Skipulag lóðar við Kirkjubraut samþykkt

– Bjarni Álfþórs sat hjá –

Hvíta brotalínan afmarkar svæðið þar sem búsetukjarni fyrir fatlaða einstaklinga mun rísa við Kirkjubraut 20.

Samþykkt hefur verið breyting á aðal- og deiliskipulagi Valhúsahæðar og aðliggjandi útivistarsvæða vegna Kirkjubrautar 20 vegna búsetukjarna fyrir fatlaða við Kirkjubraut. Tillagan var auglýst í samræmi við 31. gr. skipulagslaga. Umsagnir bárust frá opinberum umsagnaraðilum en engar athugasemdir komu fram í þessum umsögnum. Einnig bárust athugasemdir frá nágrönnum sem snúa m.a. að því að opin svæði rýrni, umferð aukist og útsýni skerðist. 

Bjarni Álfþórsson sagði í bókun fátt gleðja sig meira á vettvangi bæjarstjórnar en að nú styttist í að bygging á búsetukjarna fyrir fatlaða einstaklinga verði að veruleika. Hann segir umræðuna hafa verið langa og mörg sjónarmið á lofti. Niðurstaðan sem nú liggi fyrir sé að búsetukjarninn rísi á nýrri lóð við Kirkjubraut 20. Bjarni segir í bókuninni viðkvæmt að fara inn í gróið hverfi og stofna nýja lóð og því þyki sér miður að ekki hafi verið tekið betur tillit til þeirra athugasemda sem bárust frá íbúum í nágrenni hins nýja búsetukjarna. Í upphaflegum tillögum arkitekta hafi til að mynda verið lagt til að húsið yrði staðsett fjær núverandi byggð við Kirkjubraut eða um 30 metra. Eftir meðferð málsins hjá umhverfisnefnd ákvað skipulagsnefnd að færa húsið átta metrum nær núverandi byggð en áður hafði verið gert ráð fyrir. “Með þessu finnst mér að ekki hafi verið gætt meðalhófs gagnvart húseigendum við Kirkjubraut og því get ég ekki samþykkt þessa tillögu og sit því hjá við afgreiðslu málsins.”

You may also like...