Fannst ég verða að fjalla um einelti á áhugaverðan hátt

– segir Rakel Þórhallsdóttir rithöfundur og kennari í Breiðholtsskóla –

Rakel Þórhallsdóttir með nýútkomna bók sína Martröð í Hafnarfirði.

Fyrir rúmum mánuði kom út unglingabók á vegum bókaútgáfunnar Leó. Bókin nefnist Martröð í Hafnarfirði og segir frá Jóni Pétri sem er að byrja í sjöunda bekk. Hann hlakkar ekki til að byrja nýtt skólaár. Hvers vegna. Hann hefur verið vinafár og fótboltastrákarnir áreita hann nær daglega. Ekki skánar ástandið þegar bekkurinn fær nýja, undarlegan, kennara. Stuttu síðar fara skrítnir og óhuggulegir hlutir að gerast í Hafnarfirði þegar einn fótboltastrákurinn hverfur sporlaust. Í kjölfarið hefst óútreiknankeg atburðarás, sem aðeins Jón Pétur og nýju vinir hans virðast geta stöðvað. Bókin fjallar um eineltismál en höfundurinn litar frásögnina spennu til þess að halda lesendum betur við efnið. Höfundur bókarinnar er Rakel Þórhallsdóttir. Rakel er kennari og starfar við Breiðholtsskóla – er umsjónarkennari í fjórða bekk. Rakel settist niður með Breiðholtsblaðinu á kaffihúsinu Cocina Rodríguez í Gerðubergi á dögunum. 

Rakel er með BA próf í lögfræði en ákvað eftir það að snúa sér að námi í kennslufræðum og síðar kennslustörfum. Hún fór meðal annars til Danmerkur og síðar Laos í Austur Asíu til kennslustarfa eftir að hafa séð auglýst eftir enskukennara þar. Dvölin þar varð þó skemmri en ætlað var vegna kórónaveirufaraldurins. Hún ákvað að snúa heim fremur en að eiga á hættu að lokast í landinu vegna ferðatakmarkana. Rakel er ekki ókunnug Hafnarfirði. Hún ólst þar upp um skeið þar sem faðir hennar séra Þórhallur Heimisson var prestur. Hann starfaði einnig við Breiðholtskirkju um tíma en sinnir nú prestsstörfum í Uppsala í Svíþjóð. Rakel hefur erft áhuga á skrifum frá föður sínum og einnig ferðalögum því auk prestsstarfa og námskeiðahalds er hann þekktur fararstjóri sem fylgt hefur ferðalöngum víða um heim. 

Þá varð ekki aftur snúið

Hvað kom til að Rakel ákvað að skrifa barnabók. „Eftir að ég byrjaði að kenna fór ég að velta fyrir mér hugmyndum um kennara sem ekki væri allur þar sem hann væri séður. Væri dularfullur náungi með eitthvað í pokahorninu sem fólk vissi ekki um. Ég þróaði hugmyndina aðeins innra með mér en settist svo niður og fór að skrifa. Þá varð ekki aftur snúið. Ég hélt áfram og ákvað að koma inn á einelti sem er vandamál í mörgum skólum. Ég hef séð hversu einelti getur haft slæm áhrif á krakka og ungmenni. Mér fannst ég verða að setja mig í stöðu þolanda eineltis en ákvað um leið að bókin yrði að hafa yfirbragð spennusögu. Spennan gæti verið nauðsynleg leið til að koma þeim skilaboðum sem ég vildi koma á framfæri við lesendur. Fjallað um málið á áhugaverðan hátt. Ungmenni dragast oft meira að spennukenndu lesefni en því sem einkum einkennist af vandamálasögum. Mig langaði því að skoða málin frá tveimur sjóarhornum. Annars vegar einelti en hins vegar að skapa spennu.“  

Vildi nota umhverfi sem ég þekkti

Fannst þér Hafnarfjörður góð fyrirmynd að þessu tvennu. „Ég óst upp á Fálkahrauninu í Hafnarfirði. Rætur uppeldis míns eru í Hafnarfirði. Æskuslóðir mínar eru þar. Fálkahrunið ber keim af sænsku umhverfi. Er svolítið eins og hverfi í bæ í Svíþjóð. Vinaleg hús við fremur fáfarna götu. Ég lék mér mikið í hrauninu þegar ég var krakki. Hraunið er dularfullt og getur geymt hvað sem er. Mér fannst því ekkert annað koma til greina en nota þetta umhverfi sem ég þekki svo vel. Hafnarfjörð og hraunið.“

