Byggður af stórhug, oft á brattann að sækja en verslunin er að koma til baka

Nokkra veitingastaði er að finna í Hólagarði 3.

Saga Hólagarðs nær aftur til 1973. Þá fékk Gunnar Snorrason kaupmaður úthlutaða verslunarlóð í Hólahverfi í Breiðholti. Hann lét reisa verslanamiðstöðina Hólagarð á lóðinni sem var opnuð 8. júní 1975 þegar Efra Breiðholt var þá að slíta barnsskónum. Gunnar sagði síðar að ekki hafi allir verið sáttir við það að hann fékk úthlutaða lóð og hafi Þjóðviljinn farið mjög geyst gegn henni. „Þetta varð að pólitísku moldviðri,“ sagði Gunnar í blaðaviðtali en viðskiptavinirnir tóku verslanamðstöðinni opnum örmum.

Verslunarmiðstöðin Hólagarður við Lóuhóla reis innan um grunna og hálfbyggð heimili þar sem athafnamaðurinn horfði til lengri framtíðar. Þetta rúmaðist einnig vel innan marka þess skipulags sem Breiðholt var byggt eftir. Áhersla var lögð á þjónustukjarna inni í byggðum þangað sem fólk gæti sótt lífsnauðsynjar og einnig aðra þjónustu í göngufæri frá heimilum sínum. En hvað kom ungum manni sem þegar hafði haslað sér völl í verslunarstörfum í hinni eldri Reykjavík að selja rekstur sinn og halda upp í þetta hálfbyggða hverfi til þess að ryðja nýjar brautir.

Byrjaði 13 ára í verslun

Gunnar hóf ungur að fást við verslun. Aðeins 13 ára að aldri gerðist hann sendill fyrir verslun á horni Laugavegar og Frakkastígs. Hann gerði sér vonir um að komast inn fyrir búðarborðið til þess að starfa. Það rættist á horni Njálsgötu og Frakkastígs í verslun sem bar nafn með hreim af stríðsárunum og hét Portland. Árið 1947 fór hann að starfa í Teigabúðinni sem hann keypti síðan þá 19 ára gamall. Árið 1980 stofnaði Gunnar Vogaver með Árna Kristjánssyni sem hann seldi þegar hann hóf rekstur Hólagarðs. Í samtali við Kiwanisblaðið Vífil í desember 1986 kvaðst Gunnar aldrei hafa efast um að hann væri á réttri braut. Að byggja þetta upp í áföngum og að allt að 15 fyrirtæki yrðu þar undir einu þaki. Tveir fyrri áfangarnir voru ákveðnir strax í upphafi en sá þriðji síðar. Þar sem Hólagarður 3 er hafði verið gert ráð fyrir kirkju á lóðinni í skipulagi. Sérstakra Hólakirkju sem síðar var fallið frá að byggja en í stað þess var byggð ein kirkja Fella- og Hólakirkju fyrir allt Efra Breiðholt. Gunnar og Hólagarður settu mark sitt á verslun í Breiðholtinu næstu fimmtán árin, eða til ársins 1990. Gunnar leigði svo matvöruverslunina út til Hagkaupa þangað til hann seldi verslunina og alla fasteignina árið 1998.

Afríkuverslunin AfroZone er búin að vera um árabil í Hólagarði. Hún er stofnuð af Patience Adjahoe Karlsson sem er frá Gana í sunnanveðri Vestur Afríku. Verslunin sérhæfir sig í afrískum vörum.

Oft var á brattann að sækja

Þótt Gunnar efaðist ekki um að hann væri að fara rétta leið hefur margt gerst og sumt orðið með öðrum hætti en ætlað var frá því Hólagarður var byggður. Miklar breytingar urðu á verslunarháttum með tilkomu stórmarkaðanna sem gjarnan voru staðsettir utan íbúðahverfa. Saga kaupmannsins á horninu hvarf ekki inn í hverfiskjarnana þar sem þeim hafði verið ætlaður staður heldur stórmarkaðina sem voru í raun og veru hluti af þróun sem átti sér stað víða um heim. Framsýni Gunnars var þó að þakka að verslanastarfsemi í Efra Breiðholti hvarf ekki að mestu út fyrir byggðina. Með Hólagarði tókst honum og einnig þeim sem síðar komu að verslanarekstri þar að halda lífið í versluninni í Hólunum. Ýmislegt gekk þó á í rekstri Hólagarðs. Bragi Björnsson verslaði í Leiksporti og stóð vaktina í Hólagarði í meira en aldarfjórðung og hafði áður starfað hjá Gunnari. Hann lét þess getið í blaðaviðtalið fyrir nokkrum árum að oft hafi verið á brattann að sækja í rekstri í Hólagarði og talsvert um að fyrirtæki hafi farið eða hætt starfsemi. En það komu alltaf önnur í staðinn. Sum stóðu aðeins við í skamman tíma en önnur lengur. Ljóst má vera að stærð verslunarmiðstöðvarinnar og að mikil áhersla var frá upphafi lögð á fjölbreytta matvöruverslun hefur verið driffjöðrin í því að halda starfseminni áfram. Fyrst var samnefnd matvöruverslun sem Gunnar rak sjálfur í Hólagarði. Síðan kom Hagkaup og Bónus hefur verið þar með stóra verslun í um 16 ár.

Verslunin að koma til baka

Matvöruverslunin styrkti aðra verslunar- og þjónustustarfsemi í húsinu auk þess sem fjölbreytni hefur skapað ákveðið aðdráttarafl. Bragi Björnsson sagði í fyrrnefndu viðtali að viðskipti og velgengni hafi farið nokkuð eftir tímabilum. Frá 2008 og fram á miðjan síðasta áratug varð nokkurt líf í versluninni eins og var í innlendri verslun. Fólk var minna á ferðinni og hélt sig meira í námunda við þjónustu í byggð. Hægja fór á þessu upp úr 2013 og nú er spurning um hvort verslunin sé að koma aftur til baka. Nú er mikil umræða um breyttan lífsstíl. Meiri hreyfingu og umferðamáta á borð við hjólreiðar, hlaupahjól og jafnvel gönguferðir. Að fólk geti nálgast verslun jafnvel gangandi frá heimilum sínum eins og hugmyndir voru um þegar Breiðholtið var að byggjast. Borgaryfirvöld hafa einnig staðið fyrir umræðum um að virkja hverfiskjarnana á nýjan leik og stutt við viðleitni í þá átt. Nú starfa á annan tug fyrirtækja í Hólagarði. Sum búin að vera þar um árabil en önnur í skemmri tíma. Nokkrir veitingastaðir eru í Hólagarði 3 sem lífga upp á umhverfið og veita nauðsynlega þjónustu sem oft hefur skort í íbúðahverfum í borginni. Hugsjón Gunnars Snorrasonar hefur því staðið af sér ýmsar breytingar og þróun sem deila má um hvort hafi verið af æskilegum toga.

Sérverslun með kjötvörur er í Hólagarði. Þær eru ekki á hverju strái á Íslandi.
Pizzan opnaði nýlega pizzustað og heimsendingarþjónustu í Hólagarði.

You may also like...