Ætli ég sé ekki svolítill tölvunörd
– segir Kjartan Óli Ágústsson sem hlaut hæstu einkunn á stúdentsprófi frá FB á dögunum –
Kjartan Óli Ágústsson hlaut hæstu einkunn á stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti á dögunum. Hann fékk 9.51 í einkunn og hlaut fjölda verðlauna. Hann er nú á leið í Háskóla Íslands þar sem hann hyggst leggja stund á tölvufræði.
„Ég er Árbæingur. Bjó reyndar fyrstu tíu árin í Grafarvogi en þá flutti fjölskyldan í Árbæinn. Ég lít því á mig sem Árbæing. Búseta mín í Árbænum kom þó ekki í veg fyrir að ég sæktist eftir skólavist í FB enda ekki langt á milli þessara byggða sitt hvoru megin við Elliðárnar. Þetta byrjaði með því að ég fór á námskynningu FB sem haldin var fyrir tíuna bekk Árbæjarskóla. Ég sannfærðist strax að þarna væri skóli fyrir mig og hugsaði það ekkert frekar. Sótti bara um skólavist. Þetta hentaði mér vel að öllu leyti. Ekki síður til ferðalaga á milli en námsins. Ég hjólaði yfirleitt í skólann en þetta eru um þrír kílómetrar sem ég þurfti að fara á hjólinu.
Átti alls ekki von á að dúxa
Kjartan Óli útskrifaðist eftir þriggja ára nám eins og framhaldsskólinn er í dag. „Já ég lenti í þriggja ára kerfinu. Það dugði mér alveg. Ég var á braut sem kallast náttúrufræðibraut með tölvuívafi.“ Kjartan Óli neitar að hafa átt von á að verða dúx. „Nei alls ekki. „Þetta kom mér verulega á óvart. Ég stefndi alls ekki að því,“ segir hann en viðurkennir að þetta hafi orðið óvænt ánægja og talsvert af verðlaunum hafi fylgt. Þar á meðal voru menntaverðlaun Háskóla Íslands auk verðlauna fyrir árangur í tölvufræði, stærðfræði og sagnfræði auk fleiri verðlauna. Hann segist hafa haft gaman af sagnfræði. Alltaf verið forvitin um söguna þó hún hafi ekki fangað hug hans allan. En hafði Kjartan Óli einhvern tíma fyrir félagslíf í skólanum. Já hann kveðst hafa verið í Nörda-klúbbnum allar sex annirnar. „Ég get þó ekki sagt að ég hafi verið orðinn tölvunörd áður en ég byrjaði í FB en forritunaræfingar voru með því skemmtilegra sem ég gerði. Ætli ég sé ekki svolítill tölvunörd.“
Stundar 800 metra hlaup með Fjölni
Kjartan Óli hefur stundað íþróttir með fram námi og var á leið í Laugadalinn á æfingu eftir vinnu þegar Breiðholtsblaðið hitti hann á Te og kaffi í Kringlunni. Íþróttaáhugi hans kemur nokkuð á óvart. „Ég var að æfa skylmingar um tíma. Skylmingar eru íþrótt þar sem keppandinn heldur til leiks með ákveðna leikaðferð í huga en þarf svo sífellt að endurskipuleggja leik sinn með tilliti til viðbragða andstæðingsins og leikstíls hans. Ég fékk áhuga á þessu og stundaði það í nokkur ár. Skylmingar styrkja fólk líkamlega jafnt sem andlega og veita snerpu og jafnvægi. Ég hélt þó ekki áfram og skipti yfir í hlaup. Núna er ég að einbeita mér að 800 metra hlaupi og æfi með Fjölni.“ Hann er nýlega kominn af móti á Akureyri. „Já – ég lenti í kuldamótinu eins og það var kallað. Það var mjög kalt fyrir norðan þessa daga rétt áður tók að hlýna. Kuldinn hafði þó ýmsa kosti í för með sér. Það hefði ekki verið gott að keppa í hlaupi í yfir 20 gráðu hita.“ Kjartan Óli ætlar að halda áfram að hlaupa jafnframt námi í tölvunarfræði við Háskóla Íslands. Hann hyggst búa áfram hjá foreldrum sínum í Árbænum þannig að leiðin verður nokkru lengri fyrir hann að fara vestur í HÍ en í FB. „Þetta er aðeins lengra en ég ætla að halda áfram að hjóla í skólann,“ segir þessi Árbæingur um leið og hann stígur á bak reiðhjólinu og heldur niður í Laugardal til æfinga.