Fyrsta heildstæða borgarhverfið

Norska bakaríið er eitt myndarlegasta húsið í Grjótaþorpinu. Það hefur þó ekki alltaf litið svona myndarlega út.

Grjótaþorp er á mörkum gamla Vesturbæjarins og Miðborgarinnar í Reykjavík. Upphaf þess má rekja til síðari hluti 18. aldar. Þá tók að myndast hverfing torfbæja í landi býlisins Grjóta sem stóð í Grjótabrekkunni efst við Grjótagötu. Grjóti var ein af átta hjáleigum í Reykjavík á 18. öld. Byggðin í Grjótabrekkunni varð til samhliða byggingu timburhúsanna við Aðalstræti sem reka má til stofnunar og starfsemi Innréttinganna sem var fyrsta tilraunar til iðnvæðingar á Íslandi. Í torfbæjunum bjuggu bæði tómthúsbændur og starfsmenn Innréttinganna. Árið 1802 voru 141 íbúi í 19 húsum í Grjótaþorpi. Þá voru um 20 torfbæir þar en eftir 1836 fór þeim fækkandi. Um aldamótin 1900 var búið að rífa alla torfbæina og byggja ný hús flest úr timbri í stað þeirra.

Grjótaþorpið afmarkast af Aðalstræti, Vesturgötu, Túngötu og Garðastræti. Aðalstræti er elsta gata borgarinnar og var í upphafi nefnd Hovedgaden og um tíma Klubgaden. Hún lá frá Reykjavíkurbænum við suðurenda götunnar að uppsátri í Grófinni. Við suðurhluta Aðalstrætis voru klæða- og tauverksmiðjur Innréttinganna en verslunarhúsin nyrst. Eftir að landsverslunin var flutt úr Örfirisey til Reykjavíkur um 1780 reisti fyrsti kaupmaðurinn í Reykjavík, Johan Chr. Sünckenberg, verslunarhús sín á konungslóðinni við Aðalstræti en pakkhúsin voru við Vesturgötu. Meðal sögufrægra húsa í Grjótaþorpi má nefna Hlaðvarpann, Unuhús og hús Sögufélagsins. Í austurjaðri Grjótaþorpsins, við Aðalstræti stóð kvikmynda- og samkomuhúsið Fjalakötturinn. Grjótaþorpið er sögulega séð fyrsta heildstæða hverfi Reykjavíkur fyrir utan byggðina sem myndaðist í kringum Aðalstrætið.

Vinaminni er reisulegt hús og þótti tilvalið til að hýsa starfsemi stórmenna og einnig skemmtanalíf.

Bárujárnsstíllinn var einkennandi

Á fyrri hluta liðinnar aldar var Grjótaþorpið orðið albyggt. Flest voru húsin klædd með bárujárni og byggð í þeim sérstaka stíl, sem einkennir ákveðið skeið í byggingarsögu landsins. Sum bárujárnshúsin entust illa og urðu ónýt fyrir tímans tönn. Eldur var öðrum að tjóni og voru ekki byggð að nýju. Meðal annars af þessum sökum varð heildarsvipur Grjótaþorpsins margbreytilegur. Segja verður eins og er að best byggðu húsin frá tíma bárujárnshúsanna voru ekki í Grjótaþorpinu. Um miðbik liðinnar aldar hafði hverfið á sér nokkra ímynd um illa byggða kofa og fannst mörgum lítið til þess koma. Skipulagið þótti handahófskennt að mestu handan við lögmál reglustrikunnar.

Gröndalshús nýuppgert og komið á góðan stað í Grjótaþorpi.

