Vilja friðlýsa alla Seltjörn

Grótta er við nyðri hluta Seltjarnar. Seltjörn var lokuð en opnaðist í Básendaveðrinu sem gekk yfir suðvestanvert landið 9. janúar 1799 er talið vera eitt hið alharðasta á landi hér sem sögur greina frá.  

Nú er unnið er að uppfærslu friðlýsingarskilmála fyrir friðlandið í Gróttu. Umhverfisnefnd Seltjarnarness leggur til að einnig verði gerð stjórnunar- og verndaráætlun og að friðlandið verði stækkað með því að öll Seltjörn verði hluti af því þótt það verði undir öðrum skilmálum en núverandi friðland. Grótta er sem kunnugt er í raun eyja sem tengd er við land af mjóum granda sem fer á kaf á flóði. Hún var friðlýst árið 1974.  

Í bókun umhverfisnefndar Seltjarnarness fyrr í þessum mánuði kemur fram það álit að margt kalli á uppfærslu skilmála fyrir friðlandið Gróttu. Skilmálarnir frá 1974 séu að mörgu leyti barn síns tíma. Umferð hafi aukist og árum saman hafi ungar ekki verið orðnir fleygir 15. júlí þegar opnað hefur verið fyrir umferð. Hannes Tryggvi Hafstein, formaður umhverfisnefndarinnar segir að skerpa þurfi á því og fleiru. Hann nefnir að starfsfólk bæjarins þurfi að geta komist á bíl út í Gróttu til að sinna fasteignum utan varptíma en samkvæmt núverandi skilmálum er það bannað árið um kring. Hannes segir að Grótta sé vinsæll viðkomustaður ferðafólks og höfuðborgarbúa. Í bókun umhverfisnefndar er nefnt að til viðbótar vinsældum Gróttu komi væntanleg áhrif reksturs veitingahúss í Ráðagerði og Náttúruminjasafns í Nesi fram. Þá ógni sjósport fuglalífi á varp- og uppeldistíma. Umhverfisnefndin segir að Grótta og Seltjörn séu heildstæð eining með tilliti til náttúrufars, ólíkra vistkerfa og lífríkis, þar á meðal fuglalífs. Friðlandi geti verið skipt niður í minni svæði þar sem gildi mismunandi friðunar- og umgengnisreglur með tilliti til sérstaks hlutverks þeirra. Nefnd eru í því sambandi varpsvæði, uppeldissvæði unga, fæðuöflun fugla og útivist fólks. Nefndin leggur til að starfshópur sem vinnur að undirbúningi endurskoðunar friðlýsingar skoði kosti þess að stækka friðland Gróttu þar sem öll Seltjörn yrði hluti af friðlandinu. Nánar spurður um þetta segir Hannes að hluti Seltjarnar sé nú þegar hluti af friðlandinu. Grótta og Seltjörn séu heildstætt náttúrusvæði. Þar sé fæðuuppspretta fuglanna og þar taki ungarnir fyrsta flugið. Segir hann að auka þurfi svigrúm fugla á varp- og uppeldistíma vegna álags og röskunar sem sjóíþróttir geti haft á viðkvæmum tíma í lífsferli fugla og því hafi verið farið fram á að Seltjörn verði hvíld frá 1. maí til 1. ágúst.

You may also like...