Funkisstíllinn og samvinnuhúsin í Vesturbænum

Samvinnuhúsin við Ásvallagötu. Myndin var tekin skömmu efir byggingu þeirra og umhverfið hefur breyst mikið á rúmum 80 árum frá því þau voru byggð. Flestum þeirra hefur veri breytt og gróðurinn umvefur þessa byggð í dag.

Seint á þriðja áratug liðinnar aldar og í upphafi þess fjórða fór svonefnd funkisstefna í húsagerðarlist að koma fram hér á landi. Fyrstu húsin sem reist voru í anda hennar voru byggð við Garðastræti. Nokkrum árum síðar var byggt heilt hverfi húsa í Vesturbænum sem báru sterk einkenni og yfirbragð funkisstefnunnar. Þau hús eru við Ásvallagötu og hafa stundum verið kölluð samvinnuhúsin. Funkisstefnan í húsagerðarlist barst í upphafi frá Evrópu. Þessi stefna kom fram samtíma módernismanum eða nútímastefnunni eins og snúa má þessu hugtaki á íslensku. Raunar féllu þær saman að flestu leyti. Funkissjónistar aðhylltust stílhreina hönnun. Arkitektúrinn átti ekki  að skapa skraut í híbýlum hinna efnameiri, heldur átti alþýðan einnig rétt á því að búa í heilsusamlegu, einföldu og góðu húsnæði. Þessi nýja sýn á samfélagið var einn þáttur í mótun byggingarlistarinnar.

Fyrsta húsið sem teiknað var innblásið af þessarar nýju stefnu er við Garðastræti 41 í Reykjavík. Sigurður Guðmundsson arkitekt teiknaði húsið og húsbyggjandinn var Ólafur Thors formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra með nokkrum hléum fram á sjöunda tug aldarinnar. Hús Ólafs þótti mjög nýstárlegt að útliti. Flatt þak, rennisléttir veggir og gluggar sem náðu út fyrir horn án þess að sérstakrar styrktarsúlu nyti við voru áberandi. Árið 1968 var byggt við húsið og því breytt frá upprunalegri gerð. Funkis stíleinkennin eru því ekki jafn augljós og þau voru í upphafi. Nokkru síðar var annað hús byggt við Garðastræti er bar sömu einkenni. Er það Garðastræti 37 sem Gunnlaugur Halldórsson arkitekt teiknaði fyrir Magnús Víglundsson. Þessu húsi hefur verið breytt í tímans rás meðal annars með viðbyggingu. Þar er nú LMG Lögmannsstofan.

Lítið breytt samvinnuhús við Ásvallagötu. 

Sigurður, Einar og Þórir 

Segja má að forgöngumenn þessarar stefnu hafi verið arkitektarnir Sigurður Guðmundsson, Einar Sveinsson og Þórir Baldvinsson. Sigurður Guðmundsson var annar í röð þeirra Íslendinga sem fyrstir nutu háskólamenntunar í byggingarlist í upphafi aldarinnar, næstur á eftir frumherjanum, Guðjóni Samúelssyni. Árið 1925 hóf hann rekstur fyrstu einkareknu arkitektastofunnar hér á landi og starfrækti hana allt til dauðadags árið 1958, seinustu tuttugu árin í samvinnu við Eirík Einarsson arkitekt. Einar Sveinsson var ráðinn húsameistari Reykjavíkurbæjar 1934. Í hans verkahring kom að skipuleggja ný hverfi í Reykjavík í samráði við bæjarverkfræðing. Hugmyndir hans um hvernig ætti að skipuleggja íbúðahverfi tóku mið af ákveðinni rökhugsun. Húsin áttu að vera staðsett á lóðum með tilliti sólaráttar, þannig að garðurinn væri alltaf sólarmegin. Dæmi voru um þessa skipulagshugsun í eldri hverfum í Reykjavík frá fyrri tíð, en í hverfum Einars Sveinssonar fór saman rökhugsun í mótun umhverfisins. Einnig var útlit húsanna undir skýrum áhrifum frá þessari nýju stefnu. Þórir Baldvinsson arkitekt var menntaður í San Francisco í Bandaríkjunum. Hann var fyrsti arkitektinn sem lærði vestanhafs og þótt funkis-stefnan sé evrópsk að upphafi vann hann mikið í anda hennar. Hann er höfundur nokkurra fyrstu funkishúsanna. Þórir starfaði á Teiknistofu landbúnaðarins í tæp fjörutíu ár, frá 1930, og var forstöðumaður hennar frá 1937. Hann hafði umtalsverð áhrif á íslenska byggingarlist, einkum með teikningum mannvirkja íslenskra sveitabýla. T-byggingar þar sem fóðurgeymsla gengur þvert á gripahús má að nokkru rekja til Þóris. Að einhverju leyti má rekja þessa hugsun til þess að létta störf við hirðingu búfjárins. Að því leyti fellur hún að hugsun módernismans.

