Hundrað ár frá rafvæðingu í Reykjavík

– Rafstöðin í Elliðaárdal –

Rafstöðin í Eilliðaárdal.

Hundrað ár eru frá því að Rafstöðin í Elliðaárdal var gangsett. Virkjunin var tekin í notkun sumarið 1921 og var raforkan framleidd með tveimur vélum og flutt eftir háspennuraflínu að aðveitustöð á Skólavörðuholti. Frímann B. Arngrímsson var fyrstur til að hvetja til að virkjað yrði í Elliðaám. Frímann var íslenskur fræðimaður og uppfinningamaður. Fæddur í Hörgárdal 1855 og flutti til Vesturheims árið 1874. Hann var fyrsti Vestur-Íslendingurinn til að stunda háskólanám og útskrifaðist 6. júní 1885 frá Manitoba-háskóla með B.A. gráðu. Frímann fékk mikinn áhuga á rafvæðingu á Íslandi – að vinna orku úr vatnsafli sem hann kallaði „hvítu kolin“, Hann kom tvisvar til Íslands 1894 til 1895 til að tala fyrir rafvæðingu. Hann taldi lítinn árangur sinn stafa af því að hann var fátækur og ættlítill en landsmenn íhaldssamir og hagsmunir kolakaupmanna miklir af því að ekki væri virkjað.

Tæpum aldarfjórðungi síðar eða 26. september 1918 samþykkti bæjarstjórn Reykjavíkur byggingu rafstöðvar. Þá voru verkfræðingarnir Guðmundur Hlíðdal og Jón Þorláksson búnir að leggja fram tillögur um virkjun. Undirbúningur að virkjuninni hófst árið 1916 og framkvæmd í september sama ár. Rafstöðin var síðan gangsett þann 27. júní 1921. Norskir verkfræðingar unnu að undirbúningi hennar og arkitekt stöðvarinnar var Aage Broager-Christiansen. Þann 27. júní 1921 vígðu Kristján X. Danakonungur og Alexandrína drottning Rafstöð Reykvíkinga í Elliðaárdal.

Bylting í lífsgæðum

Segja má að ákveðin bylting hafi orðið í lífsgæðum Reykvíkinga þegar rafstöðin var gangsett. Með henni hófst öld sem kenna má við nútímann. Raflýsing varð að veruleika. Rafmagn var smám saman leitt í hýbýli fólks og vinnustaði og færði því birtu og yl. Rafljós tóku að lýsa götur og næsta nágrenni. Lýsiskolurnar hurfu og starf „Luktar Gvendar“ sem gekk um bæinn og kveikti á götuljósunum þegar dimma tók heyrði til liðinni tíð. Gamla rafstöðin var stöðugt í notkun í 93 ár eða árið 2014 þegar hún bilaði og þá var slökkt var á henni. 

Í tilefni þeirra tímamóta og í raun mannlífsbreytinga sem rafstöðin skapaði bauð Orkuveita Reykjavíkur í aldarafmæli hennar í Elliðaárdal sunnudaginn 27. júní. Þar var boðið upp á fjölbreytta dagskrá. 

Nýtt hlutverk – þjóðgarður í borg

„Nú á að gefa rafstöðinni nýtt hlutverk. Núna fær hún endurvakið hlutverk sem fræðslumiðstöð og sýning. Og ég tel sjálfur að Elliðaárdalurinn sé vagga Orkuveitu Reykjavíkur. Það er svo margt sem má rekja hingað. Vatnsveitan byrjaði hérna, rafmagnið byrjaði hér 1921, hitaveitan líka. Það eru nokkrar borholur hér í dalnum sem ennþá eru í nýtingu,“ sagði Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur í tilefni afmælisins. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði rafvæðinguna hafa verið risaskref í því að þróa bæ í borg. „Við getum þakkað fyrir framsýni þeirra sem að þessu stóðu. En líka kannski fyrir það að hagkvæmasta leiðin til að virkja var ekki valin. Það var nefnilega á teikniborðinu leið sem var að veita vatninu öllu í Rauðavatn, þaðan í Grafarvog og vera með töluverða virkjun þar. Og þá hefðu ekki verið neinar ár í Elliðaárdalnum og engir laxar. Við eigum að líta á Elliðaárdalurinn eins og þjóðgarð í borg og standa vörð um hann um aldir alda þannig að maður sé nú hátíðlegur á 100 ára afmælinu.“

Sögu- og tæknisýning

Orkuveita Reykjavíkur efndi í upphafi árs 2019 til samkeppni um sögu- og tæknisýningu á rafstöðvarreitnum til að fagna 100 ára afmæli Elliðaárstöðvar. Hönnunarhópurinn Terta sigraði samkeppnina og framkvæmdir hófust í október 2020. Markmið OR er að veita fólki greiðan aðgang að þessu einstaka svæði í borginni sem er í almannaeigu, auka upplifun og ánægju og miðla fróðleik.

Skógrækt og uppgræðslustarf

Árið 1951 hóf Rafmagnsveita Reykjavíkur skógræktar- og uppgræðslustarf í árhólmanum í samstarfi við borgina. Á fáum árum breyttist Elliðaárdalurinn úr hrjóstrugum hólma í gróið útivistarsvæði sem nú iðar af fjölbreyttu plöntu- og fuglalífi. Elliðaárnar eru einu laxveiðiárnar í heiminum sem eru innan borgarmarka, og þar eru einnig fornminjar, meðal annars frá tíð Innréttinganna.

Svæðið er sannarlega einstakt enda er Elliðaárdalur eitt fjölsóttasta útivistarsvæði borgarinnar. Með því að gefa húsunum á torfunni nýtt hlutverk er sköpuð ný umgjörð fyrir menningu og mannlíf í dalnum og aðstaða þeirra sem heimsækja hann að stórum bætt.

You may also like...