Margbrotið hlutverk túlípana í Mjóddinni

Samspil listar og lita nýtur sín á endurgerðu torgi í Mjóddinni í Breiðholti. Breiðholtskirkja er í baksýn.

Það kennileiti sem vekur hvað mesta athygli á endurgerðu umhverfi í Mjóddinni samanstendur af 16 túlípönum sem komið hefur verið fyrir milli Þangbakka 8 til 10 og Mjóddarinnar. Túlípanarnir þjóna ekki einungis fagurfræðilegum tilgangi heldur nýtast þeir einnig sem þægileg snúningssæti og ruslatunnur taka meira að segja á sig hið sveigða form túlípana. Þegar kvölda tekur er svæðið lýst upp á litríkan og lifandi máta sem setur sterkan svip á torgið.

Lögð var áhersla á að skapa aðlaðandi rými með bekkjum, gras- og gróðursvæðum skipt með eyjum úr corten-stáli og hellulögn. Þarna eru litríkir ljósrammar sem hvetja fólk til að staldra við, leika sér og taka myndir. Rammarnir eru um það bil tveir til þrír metrar í þvermál, auk þess er þeim snúið um miðás þannig að úr verður áhugavert form sem er breytilegt eftir sjónarhorni. Í römmunum eru einnig lampar sem endurkasta liti rammanna út í umhverfið. Rammarnir bjóða því upp á ólíka stemmingu eftir því hvort að það er dagur, ljósaskipti eða nótt.

Götulýsing var einnig endurnýjuð með það að leiðarljósi að auka öryggistilfinningu en auk þess að búa til þægilega og aðlaðandi stemmingu. Landmótun sá um landslagshönnun og Liska um lýsingar- og rafmagnshönnun en NNE verkfræðistofa hefur svo haldið utan um eftirlit með verkframkvæmdinni.

Það er því kjörin ástæða til að kíkja í Mjóddina hvort sem er um dag eða kvöld og njóta þessara nýuppgerðu torga sem setja skemmtilegan svip á þetta líflega verslunar- og þjónustusvæði.

Túlípanarnir nýtast sem þægileg snúningssæti og ruslatunnur.

You may also like...