Hraðbrautin sem aldrei var byggð

Árið 1962 var samþykkt í borgarráði nýtt aðalskipulag, danska skipulagið svokallaða sem var unnið af dönskum aðila. Þar var gert ráð fyrir að hraðbraut yrði lögð í gegnum Grjótaþorpið til að greiða fyrir umferð bíla á milli Austur- og Vesturbæjar. Þessi hraðbraut var aldrei byggð. Byggðin í Grjótaþorpinu þótti úrelt. Ástand flestra húsanna var slæmt og leituðu útigangsmenn sér athvarfs í þeim. Björn Th. Björnsson listfræðingur og rithöfundur sagði um Grjótaþorpið í bók sinni um Reykjavík frá 1969 að þorpið væri í undarlegri kyrrstöðu. Eins og nýja tímanum hafi stirðnað höndin við að sópa því burt, en óvissan lagt á það sjálft sína dauðu hönd. Með hverju ári væru fleiri hlerar negldir þar fyrir glugga. Þetta viðhorf breyttist upp úr 1970. Tilkoma Torfusamtakanna árið 1973 átti þar verulegan hlut að máli. Borgaryfirvöld áttu erfitt með að komast að niðurstöðu um framtíð hverfisins. Reynt var að taka tillit til tveggja ólíkra sjónarmiða, annars vegar fasteignaeigenda sem vildu fá að reisa nýrri og stærri hús á lóðum sínum og hins vegar húsverndunarsinna og ungs fólks í íbúasamtökum Grjótaþorps sem vildu varðveita götumyndina og lagfæra þau hús sem höfðu drabbast niður vegna aðgerðarleysis borgaryfirvalda

Sé inn í Grjótaþorpið á sjöunda áratugnum.

Íbúasamtök haustið 1975

Íbúasamtök Grjótaþorps voru stofnum haustið 1975. Markmið þeirra var að vinna að viðhaldi og endurbótum á húsum í Grjótaþorpinu. Önnur markmið þeirra voru að standa vörð um gróður og umhverfi, og stuðla að manneskjulegri og lífvænlegri byggð fyrir fólk á öllum aldri. Einnig að nýbyggingar henti þorpinu og bæti umhverfið.

Tillaga Guðmundar og Ólafs

Í september 1975 lögðu Arkitektarnir Guðmundar Kr. Guðmundssonar og Ólafur Sigurðsson fram tillögu um nýtt útlit Grjótaþorps. Markmið hennar var að skapa hlýlegt hverfi með blandaðri byggð íbúða, verslana, skrifstofa, þjónustufyrirtækja og iðnaðar. Þeir vildu hafa mannlegan mælikvarða og reisa nútímaleg hús, tvær til fjórar hæðir. Ætlunin var að varðveita skemmtilegar og óvenjulegar götur og skapa breytilegar götumyndir og húsalínur. Þeir töldu listgildi gömlu húsanna mjög lítið og varðveislugildi ekki fyrir hendi. Þeir vildu rífa hluta Grjótaþorpsins og byggja steinhús með hallandi þökum.

Yfir 100 ára gamalt og endurbyggt hús í Grjótaþorpinu.

Tillaga Hjörleifs og Peters

Hjörleifur Stefánssonar arkitekt og Peter Ottosson unnu skipulagstillögum um Grjótþorpið á árinu 1980. Tillaga þeirra hafði verndunarsjónarmið að leiðarljósi og gerði ráð fyrir byggingu nýrra húsa í gömlum stíl á milli og meðal þeirra gömlu. Í tillögunni kvað við nýjan tón í skipulagsmálum. Þótt tillaga þeirra næði ekki fram að ganga er víst að hún stuðlaði að viðhaldi og vexti Grjótaþorpsins eins og það er í dag.  

Framtíðin tryggð með Borgarvernd

Þegar komið var fram á áttunda áratuginn komu fram hugmyndir innan borgarstjórnar að reisa ný og hærri hús við Aðalstræti. Var það hugsað til að draga úr því ójafnvægi sem varð með tilkomu húss Morgunblaðsins. Tækifæri gafst til þess eftir að Fjalakötturinn var rifin haustið 1985. Framtíð Grjótaþorps virðist hafi verið tryggð með tilkomu Borgarverndar en slík hugsun var víðs fjarri um og eftir miðbik aldarinnar.

