Trimmklúbburinn hljóp Laugaveginn

33 meðlimir  Trimmklúbbsins á Seltjarnarnesi (TKS) hlupu hinn vinsæla Laugaveg sem tengir saman Landmannalaugar og Þórsmörk sem er um 54 km gönguleið dagana 10. og 11. júlí. 

Trimmklúbburinn á Seltjarnarnesi (TKS) var stofnaður árið 1985 og kjörorð brautryðjanda klúbbsins Margrétar Jónsdóttur var “Muna að hafa gaman”. Það má með sanni segja að þessi kjörorð séu enn í heiðri höfð hjá TKS og hafi átt sérlega vel við dagana 10. og 11. júlí þegar 33 meðlimir klúbbsins hlupu hinn vinsæla Laugaveg sem er um 54 km gönguleið sem tengir saman Landmannalaugar og Þórsmörk á sunnanverðu hálendi Íslands, tvær sannkallaðar náttúruperlur. 

Lagt var að stað úr Landmannalaugum kl. 13 laugardaginn 10. júlí og var fyrri dagleiðin um 25 km. Hlaupið var um Hrafntinnusker í miklum snjó og þoku og endað í Hvanngili þar sem hópurinn gisti. Seinni dagleiðin var um 28 km þar sem lagt var af stað kl. 09 í brakandi blíðu, logni, heiðskíru – veðri eins og best gerist á fjöllum á Íslandi. Allir skiluðu sér heilir í  Þórsmörk 4-6 tímum síðar örlítið þreyttir, sólbrúnir en umfram allt þakklátir fyrir að hafa heilsu í að upplifa landið okkar í sinni fegurstu mynd á hlaupum. 

Þrjár mæðgum sem hlupu með hópnum. Á myndinni eru Ísold Norðfjörð, Arna Hansen, Björg Þuríður Magnúsdóttir, Eva Hannesdóttir, Sigrún Hallgrímsdóttir og Elín Birna Hallgrímsdóttir.
Elín Birna Hallgrímsdóttir, Guðrún Geirsdóttir, Eva Hannesdóttir og Jóhanna Einarsdóttir. Hér erum við með yngstu og elstu hlauparana sem hlupu Laugaveginn og allt virkir hlauparar í TKS  í Þórsmörk við lok hlaups.

You may also like...