Sendiherraverkefnið er til að miðla upplýsingum og fræða

Maria Sastre eðlisfræðingur og sendiherra Þjónustumiðstöðvar Breiðholts gagnvart spænskumælandi íbúa.

Nú er búið að ráða tengiliði – svonefnda sendiherra að nýju verkefni á vegum Þjónustumiðstöðvar Breiðholts. Þeir hafa það verkefni að ná tengslum við börn og ungmenni og fjölskyldur af erlendum uppruna og kynna fyrir þeim hvað er í boði. Sendiherrarnir eru sjálfir að erlendum uppruna en hafa búið hér á landi um lengri tíma. Þeir koma frá mismunandi mál- og menningarsamfélögum þar sem um óskyld tungumál og mismunandi menningarlíf er að ræða. Sendiherra Þjónustumiðstöðvar gagnvart spænskumælandi fólki er Maria Sastre. Maria er fædd og uppalin á Spáni og vann þar sem eðlisfræðingur í kjarnorkuveri um árabil. Hún hefur einnig búið í Noregi og Hollandi og starfað sem geislaeðlisfræðingur á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Maria hefur látið tungumál til sín taka og m.a. unnið fyrir HOLA, sem er félag spænskumælandi fólks á Íslandi og fyrir samtökin Móðurmál sem hafa það að markmiði að viðhalda tvítyngdi meðal barna sem hafa alist upp við önnur tungumál en íslensku. Maria settist niður með Breiðholtsblaðinu á Cocina Rodríguez í Gerðubergi á dögunum.

María býr í Breiðholti. Hún leggur áherslu á mikilvægi þess að fólk læri tungumálið í landinu þegar það kemur sér fyrir í nýju samfélagi. Sjálf lagði hún sig fram um að læra íslensku fljótt um leið og hún kom til landsins og lærði tungumálið vel á mjög skömmum tíma. Maria fékk vinnu á geislaeðlisfræðideild á Radiumhospitalet í Osló í Noregi og var þar í fimm ár. Hún segir að þetta hafi verið stór og fjölbreytt deild og vinnufélagarnir mjög góðir og hjálpsamir. En allt hafi verið á norsku. Þá hafi hjálpaði sér að hafa lært íslensku og fyrir vikið náð fljótt tökum á norskunni enda tungumálin náskyld.

Markmiðið að vekja athygli fólks

Maria segir að nú sé að komast skipulag á þetta nýja starf. Sendiherrarnir séu búnir að hittast með Jóhannesi Guðlaugssyni íþrótta- og frístundatengli í Breiðholti og Þráni Hafsteinssyni verkefnastjóra frístunda og félagsauðs hjá Þjónustumiðstöð Breiðholts. Markmiðið sé að vekja athygli fólks sem kemur frá öðrum menningarsvæðum og talar önnur tungumál en íslensku á ávinning af því að nýta frístundir og tækifæri sem bjóðast. Í sínu tilviki sé um spænskumælandi fólk að ræða. „Við erum búin að búa til prógramm á spænsku til kynninga fyrir spænskumælandi fólk. Við viljum fá fullorðna fólkið til leiks til að meta hvort og hvaða aðstoð það vill. Við erum líka með aðrar hugmyndir. Til dæmis að hittast með kaffi og kökur og einnig að vera með tónlistaratriði og leiki.“  

Dregist vegna covid

Maria segir að ætlunin hafi verið að hefja þetta starf í apríl en þá hafi covid bylgja farið af stað og því hafi þetta dregist. Ef til vill verði að bíða haustsins með að fara í þetta af krafti. Hún segir að um tvö þúsund spænskumælandi íbúar séu í Breiðholti. Margt af því fólki sé frá Venesúela en einnig víðar að. Hún bætir við að þótt tungumálið skipti miklu í þessu sambandi skipti fleiri þættir máli. Nauðsynlegt sé að skilja hugsunarhátt fólksins. Hann geti verið annar en við eigum að venjast og fari eftir því hvaðan fólk komi. Hvar uppruni þess sé. Menningarleg samskipti séu því einn af sterku þáttunum í þessu starfi. Hún bendir á að sumt aðflutt fólk þekki alls ekki til félagsstarfs af þeim toga sem verið sé að kynna. Að samfélagið sé að bjóða börnum og ungmennum þátttöku í ókeypis félagslífi hvor sem það eru íþróttir eða annað. Þess vegna sé nauðsynlegt að skýra þennan þátt í okkar menningu fyrir því og gera því kleyft að skilja hvað búi að baki.

Nauðsynlegt að hafa samstarf við skólana 

Maria segir nauðsynlegt að vinna þetta í nánu samstarfi við skólana. Þeir séu í raun lykillinn að þessu verkefni. Vegna persónuverndar geti aðstandendur þess ekki safnað upplýsingum um fólk. Slíkt standist ekki lög þótt það gæti verið auðveld leið til samskipta En einnig verði að líta til þess að foreldrar séu fullorðið fólk og fara verði af gætni í allt inngrip í lífs þess. Enda sé þessu verkefni fyrst og fremst ætlað að kynna fyrir fólki hvað möguleika það eigi og hverju það á rétt á en ekki að stýra lífi þess. Sannleikurinn sé þá sá að sumir foreldrar sem komið hafa hingað til lands frá öðrum löndum átti sig ekki alltaf á þessu. Menning þess byggi á ólíkum forsendum og venjur skapast út frá því. „Við getum ekki breytt menning þessa fólks heldur veitt fólki aðstoð til þess að aðlagast nýjum veruleika og heimahögum. Sendiherraverkefnið er fyrst og fremst til að miðla upplýsingum til að fræða.“

You may also like...