Kvennakórinn Seljurnar er 30 ára

– vonumst eftir að fjölga kórfélögum, segir Svava Kristín Ingólfsdóttir kórstjóri –

Kvennakórinn Seljurnar að loknum tónleikum í Seljakirkju.

Kvennakórinn Seljurnar er 30 ára um þessar mundir. Kórinn var stofnaður af nokkrum konum í Breiðholti og víðar og dregur nafn sitt af Seljakirkju. Í upphafi komu nokkrar konur saman með gítara og byrjuðu að radda söng og ákváðu í framhaldinu að stofna kór. Hann hefur haldið jólatónleika og vortónleika og komið fram við ýmis tækifæri á þessum tíma.

Svava Kristín Ingólfsdóttir hefur stjórnar kórnum í 16 ár. Svava Kristín er mezzosópran og lauk áttunda stigi í söng og síðar söngkennaraprófi frá Söngskólanum í Reykjavík þar sem kennarar hennar voru meðal annarra Anna Júlíana Sveinsdóttir, Katrín Sigurðardóttir, Þuríður Pálsdóttir og Jórunn Viðar. Hún stundaði einkanám í óperusöng hjá André Orlowitz prófessor í Kaupmannahöfn og Sten Sjöstedt kennara við Óperuháskólann í Gautaborg. Svava hefur haldið einsöngstónleika og komið fram sem einsöngvari á fjölda mörgum tónleikum á Íslandi, í Svíþjóð og Danmörku. SÁÁ-kórinn, Kirkjukór íslenska söfnuðarins í Kaupmannahöfn, Íslenski Barnaskórinn í Gautaborg, Barna- og unglingakóra Grafarvogskirkju, Borgarkórinn, Maí kórinn, Barnakórar Snælandsskóla, Barna- unglingakóra Bústaðakirkju og síðast en ekki síst Seljurnar. Svava Kristín hefur einnig komið fram í Fella- og Hólakirkju og er ein af þríeykinu sem hefur staðið að baki flutningi á Stabat Mater ásamt Kristínu Sigurðardóttur og Arnhildi Valgarðadóttur á föstudeginum langa.

Svava Kristín og Arnhildur Valgarðsdóttir píanisti og organisti. Þær hafa unnið mikið saman m.a. við flutninga á Stabat Mater.

Alltaf verið með söngdellu

„Ég hef alltaf verið með söngdellu eða alveg síðan ég man eftir mér.  Ég fór og lærði klassískan söng.  Ég hef þó aldrei verið föst í klassíkinni því að ég er nokkurs konar alæta á tónlist og alltaf haft gaman af bæði jazz og popptónlist.  Ég hef því alltaf kennt jöfnum höndum klassískan og ryþmískan söng. ,“ segir Svava Kristín. Þið Kristín og Arnhildur hafa gert Stabat Mater frægt í Breiðholtinu. „Mér hefur fundist afskaplega gaman að standa að flutningi á Stabat Mater. Þetta er falleg og ljúf kirkjutónlist sem hefur notið vinsælda víða um heim. Ég söng það fyrst þegar ég bjó í Svíþjóð og endaði með samtarfi við Kristínu og Arnhildi. Verkið sem er ítalskt fjallar um Maríu móður Jesú þar sem hún bíður við krossinn og horfir á soninn þjást og deyja. Ætlun okkar var að gera þetta að föstum lið í Fella- og Hólakirkju en samkomutakmarkanir hafi komið í veg fyrir það að undanförnu. En við eigum örugglega eftir að flytja það oftar þegar þessu sóttvarnarlífi linnir.

Ætlum að mæta með nýtt og ferskt prógramm 

Svava Kristín segir að ætlunin hafi verið að halda afmælistónleika Seljanna vorið 2020 en ekki orðið af því. Heldur hafi ekki verið hægt að halda tónleikana á liðnu vori eins og ætlunin hafi verið vegna samkomutakmarkana. Hún segir kórinn hafa verið búinn að æfa fyrir þessa tónleika en endingin hafi orðið að fara í upptökur. Nú í haust sé hins vegar ætlunin að mæta ferskar með nýtt prógramm. Af þeim ástæðum er mikill vilji fyrir því að við bjóða nýjar kórsystur velkomnar í kórinn nú í september. „Það er löngum vitað að söngur hefur margvísleg og alveg hreint frábær áhrif á okkur. Við æfum á miðvikudagskvöldum í Seljakirkju þar sem við syngjum, hlæjum og höfum gaman. Við bjóðum velkomnar þær konur sem hafa gaman af því að syngja og vilja vera með í metnaðarfullu starfi Kvennakórsins Seljanna. Við verðum með opnar æfingar nú í september og hófum veturinn miðvikudaginn 8. september,“ segir Svava Kristín í spjalli við Breiðholtsblaðið.

Hressar og kraftmiklar konur 

Svava Kristín segir að hópurinn standi saman af hressum og kraftmiklum konum á aldrinum 35 til 65 ára sem eigi það sameiginlegt að hafa gaman af að syngja. Konurnar geri fleira en að hittast á kóræfingum og syngja saman hvort sem er á söngskemmtunum eða við önnur tækifæri. „Við skreppum stundum í ferðalög. Ekki mjög löng svona aðeins til að lyfta okkur upp. Hótel Örk í Hveragerði hefur verið vinsæll áfangastaður hjá okkur. Hann er mátulega langt frá Reykjavík og þar er góð aðstaða að öllu leyti. Við lítum á að við séum að fara í æfingabúðir.“

Tengslin við Seljakirkju eru sterk 

Svava Kristin er sjálf uppalin í Breiðholtinu en hefur búið í 101 um lengri tíð. Hún segir að gott hafi verið að alast upp í Breiðholti og einnig að starfa þar að hluta til en hún hafi ekki i hyggju að flytja til baka. Ég flutti niður í bæ þegar ég fór að búa og dætur mínar sem eru orðnar fastar við miðbæinn. Þær myndu ekki vilja flytja. „Margar kvennanna í kórnum eru hins vegar búsettar í Breiðholti þótt hverfisbúseta sé ekkert skilyrði fyrir þátttöku í kórstarfinu. Kórfélagarnir koma víðar að. Jafnvel utan af Seltjarnarnesi. En svo er tengingin við Seljakirkju sterk. Þess vegna finnst mér tilvalið að láta vita af þessu starfi í hverfinu. Við erum með mikinn metnað og viljum hvetja konur sem hafa áhuga á söng og góðum félagsskap að koma með okkur.“ Svava Kristín segir ekki nauðsynlegt að konurnar lesi nótur. „Við höfum ekki farið fram á það við kórfélaga. Það er þó ekki verra að kunna einhver skil á þeim. Sumar hafa stundað eitthvert tónlistarnám á yngri árum þótt þeir hafi ef til vill ekki haldið því við. Ég hef hugsað mér að vera með smá kennslu í nótnalestri fyrir kórfélaga í vetur. Ég vonast til að við getum eflt kórstarfið enn frekar í vetur og náð að halda tónleika,“ segir Svava Kristín Ingólfsdóttir kórstjóri.

You may also like...