Sífellt vinsælli samverustund

– Karlakaffið í Fella og Hólakirkju –

Kristín Kristjánsdóttir er djákni í Fella- og Hólakirkju, þar sem karlar á eftirlaunaaldri koma til að spjalla, fræðast og kætast saman síðasta föstudagsmorgun í hverjum mánuði.

Hugmyndin að karlakaffinu í Fella- og Hólakirkju kviknaði þegar ég horfði yfir á prjónakaffi eldri kvenna í Gerðubergi þar sem fimmtíu til sextíu konur setjast saman yfir kaffisopa og hannyrðum á hverjum föstudegi. Hvar voru herrarnir á meðan þær voru að prjóna? Ég vissi að þeir keyrðu elskurnar sínar í prjónakaffið og biðu sennilega einir með sjálfum sér á bókasafninu eða fengu sér sundsprett á meðan, en var kannski hægt að gera eitthvað fyrir þá? Hvað myndu þeir vilja? Vantaði þeim ekki samskonar vettvang til að hittast á og hafa gaman, rétt eins og konurnar,” segir Kristín Kristjánsdóttir djákni í Fella og Hólakirkju í spjalli við Breiðholtsblaðið.  

Kristín segir að Körlum þykir ekki síður gaman að kjafta við aðra karla heldur en konum í saumaklúbbum. Slíkir samfundir verði körlum mikilvægir þegar dagleg umgengni við vinnufélagana hættir á efri árum. “Mig langaði til að þeir ættu sér samastað til að hittast á, fá sér kaffi og vínarbrauð, og kjafta svolítið saman, rétt eins og við konurnar gerum þegar við hittumst einar og án karla. Í byrjun vissi ég ekkert hvað ég væri að fara út í, hvort það kæmu fjórir karla eða tíu, en í fyrsta kaffið komu þeir fjörutíu og sífellt bætist í hópinn enda mikil ánægja með karlakaffið, þar sem er mikið spjallað og hlegið yfir sætabrauði með sopanum.“

Sótt í viskubrunn gesta

Kristín segir að til þess að kveikja á umræðum og gera kaffispjallið líflegra hafi frá upphafi verið boðinn valinn gestur til að spjalla um lífið og tilveruna. Talsvert hafi verið litið til eldri manna því spurningar þess sem sé hættur að vinna séu oft allt aðrar en hins vinnandi manns. Meðal gesta frá upphafi má nefna Þráinn Þorvaldsson, framkvæmdastjóra Saga Medica, sem talaði um blöðruhálskrabbamein, hvað sé hægt að gera og hvað menn geta gert sjálfir. Séra Vigfús Árnason kom og sagði sögur af sjálfum sér og því hvernig er að vera hættur að vinna. Ómar Ragnarsson kom og reytti af sér brandara en talaði líka um hvernig það er að vera ekki lengur á launa-skrá, sem eru sannarlega viðbrigði. Af öðru gestum má nefna Sigurbjörn Þorkelson rithöfund, Þorvald Gylfason hagfræði prófessor, séra Svavar Stefánsson fyrrum sóknarprest í Fella- og Hólakirkju, Ögmund Jónasson fyrrverandi alþingismann og ráðherra Ellert B. Schram, fyrrverandi knattspyrnumann, ritstjóra og alþingismann og Guðna Ágústsson sem einnig hefur gegnt þingmennsku og ráðherrastörfum. Oddur Sigurðsson jarð- og jöklafræðingur og Þorvaldur Friðriksson fréttamaður og fornleifafræðingur hafa einnig mætt og fleiri mætti nefna. 

Karlar hafa ekki haft tíma fyrir áhugamál

„Hingað kemur stór hópur karla til að hlusta á erindi gestanna og við starfsfólk kirkjunnar tökum öll á móti körlunum. Hins vegar er skilyrði að karlarnir njóti samvistanna einir í salnum, því rétt eins og á samfundum kvenna breytist flæðið þegar karl bætist í hópinn. Í staðinn pössum við konurnar upp á að nóg sé á könnunni,“ Kristín segir að þetta er fyrst og fremst notaleg og skemmtileg stund. “Karlar af þessari kynslóð hafa margir unnið mikið um ævina, ekki haft tíma fyrir áhugamál og missa því mikið þegar þeir hætta að vinna. Margir eru óduglegir að drífa sig út og vanafastir. Fara bara í sinn heita pott og þaðan heim, og því þarf að ýta á þá að sýna sig og sjá aðra. Í karlakaffinu hafa þeir kærkominn vettvang til að hitta aðra karla, eignast nýja kunningja og oftar en ekki koma góðir vinir sem hafa tekið félaga sinn með og eiga skemmtilega samveru,“ segir Kristín.

Karlakaffi Fella- og Hólakirkju er síðasta föstudag hvers mánaðar, sept, okt, nóv, jan, feb, mars og apríl. 

You may also like...