Hér er gott að vera

– segja Erla Ólafsdóttir, Kristinn Sigurðsson og Vigdís Jónsdóttir sem öll búa í íbúðum fyrir heldri borgara við Skólabraut –

Svanhvít Erla, Kristinn Björgvin og Vigdís heima í stofu hjá Vigdísi sem bakaði frábæra jólaköku með rúsínum fyrir gestina.

Svanhvít Erla Ólafsdóttir, Kristinn Björgvin Sigurðs-son og Vigdís Jónsdóttir búa í íbúðum fyrir heldri borgara við Skólabraut á Seltjarnarnesi. Kristinn og Vigdís eru á tíræðisaldri en Erla nokkrum árum yngri. Þau hafa búið við Skólalbrautina um árabil og kunna afskaplega vel við sig. Segja samfélagið notalegt og alla aðstöðu til fyrirmyndar. Þau eru öll vel á sig komin og ern og taka öll þátt í félagsstarfi sem er í boði í íbúðakjarnanum. Erla var símamær á yngri árum en vann síðar eftir að hafa verið heimavinnandi um tíma hjá Seltjarnarnesbæ um árabil. Starfaði á bæjarskrifstofunum. Kristinn er prentari og starfaði við prentun þar til Blaðprent var stofnað. Þá skipti hann um starfsvettvang. Vigdís starfaði lengst af hjá Landsbankanum.

Erla er fædd í Reykjavík en búinn að vera á Seltjarnarnesi í fjóra áratugi. Þá flutti hún á Nesið ásamt eiginmanni sínum Páli Þórarinssyni. Þau voru farin að leggja drög að fá íbúð við Skólabrautina 1994 þegar Páll féll skyndilega frá. Hún hélt áfram að sækjast eftir íbúð og flutti þangað 1996. Erla vann hjá Landssímanum og kveðst vel muna eftir samskiptum fólks í gegnum síma á þeim árum. Jafnvel þegar hægt var að hlusta á símtöl en það var einkum þar sem svonefndir sveitarsímar voru notaðir þar sem ein símalína flutti símtöl á milli margra notenda á einstökum svæðum. „Faðir vinkonu minnar vann hjá Símanum og ég man að þegar ég byrjaði þurfti maður að læra starfið og ég var á mjög lágu kaupi til að byrja með.“ Erla hætti hjá Símanum þegar fjölgaði í fjölskyldunni. „Við vorum komin með fjögur börn og ég gerðist heimavinnandi um tíma eins og það var kallað. Þegar börnin uxu úr grasi kallaði atvinnulífið aftur á hana og hún starfaði lengi hjá Seltjarnarnesbæ. „Ég kunni vel við mig á bæjarskrifstofunni. Sigurgeir Sigurðsson var bæjarstjóri og afskaplega þægilegur yfirmaður. Ég man að hann tók þann sið upp að hafa skrifstofuna alltaf opna. Það var alltaf opið inn til hans nema ef hann var að sinna einhverjum persónulegum erindum fólks sem leitaði til hans. Mér skilst að þessu háttur hafi orðið fastur í sessi hjá bænum og þeir bæjarstjórar sem komið hafa á eftir honum hafi einnig hurðina á bæjarstjóraskrifstofunni opna.“ En hvernig er dagurinn hjá Erlu. Hún segist byrja daginn á að opna tölvuna og lesa fréttir. „Ég byrja alltaf á að líta á mbl.is. Ég hef líka gaman af að taka þátt í félagsstarfinu. Ég hef gaman af spilamennsku. Tek þátt í allskonar spilum og einnig í bingói. Ég tek þátt í leikfimi og spilatímarnir eftir hádegi á föstudögum eru afskaplega ánægjulegir. Svo á ég stóra fjölskyldu,“ segir Erla. „Langömmubörnin eru orðin 27.“