Vinaminni stórhýsi á lóð Brekkubæjar 

Nokkur reisuleg hús voru byggð í Grjótaþorpinu. Við Mjóstræti 3 stendur stórt timburhús sem Sigríður Einarsdóttir kona Eiríks Magnússonar bókavarðar í Cambridge lét reisa 1885 og nefndi Vinaminni. Sigríður lét safna fyrir byggingu hússins erlendis og síðan reisa þá á lóð þar sem bær foreldra hennar Einars Sæmundssonar og Guðrúnar Ólafsdóttur stóð og nefndist Brekka eða Brekkubær. Benedikt Gröndal minnist Brekkubæjar í endurminningum sínum Dægradvöl þar sem hann skrifaði að Brekkubær hafi verið lítið kot og dálítið hús eða stofa niðri þar sem unga fólkið hafi oft komið saman og verið glatt á hjalla. Sigríður féll vel í þann hóp því samferðamenn hennar lýsa henni sem fjörmikilli konu og líka greindri. Veturinn 1891 til 1892 rak Sigríður skóla fyrir alþýðustúlkur en sú starfsemi lagðist af eftir aðeins einn vetur.  

Einar Ben og Jón Vídalín

Iðnskólinn og Verslunarskólinn hófu starfsemi í Vinaminni við Mjóstræti 3 1904 og 1905. Ýmis fyrirtæki, einstaklingar og félagasamtök hafa einnig haft aðstöðu í húsinu og má þar t.d. nefna Einar Benediktsson athafnamann og skáld, sem hafði bæði lögmanns- og ritstjórnar-skrifstofu þar um tíma. Annar foringi hafði aðsetur í Vinaminni á sama tíma og Einar. Var það Jón Vídalín, umboðsmaður kaupfélags í Newcastle. Hann fór fyrir kaupmönnum sem börðust gegn tillögum Valtýs Guðmundssonar á þinginu sumarið 1897. Jón er sagður hafa efnt til mikilla kampavínsveislna í Vinaminni og boðið öllum þingmönnum, sem gengu eftir rauðum dregli inn í húsið undir blæstri lúðrasveita. Fleiri komu við sögu Vinaminnis. Þar á meðal Ásgrímur Jónsson, listmálari sem hafði þar aðgang bæði að vinnustofu og sýningarsal um tíma. Þar málaði hann hina þekktu mynd Esjan og talið er að hin víðfræga Heklumynd Ásgríms hafi fyrst verið sýnd í Vinaminni. Jóhannes Kjarval mun einnig hafa haldið sýningar í húsinu. Þegar Sigríður Einarsdóttir lést 84 ára á heilsuhæli í Danmörku fékk séra Haraldur Níelsson húsið en hann var kvæntur systurdóttur hennar.

Aðalsamkvæmis- og drykkjustaður

Á stríðsárunum um 1940 festu kaupmennirnir Silli og Valdi kaup á Vinaminni. Þeir létu þilja salina og leigðu út í einstökum herbergjum. Ekki var mikið viðhald á húsinu á þessum tíma og talið að oft hafi ríkt þar mikil gleði. Á tímabilinu 1968 til 1975 var húsið enn leigt út í herbergjum. Samkvæmt íbúaskrá virðast útlendingar hafa sóst eftir að búa þar, sérstaklega Frakkar og Bretar. Vinaminni mun hafi verið einn aðalsamkvæmis- og drykkjustaður í Reykjavík á þessum árum og af sumum talin heppni eða blessun að húsið skyldi ekki brenna því algengt var að kerti loguðu um allt húsið í partíum upp hverja tröppu stigans. Eftir að Reykjavíkurborg eignaðist húsið stóð það autt og utangarðsfólk hreiðraði þar um sig. Húsið var orðið hrörlegt þegar borgin seldi það árið 1992. Kolbeinn Árnason jarðeðlisfræðingur, Kristinn E. Hrafnsson myndhöggvari auk þriðja aðila festu kaup á því og hófust handa við að gera það upp. Hrefna Ósk Benediktsdóttir og Ýmir Björgvin Arthúrsson búa nú í Mjóstræti 3.

