábært. Og þá er ég ekki að meina að það megi ekki bæta hluti því það má margt betur fara. Ég á við Leiknisandann, fólkið sem starfar í kringum félagið og fyrir hvað Leiknir stendur. Leiknir er vel rekið íþróttafélag og við leggjum okkur fram við að standa undir merkjum hvað varðar þjónustu við börnin í hverfinu okkar sem og samfélagslega ábyrgð. Eitt af því er starfsemi íþróttaskólans sem starfar á laugardögum. Íþrótta-skólinn er ókeypis og er fyrir börn á forskólaaldri. Við höfum alltaf lagt mikið upp úr því að geta boðið þessa þjónustu gjaldfrjálst og viljum ekki breyta því. Við höfum einnig verið stolt af því að geta boðið lægstu æfingagjöldin á höfuðborgarsvæðinu síðustu árin sem og mjög ódýr sumarnámskeið í knattspyrnuskólanum á sumrin. Ég vona að fólk hafi veitt því athygli hversu mikið við leggjum upp úr þessu. Leiknissvæðið er auðvitað frábærlega staðsett á milli tveggja grunnskóla. Aðgengið gæti tæpast verið betra en draumurinn er að bæta æfingaaðstöðu félagsins og það segir sig sjálft að það er verkefni næstu ára.“

Sjálfboðavinnan er undirstaða íþróttafélaganna

Guðný segir ótrúlega marga tilbúna að leggja þessu starfi lið. „Það sýndi sig auðvitað í sumar þegar við spiluðum í efstu deild að allir eru tilbúnir að hjálpast að þegar mikið liggur við og félagsandinn er sterkur. Það þurfti að gera ýmislegt til að standa undir þeim kröfum sem sett eru á félög sem spila í efstu deild og það hafðist allt saman. Leiknisljónin settu svo punktinn yfir i-ið. Þetta var virkilega skemmtilegur tími og við stefnum að sjálfsögðu aftur upp. Sjálfboðastarfið gengur upp í gegnum alla flokka og margir foreldrar eru ótrúlega duglegir, Það er ómetanlegt fyrir þjálfara t.d. að hafa virka foreldra í liði með sér. Svo starfar auðvitað eitt ráð yngri flokka og annað ráð meistaraflokks auk heimaleikjaráðs, en það mæðir mjög mikið á því fólki yfir sumartímann þegar Íslandsmótið er spilað. Síðan má ekki gleyma iðkendunum sjálfum sem líka sinna ýmsum verkefnum eins og dómgæslu. Það eru óteljandi aðilar sem leggja á sig mikla vinnu í þágu félagsins. Sjálfboðavinnan er hluti af því uppeldisstarfi sem fer fram hjá félaginu og er stór hluti félagslífsins í kringum þetta batterí. Áhuginn er smitandi og það er hann sem drífur fólk áfram, ekkert annað.“

Frábær staður að búa á

„Nei – ég er ekki á leið úr Breiðholtinu,“ segir Guðný ákveðin þegar spurt er. „Þegar við þurftum að finna okkur stærra húsnæði þá vorum við búin að leita nokkuð lengi þegar við fundum húsið í Starrahólunum þar sem við búum í dag. Við vildum ekki fara úr Efra Breiðholti, aðallega þar sem fjölskyldan er að hluta hér. Strákarnir okkar eru líka í Leikni og svo verður daman drifin í íþróttaskólann um leið og hún hefur aldur til og fær vonandi líka þennan fótboltaáhuga. Hverfið er annars mjög vel skipulagt og hentugt fyrir fjölskyldur. Hér höfum við alla þjónustu sem er nauðsynleg svona hversdags eins og sundlaug, bókasafn, heilsugæslu, apótek, búð, bakarí – já, bara endalaust. Ég vona að fiskbúðin haldist í Lóuhólum og að kaffihúsið í Fellunum fái að blómstra áfram. Það eru eiginlega draumarnir sem ég á mér fyrir hverfið; að við séum sjálfbær og þurfum ekki mikið að fara annað til að sækja það sem við þurfum. Ég held reyndar að við séum langt komin með það en þetta veltur auðvitað aðallega á okkur íbúunum sjálfum, þ.e. að við nýtum okkur þjónustuna og afþreyinguna sem er í boði innan hverfis.“

You may also like...