Vinningstillaga um Grófarhúsið kynnt

Vinnuhópur frá JVST arkitektum, Inside Outside, Hanrath Architect, Kreatíva teiknistofu, VSÓ ráðgjöf og Örugg verkfræðistofu varð hlutskarpast  í hönnunarsamkeppni Reykjavíkurborgar og Arkitektafélags Íslands um breytingar og endurbætur á Grófarhúsi. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tilkynnti úrslitin við hátíðlega athöfn í Grófarhúsi.

Verðlaunaafhending í hönnunarsamkeppni um Grófarhúsið fór fram 29. nóvember sl. í Borgarbókasafninu í Grófinni, Tryggvagötu 15,  Einnig verður opnuð yfirlitssýning á tillögum þeirra fimm aðila sem valin voru í forvali til þess að taka þátt í samkeppninni.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Pálína Magnúsdóttir borgarbókavörður fluttu ávörp og Halldór Eiríksson, arkitekt Tark, sem var fulltrúi dómnefndar, gerði grein fyrir niðurstöðum nefndarinnar. Hugmyndin er að bókasafnið fái allt húsið til afnota og markmiðið með breytingum og endurbótum á þessu húsnæði er að uppfylla sem best þær kröfur sem gerðar eru til nútíma bókasafna sem hýsa fjölbreytta þjónustu og dagskrá fyrir íbúa og aðra. „Við viljum að Grófarhús fái nýtt líf sem opin og skemmtileg bygging, lifandi samfélags- og menningarhús í takt við vel heppnuð dæmi hjá nágranna- og vinaþjóðum okkar,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Vinningstillagan er hönnuð af hollensku arkitektastofunni JVST í samstarfi við Inside Outside, Hanrath Architect, Kreatíva teiknistofu, VSÓ Ráðgjöf og Örugg verkfræðistofu. Í greinargerð dómnefndar segir meðal annars að tillagan sé leikandi og skemmtileg og svari vel væntingum um fjölbreyttan ævintýra- og fróðleiksheim fyrir fólk á öllum aldri. Einnig er talað um að tillagan hafi burði til að verða framsækin, leiðandi og vakandi fyrir síbreytilegum þörfum samfélagsins. Dómnefnd þakkar í dómnefndaráliti öllum þátttakendum fyrir heildstæð, ítarleg og metnaðarfull skil. „Allar tillögurnar sýna djúpan og ígrundaðan skilning á þeim markmiðum sem Borgarbókasafnið vill ná er varðar væntingar til byggingarinnar þar sem öll eru velkomin á sínum forsendum í fjölbreyttum vistarverum.“

Hugmynd að nýju útliti Grófarhúsins.

You may also like...