Sat hjá strák af gyðingaættum

Kristinn er prentari. Þótt hann sé ekki innfæddur Seltirningur á hann langa samleið með Nesinu. „Ég kom þangað fyrst árið 1939. Ég fór þá í Mýrarhúsaskóla þótt ég byggi ekki á Nesinu. Ástæða þess að ég var sendur þangað í skóla var sú að þar var kennt fyrir hádegi. Ég var farinn að sendast á þeim tíma og kennslan í Austurbæjarskólanum fór fram eftir hádegi. Ég hefði þá orðið að hætta sendiferðunum. Þegar ég var í Mýrarhúsaskóla sat ég hjá strák sem var af gyðingaættum. Hann hét Klaus Kroner. Foreldrar hans höfðu komið hingað á stríðsárunum og bjuggu í litlu húsi á Seltjarnarnesi. Ég man að þau höfðu lítið fyrir sig að leggja. Hann átti einn joggingalla sem hann gekk daglega í. Klaus flutti síðar til Bandaríkjanna þar sem hann lagði stund á læknanám og varð læknir. Þótt faðir hans væri sérmenntaður skurðlæknir átti hann erfitt með að fá vinnu hér á landi. Erlendir aðilar voru ekki vel séðir inn í læknastéttina. Eitthvað mun hann þó hafa starfað á spítala hér en það mátti alls ekki spyrjast út.“ Kristinn vann fyrst sem prentari hjá Jóni Helgasyni. Síðar sem prentsmiðjustjóri hjá Alþýðublaðinu og loks verkstjóri í prentsmiðjunni Eddu. Hann hætti prentstöfum þegar Blaðprent kom til sögunnar og flutti sig á annan starfsvettvang. „Þarna voru tímarnir að breytast og ég ákvað að hætta. Ég fór aldrei yfir í offsettið og tölvutæknina. Þegar ég lærði til prentiðnar var allt sett í blý. Ég man hvað margir gömlu setjarnir voru flinkir og fljótir að stafsetja og marga góða íslensku-menn var að finna í röðum þeirra. Þegar Blaðprent var stofnað átti Alþýðuprentsmiðjan góða prentvél. Þjóðviljinn átti líka nýlega uppgerða vél og Tíminn var með sæmilega vél. En þarna átti að spara í rekstri blaðanna sem börðust oft í bökkum. Við það bættist að talsvert var um lausasölu blaða á þessum tíma og blaðið sem var prentað fyrst gat oft verið fyrst með fréttir og fengið meiri sölu. Það var samkeppni á milli blaðanna þótt þau ættu sér sinn pólitíska bakgrunn. Ég fór síðan að vinna hjá Harðviðarvali þegar prentævinni lauk. Það var ágætt að prufa eitthvað annað.“  

Sérstök gæfa að hafa komið hingað

Vigdís kom á Seltjarnarnesi 1968. Vigdís starfaði lengst í Landsbankanum eða um 27 ár. Var þar allt fram að starfslokum um sjötugt. „Þar var margt af ágætis fólki og gott að vera. Ég minnist Sverris Hermannssonar og Björgvins Vilmundarsonar sem voru bankastjórar og einnig margra annara. Ég var síðan eins og Erla búin að panta mér íbúð hér á Skólabrautinni þegar æviárunum fjölgaði. Ég tel það sérstaka gæfu að hafa komið hingað. Hér fer ákaflega vel um mann. Hér lifa allir í sátt og samlyndi og maður getur tekið þátt í því félagsstarfi sem er í boði. Jafnvel tekið þátt í jóga.“ Vigdís er kvikk á fæti þótt komin sé á tíunda tuginn. Af því var von  á gestum. Nesfréttamönnum og hinum viðmælendunum hafði hún drifið sig snemma á fætur og bakað frábæra jólaköku með rúsínum. Það gekk á kökuna og hún fór inn í eldhús að huga að meira kaffi. „Nú fór í verra,“ sagði hún þegar hún kom fram. „Það er rafmagnslaust. Það kemur ekki oft fyrir.“ En hún reyndist hafa verið forsjál og nægar birgðir voru í kaffikönnunni. Svo lauk ánægjulegri heimsókn á Skólabrautina. Þau Erla, Kristinn og Vigdís eru góðir fulltrúar fyrir fólk sem hefur valið að eyða síðari hluta ævinnar í íbúðum fyrir heldri borgara á Seltjarnarnesi. Þau ræða félagsstarfið. Segja það frábært. Samskiptin við nágrannanna góð og ekki yfir neinu að kvarta.

You may also like...