Norska bakaríið og Þráinn 

Annað merkt hús í Grjótaþorpi er Norska bakaríið við Fishersund. Timburhús sem byggt var árið 1878. Fyrsti hluti þess var fluttur í einingum frá Noregi. Danskur bakari Frederiksen að nafni bætti við húsið 1894. Hann var með starfsemi þar og er bakaríisnafnið frá honum komið. Kaupmennirnir Silli og Valdi eignuðust húsið 1942. Átján árum síðar kom upp eldur í húsinu og nýttu þeir það sem geymslu eftir að. Húsið komst síðar í hendur Sögufélagsins sem lagfærði það eftir langvarandi viðhaldsleysi. Húsið öðlaðist enn nýtt líf þegar hjónin Sólveig Eggertsdóttir myndlistarmaður frá Möðruvöllum í Hörgárdal og Þráinn Bertelsson kvikmyndagerðarmaður og rithöfundur festu kaup á því. Þau fengu Magnús Skúlason arkitekt til þess að vera sér innan handar og saman lögðu þau áherslu á að endurbyggja húsið í upprunalegri mynd. Er kom að því að þau vildu selja húsið kom Sigfríður Þorsteinsdóttir fyrrum bæjarfulltrúi á Akureyri og sveitarstjóri í Breiðdalshreppi og Grímsnes- og Grafningshreppi til sögunnar. Hún var þá flutt til Reykjavíkur og rak meðal annars gistiheimili við Lokastíg. Sigfríður hafði hug á að festa kaup á húsinu til þess að nýta fyrir gistiheimili. Hún leitaði til Reykjavíkurborgar um hvot slíkt leyfi myndi fást. Vegna aldurs er Fischersund 3 háð þjóðminjalögum um allar breytingar og við þær þurfi að sýna sérstaka aðgát. Byggingafulltrúi heimilaði að notkun íbúðarhússins í Fischersundi 3 yrði breytt þannig að þar verði gistihús. För Þráins var ekki fyrsta för hans í Grjótaþorpið. Hann er fæddur í Mjóstræti 6 en ólst ekki upp í Grjótaþorpinu.

Gröndalshús flutt af Vesturgötu

Af fleiri húsum í Grjótaþorpi er að taka sem eiga sér sögu en að þessu sinni verður látið nægja að nefna Gröndalshús. Sigurður Jónsson járnsmiður lét byggja húsið 1882 við Vesturgötu 16 b og hafði járnsmiðju sína í austurhluta neðri hæðar þess. Húsið var að stórum hluta gert úr timbri úr strandi skipsins Jamestown, sem strandaði við Garðskaga fulllestað timbri. Húsið þótti sérstakt í formi og var í upphafi nefnt Skrínan en stundum Skattholið eða Púltið. Bygging hússins og rekstur járnsmiðjunnar urðu Sigurði ofviða. Hann missti húsið og verkfæri járnsmiðjunnar urðu síðar ein fyrstu verkfæri Vélsmiðjunnar Héðins. Benedikt Gröndal keypti húsið 1888 og bjó í því þar til hann lést 1907. Húsið var nefnt eftir Benedikt og kallað Gröndalshús. Gröndalshús er merkilegt bæði fyrir byggingarsögu og form, en ekki síður fyrir þátt sinn í menningarsögu landsins. Þar ritaði Benedikt mörg verka sinna og teiknaði þær stórfenglegu myndir og skjöl sem eftir hann liggja. Fjölskylda Benedikts átti húsið til 1927. Þá keyptu Ámundi Hjörleifsson og Eugenia I. Nilsen það. Eugenia bjó í húsinu þar til hún lést 2004. Húsið var komið í mikla niðurníðslu og stóð í vegi fyrir framkvæmdaaðilum sem farnir voru að huga framkvæmdum á stæði þess. Eftir nokkurt þref náðust samningar á milli Reykjavíkurborgar og Minjaverndar um endurgerð þess og flutning á nýjan stað við Vesturgötu 5b. Arkitekt að endurgerð hússins var Hjörleifur Stefánsson. Reykjavíkurborg er eigandi þess og nýtir fyrir menningarstarfsemi tengdri Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO.

Ég er kominn heim

Í lokin má geta þess til gamans að Tómas Andrés Tómasson, betur þekktur sem Tommi í Tommaborgurum býr í Mjóstræti. Tommi fæddist við Garðastræti og hefur látið að því liggja að vera kominn á heimaslóðir. Hann keypti íbúð við Mjóstræti í byrjun þessarar aldar en þar var áður prentsmiðja til húsa. 

You may also like...