Frá lögfræði til kennslufræða

Rakel var búin að ljúka lögfræðinámi til BA prófs. Þá snéri hún af leið og fór að nema kennslufræði. Hvað kom til? „Ég hafði ekki áhuga á að fara að starfa sem lögfræðingur. Ég get hoppaði í það síðar og lokið embættisprófinu ef mér skyldi snúast hugur. Ég fór að vinna við Klettaskóla um tíma 2016 og fann þá að mig langaði að vinna með börnum. Þá var búið að breyta reglum í Háskólanum þannig að ég gat tekið masterinn í óskyldri grein. Lögfræðin nýttist mér því sem undirbúningsnám. Þannig byrjaði þetta. Ég hafði flutt úr Hafnarfirði þegar ég hóf laganámið og bjó á stúdentagörðunum á Háskólasvæðinu. Pabbi vildi auðvitað halda utan um stelpuna sína en mig langaði að prufa eitthvað annað – eitthvað nýtt. Þótt ég hefði sterk tengsl við Hafnarfjörð þá voru þau ekki órjúfanleg. Ég hef stundum rætt um tengsl við átthaga við manninn minn en hann kemur úr Kópavogi. Við búum í Reykjavík í dag. Hvorugt á æskuslóð.“

Hef sitt lítið frá hvoru

Rakel virkar ungleg og þegar hún er spurð hvort hún sé 25 ára bætir hún fimm árum við. “Nei – ég er þrítug hvort sem einhver vill trúa því. Þjóðskráin segir það alla vega. Ég er mjög lágvaxin og það kann að skýra að fólk heldur að ég sé yngri en ég er. Það eru móðurgenin. Mamma er lágvaxin öfugt við pabba sem er meira en einn og níutíu upp í loftið. Ég hef útlitið frá mömmu. Skrif- og ferðaþörfin kemur frá pabba. Ég hef sitt lítið frá hvoru.”

Langaði að gera eitthvað brjálað

Svo kom Laos til sögunnar. “Já – ég fór að kenna í Breiðagerðisskóla. Við þurftum að velja okkur skóla með náminu og ég lenti þangað. Eftir að hafa verið þar í eitt ár langaði mig til að gera eitthvað alveg brjálað. Ég lagðist í netið og fór að huga eftir auglýsingum um lausar kennarastöður. Ég hafði verið að horfa til Kína en fannst of mikil skriffinnska fylgja því að fá atvinnuleyfi þar. Þetta enti með að ég rakst á auglýsingu frá Laos. Laos – já af hverju ekki. Ef mig langaði til þess að gera eitthvað brjálað þá var Laos nægilega langt í burtu og ólíkt land. Þarna hlyti ég að geta lent í einhverju eftirminnilegu. Ég sótti um og fékk stöðu enskukennara. Íbúar Laos tala sérstakt tungumál Laosku sem hvergi er töluð annars staðar en er skyld Tælensku og Vietnömsku. Eins langt frá okkar tungumáli eða ensku og hugsast getur. En það kom ekki að sök. Kennslan fór fram á ensku og starfsfólkið við skólann gat bjargað sér á því máli. Ég lærði lítið í tungu innfæddra. Þurfti að læra tölurnar til að þess að geta keypt í matinn því ef maður fór á markaðinn þá skyldi enginn ensku þar. Dvölin varð styttri en í upphafi var áætlað vegna þess að þegar covodfárið skall á heiminum varð hætta á að maður gæti lokast þarna inni. Ég vildi frekar fara heim þótt ég kynni að missa af einhverjum ævintýrum en þurfa að lokast í landinu í mánuði eða jafnvel ár vegna samgönguleysis.

Frá Laos. Búddamunkar í Laos færa fólki mat.
Mynd: Rakel.