Byggingarsamvinnufélag Reykjavíkur

Byggingarsamvinnufélag Reykjavíkur reisti íbúðarbyggð á reit sem afmarkast af Hringbraut, Vesturvallagötu, Sólvallagötu og Bræðraborgarstíg 1934 til 1935. Húsin voru ýmist steinsteypt eða byggð út timbri. Bæjaryfirvöld veittu undanþágur fyrir byggingu svo margra timburhúsa. Eftir brunann mikla í Reykjavík 24. apríl 1915 þegar mestur hluti miðbæjarins varð eldi að bráð að loknu brúðkaupi Jósefínu Zoéga og Mr. Hobbs fiskkaupmanns á Hótel Reykjavík var ákveðið að steinsteypa yrði framtíðar byggingarefni í borginni. Húsaraðir sem byggðar voru á vegum Byggingarsamvinnufélags Reykjavíkur og gengu undir heitinu Samvinnubústaðirnir. Þessi nýju hús voru öll byggð undir sterkum áhrifum funkisismans og mörg þeirra teiknuð af Þóri Baldvinssyni. Þessi hús voru sér á parti og eru það í rauninni enn. Sá hluti húsanna sem var úr timbri var ýmist múrhúðaður eða klæddur bárujárni, en einnig voru nokkur með timburklæðningu. Samvinnubústaðirnir voru eins konar millistéttarhverfi í Reykjavík þar sem húsin voru nokkuð dýr. Þarna voru byggðar 39 íbúðir, þar af 33 einbýlishús og er Ásvallagata 67 eitt af þessum húsum. Það mun eina húsið sem ekkert hefur verið breytt frá upphafi. Fyrsti eigandi að Ásvallagötu 67 var Eysteinn Jónsson, fyrrverandi ráðherra, sem var einn af stofnendum Byggingarsamvinnufélags Reykjavíkur, sem var hið fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Eysteinn og fjölskylda bjuggu í húsinu til ársins 1984 en þá keyptu húsið þau Hafsteinn Þór Stefánsson, fyrrverandi skólastjóri Fjölbrautaskólans í Ármúla, og Bryndís Guðjónsdóttir bankastarfsmaður.

Ýmsir ágallar

Ýmsir ágallar reyndist koma fram á þessum fyrstu funkis húsum sem byggð voru á árunum milli 1930 og 1935 og einkum tæknilegir. Á þessum tíma skorti kunnáttu til að gera flöt þök eða lítið hallandi og því reyndust þökin á sumum þessara húsa ekki nógu vel. Lekavandamál skutu upp kollinum og fljótlega hurfu menn frá því að byggja marflöt þök. Þessi nýja húsagerð gekk í gegnum aðlögun að íslenskum aðstæðum. Hana má sjá á húsum við Hávallagötu í Reykjavík, þar eru komin svonefnd valmaþök sem halla í fjórar áttir sem komu í staðinn fyrir flötu þökin. Einfaldleiki og notagildi húsanna breyttust þó ekki við þessa aðlögun að íslensku veðurfari. Ákveðnir byggingarhættir hér á landi ýttu einnig undir útbreiðslu þessarar stefnu. Steinsteypa sem byggingarefni í almennum íbúðarhúsabyggingum var notuð í meira mæli hér en erlendis og þessi nýi stíll féll vel að efniseiginleikum steinsteypunnar. Funkisstíllinn eða afkomendur hans hafa enst vel í íslenskri byggingarsögu. Flestar byggingar sem risið hafa á undanförnum árum og áratugum bera að einhverju leyti vitni um þennan byggingastíl.

Garðastræti 37 var fyrstu árin heimili Magnúsar Víglundssonar og hann mun hafa stýrt rekstri sínum þaðan. Ríkissjóður keypti húsið 1965. Þar hafði Tunnuverksmiðja ríkisins aðsetur um tíma og einnig hin sögufræga Síldarútvegsnefnd sem húsið var síðar kennt við. Húsið var selt í annað sinn og þá fluttu auglýsingastofan Fíton og margmiðlunarfyrirtækið Atómstöðin þangað um aldamótin.

Garðastræti 41 eftir að byggt var við húsið. Húsið var heimili Ólafs Thors og Ingibjargar konu hans. Vinnuveitendasamband Íslands eignaðist síðar húsið og höfðu Samtök atvinnurekenda þar höfuðstöðvar um árabil. Kínverska sendiráðið eignaðist húsið þegar Samtök atvinnulífsins fluttu í Borgartún.  

You may also like...