Fer Listaháskólinn í Tollhúsið við Tryggvagötu?

– með því væri hægt að sameina starfsemi hans á einn stað –

Tollhúsið við Tryggvagötu. Framkvæmdir hafa staðið yfir við lagfæringu á götunni framan við húsið. Á framhlið þess er stórt mósaíkverk eftir Gerði Helgadóttur myndlistarmann. Með endurbótum á götunni er unnið að því að að fegra svæðið og leyfa listaverkinu að njóta sín betur. Framan við verkið verður torg og þar sem svæðið liggur vel við sólu er það talið henta vel sem dvalarsvæði fyrir vegfarendur. Listaverkið verður lýst upp og fær nú efniviðurinn að njóta sín betur en áður á þessum 142 fermetra fleti. Vel fer á því að verk Gerðar Helgadóttur verði á framhlið Listaháskólans í framtíðinni.

Hugmyndir eru um að flytja starfsemi Listaháskóla Íslands í Tollhúsið við Tryggvagötu en segja má að starfsemi hans hafi verið á hrakhólum allt frá stofnun. Hluti hennar hefur verið við Lindargötu, annar hluti við Skipholt og hluti í fyrrum húsnæði Sláturfélags Suðurlands í Laugarnesi. Ekkert af þessu húsnæði hefur hentað skólanum auk þess sem starfsemi hans hefur farið fram í nokkrum borgarhverfum.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra greindi frá því á blaðamannafundi nýlega að ráðast eigi í hönnunarsamkeppni í haust um hvernig koma megi starfsemi Listaháskóla Íslands fyrir í Tollhúsinu við Tryggvagötu í Reykjavík. Bjarni sagði mikla vinnu hafa verið unna í húsnæðismálum Listaháskólans að undanförnu. Þar hefði meðal annars verið skoðað að byggja nýtt húsnæði og koma Listaháskólanum fyrir í Laugarnesinu í Reykjavík auk þess sem Tollhúsið var skoðað. Þá hefði Landsbankahúsið verið nefnt sem hugsanlegt húsnæði Listaháskólans. Bjarni sagði að þarfagreining hefði tekið mikinn tíma, þar sem hún þyrfti að miða bæði við núverandi þarfir skólans og möguleika hans til að vaxa. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði við sama tækifæri gríðarlega mikilvægt að tryggja Listaháskólanum gott húsnæði undir einu þaki, þetta skipti miklu máli fyrir það fólk sem væri að læra skapandi greinar. Með því væri verið að tryggja innviði skapandi greina.

Skólinn verður öðrum jafnfætis

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskólans sagði af sama tilefni ákvörðun um eitt húsnæði setja skólann jafnfætis öðrum skólum á Íslandi hvað varðar húsnæði aðstöðu og aðbúnað. Einnig nemendur og starfsfólk. Þetta færi skólann einnig í fremsta flokk meðal háskóla á alþjóðavettvangi. Fríða Björk sagði biðina efir þessu búna að standa yfir i tvo áratugi. Aldrei hafi verið komist svona langt með þarfagreiningu í samstarfi við ríkið. Hún kvaðst hafa skynjað ríkan pólitískan vilja innan allra flokka um málið.

You may also like...