Laos lítið í fréttum hér 

En hvað er Laos. Rakel brosir. „Von að spurt sé. Landið er lítið í fréttum hér og við vitum örugglega mun minna um það en nágrannalönd þess Vietnam og Tailand. Landið er í Suðaustur Asíu og á landamæri að Kína í norður, að Víetnam í austur, að Kambódíu í suður og að Taílandi í vestur. Laos heitir Alþýðulýðveldið Laos eða Sathalanalat Paxathipatai Paxaxon Lao á laosku. Laos var frönsk nýlenda í rúmlega hálfa öld en fékk sjálfstæði 1949. Þá tók við borgarastyrjöld sem stóð fram til 1975 þegar hreyfing kommúnista náði völdum í landinu. Laos er enn talið til þeirra landa sem búa við minnst efnahagslegt og pólitískt frelsi. Íbúar landsins skiptast í fjölmörg þjóðarbrot en um það bil 70% tilheyra Lao-fólkinu. Þegar landið fékk sjálfstæði frá Frökkum var einungis örlítill hópur tengdur aðalsmönnum sem hafði einhverja formlega menntun að undanskilinni klausturmenntun munka og nunna. Um 1960 var farið var að byggja upp menntakerfi að nútímasniði. Eftir valdatöku Pathet Lao 1975 flúðu flestir þeirra sem höfðu einhverja æðri menntun land og þar á meðal margir betur menntaðir kennarar þótt aðfarir kommúnista væru ekki jafn grimmilegir í nágrnnaríkinu Kambódíu. Skyldunám er fimm ára grunnskólaskylda og um 70% hvers árgangs ljúka honum. Þrátt fyrir það er áætlað að um helmingur Laosbúa séu enn ólæsir.“

Menningarsjokk að koma þangað 

Hvernig var upplifunin að koma á meðal þessarar farmandi þjóðar. Rakel segir  menningarsjokk koma þangað. “Hitinn var allt að 40 gráður og mikil mengun í loftinu. Málleysið gerði mann líka svolítið minni máttar. Maður fór þó fljótt að finna fyrir væntumþykju og fólkið sem ég umgekkst var boðið og búið að hjálpa til. Maður skynjaði líka fljótt muninn á ríkum og fátækum. Sumt fólk bjó í húsnæði sem manni virtust vera hálfgerðir kofar en svo voru glæsihýsi þar á milli. Matarlyktin er sterk í andrúmsloftinu, munkar voru að færa fólki mat og smám saman fór maður að finna fyrir sjarmanum í borginni. Þegar út fyrir  borgirnar er komið blasir víðast við mikil náttúrufegurð. Ferðamaðurinn í pabba vaknaði að sjálfsögðu og foreldrar mínir komu í heimsókn. Gátu ekki sleppt þessu en fengu eins og ég dálítið menningarsjokk við komuna. Ég er viss um að þegar ástandið batnar og ferðalög verða aftur möguleg þá á ég eftir að fara aftur til Laos.”

Ferðaþráin gæti gripið í mig

Og nú ertu komin í Beiðholtið til að kenna. Hvernig líkar þér vistin þar. “Þegar ég kom heim frá Laos var ég atvinnulaus. Ég notaði tímann til þess að fullvinna bókina mína og búa hana undir prentun. Svo fór ég að leita eftir vinnu. Ég skoðaði eitt og annað og eitt af því sem ég rakst var að kennara vantaði við Breiðholtsskóla. Ég þekkti lítið til Breiðholtsins en sá að þarna gæti verið komið tækifæri. Frétti að góðir hlutir væru að gerast þar. Ég sótti um og ekki varð aftur snúið. Ég fann fljótt að ég hafði greint þetta tækifæri rétt. Þetta er flottur skóli. Fólk stendur saman um skólastarfið og fólki líður almennt vel. Bæði nemendum og starfsfólki. Ég er að kenna fjórða bekk. Er umsjónarkennari þar. Við erum með nemendur af ýmsum þjóðernum og margir þeirra eru með annað móðurmál en íslensku. Tungumál sem talar er á heimilum þeirra og í fjölskyldum. Fjölbreyttur nemendahópur býður upp á fjölbreyttari kennsluaðferðir og kennarahópurinn er metnaðarfullur. Já – ég býst við að verða þar eitthvað áfram. Ég er ekki að fara neitt á meðan covidástandið ríkir. Svo gæti ferðaþráin gripið í mig á ný. Aldrei að vita.”

You may also like...