Hlaup eiga ekki að vera streð

– allir geta verið með í ÍR-Skokk

Oft er glatt á hjalla í góðra vina hópi í ÍR-Skokk.

ÍR-Skokkhópurinn var stofnaður árið 1994. Upphafsmaður hans og fyrsti þjálfari var Gunnar Páll Jóakimsson. Í dag er þetta hlaupahópur þar sem allir sem vilja hlaupa eiga að geta mætt á æfingu á sínum forsendum og gildir þá einu hvort fólk vill tæknilegar æfingar og vinna að markmiðum eða öldungar sem hlaupa þar sem iðkunin er markmiðið í sjálfu sér.

„Í hópnum eru rótgrónir þátttakendur í hlaupaklúbbnum þar sem iðkunin er markmiðið í sjálfu sér. Þennan kúltúr viljum við líka fóðra og bæta. Jákvætt getur verið fyrir byrjendur að finna sig hér á meðal reynslubolta og byrja afslappað í æfingum. Hlaup á sjaldnast að vera streð og maður nær sínum markmiðum með tíð og tíma með því að gerast iðkandi. Þá hefur það tíðkast í hópnum að aðlaga æfingar að hversdagslífinu, mæta með hundinn sinn eða börnin í hlaupakerru þegar slíkar aðstæður leyfa,“ segir Valur Þór Kristjánsson þjálfari hlaupahópsins en hann og Ása Arnfríður Kristjánsdóttir forseti hópsins spjalla við Breiðholtsblaðið að þessu sinni. Þess má geta að æfingar eru kl. 17.30 á mánudögum og miðvikudögum frá ÍR-heimilinu og á laugardögum frá Breiðholtslauginni kl. 9.00.

Erum með þrískipt hlaupaplan 

Hvar hlaupa félagarnir í hlaupahópnum aðallega. „Við hlaupum í Breiðholtinu, og nærumhverfi en einnig í Kópavogi, Árbænum, Elliðaárdal og Fossvogsdal,“ segir Valur. „Ég var sjálfur að búa til hlaupahóp fyrir unglinga og tengja hann við okkur. Við erum svona mentorar í þessu og leggjum áherslu á að sem flestir geti verið með. Getum kallað þetta samhlaup með kynslóðunum. Þetta er svolítið breytilegt á milli árstíða en margir hlaupa undir merkjum ÍR Skokk og halda tryggð við hópinn.“  ÍR-Skokk er með þrískipt hlaupaplan. Er það gert til þess að sem flestir og helst allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Fólk á mismunandi aldri og með mismunandi getu eigi kost á að æfa saman.

Hægt að velja um margar góðar hlaupaleiðir 

Hvernig er aðstaðan fyrir hlaupafólk í Breiðholti. „Breiðholt býður upp á marga möguleika fyrir hlaupafólk,“ segja þau Valur og Ása. Hlaupasvæðin liggja víða. „Hægt að velja um margar góðar hlaupaleiðir. Við getum hlaupið á allskonar undirlagi. Við getum hlaupið á göngustígum og einnig á malargötum. Svo förum við líka út í náttúruna. Upp á Vatnsenda í Elliðárdalinn, yfir í Fossvoginn og Kópavogsdalinn. Við hlaupum líka mikið í kringum gamla Breiðholtslækinn. Lykilatriði er að hafa góðar brekkur á hlaupa-leiðunum og þær eru margar á leiðum okkar. Nú er líka í tísku að hlaupa utan vega. Vegleysurnar heilla ef svo má segja. Ég held að við séum öfunduð af því hversu við búum við margar og fjölbreyttar hlaupaleiðir og góða möguleika til útiveru,“ segir Valur. Hann er alinn upp í Seljahverfi og þekkir því vel til umhverfisins. Hann hefur lagt sig eftir að finna góðar leiðir og eftir að hann flutti aftur í hverfið eða heim eins og hann kýs að kalla það eftir að hafa prufað Grafarvoginn um tíma kveðst hann hafa fengið hrós fyrir að finna hlaupaleiðir. „Það á sennilega rætur í bernsku minni og uppeldi hér í hverfinu. Ég hef alltaf verið að horfa eftir þessu.“

Þurfum að láta vita betur af okkur 

Valur segir að Breiðholt sé að breytast. „Margt fólk víða að hefur verið að flytja hingað og fjölbreytnin í mannlífinu að aukast. Pólverjar hafa verið að hlaupa og fleiri. Auðvitað eru nýbúar velkomnir í hópinn. Þurfum kannski svolítið að laða þá betur að. Málið er að eiga góða skó og vera aðeins léttklæddari en hitastigið segir til um. Annað þarf í rauninni ekki. Við þurfum bara að láta vita betur af okkur og að fólk finni að því verði tekið vel.“ Valur segir að konan sín sé úr Laugardalnum. Hún hafi kynnst íþróttalífi þar. „Hún var í fyrstu með ákveðna fordóma gagnvart Breiðholtinu en kolféll síðan fyrir þessu umhverfi. Það eru mörg félög í Laugardalnum en hér er bara eitt – ÍR.“

Valur Þór Kristjánsson þjálfari hlaupahópsins ÍR-Skokk og Ása Arnfríður Kristjánsdóttir forseti hópsins.

Hálfmaraþon getur verið hvatning 

Reykjavíkurmaraþonið best í tal. Þau Ása og Valur segja ágæt markmið geta tengst því. „Til dæmis að æfa fyrir hálft maraþon. „Hálft maraþon er viðráðanlegt fyrir fólk sem er annars upptekið í hinu daglega lífi. Er að sinna vinnu, uppeldi og öðrum daglegum viðfangsefnum. Fólk þarf að æfa mikið auk þess að vera í mjög góðu formi fyrir heilt maraþon. Auk þess að gefa æfingum mjög góðan tíma. Fólk hleypur ekki beint inn í það. En hálfmaraþonið getur verið góð hvatning fyrir fólk. En þá sé líka nauðsynlegt að byrja snemma að æfa. Fólk geri það ekki á örfáum dögum.“

Vinahópar verða til 

Ása segir til viðbótar við gott sport verði til vinahópar í hlaupinu „Mér finnst að félagslegu tengslin ekki síður mikilvæg. Fólk er ekki bara að hlaupa heldur að hittast. Fólk spjallar saman og fær oft stuðning hvort af öðru. Ég flutti í Breiðholtið fyrir fjórum árum og er enn að kynnast hverfinu. Ég held að ef ég hefði ekki farið í ÍR-Skokk hópinn þá væri ég bara að hlaupa Seljahringinn. Við fáum svo mikið meira út úr þessu eins og það er rekið í ÍR-Skokk,“ segir Ása.

Markmiðið að fá sem flesta

Þau Valur og Ása segja að hlaupahópar geti verið lokaðir og tæpast fyrir aðra en innvígða að komast að. Þessu sé öfugt farið já ÍR-Skokk. Markmiðið hjá ÍR-Skokk sé að fá sem flesta með í hópinn hvort sem þeir séu gamlir Breiðhyltingar eða nýlega komnir í byggðina. Aldurinn eigi heldur ekki að skipa máli. Því sé lögð svo mikil áhersla á að hver og einn geti komið og verið með á sínum eigin forsendum.“

Skemmtilegar hefðir í hópnum

„Við erum líka með skemmtilegar hefðir í hlaupahópnum,“ segir Ása. „Ein þeirra er jólahlaupið. Þá skreytum við okkur. Reynum að vera aðeins skrautlegri í tilefni jólanna og einnig að finna bjartar götur í hverfinu til þess að hlaupa um. Við reynum að vera á undan jólasveininum. Það er ágætt markmið.“

You may also like...