Nýsköpun í ferðaþjónustu er nauðsynleg

Jón von Tetzchner.

Jón von Tetzchner stofnandi Innovation House á Eiðistorgi var staddur á landinu á dögunum. Hann settist niður með Nesfréttum á Kaffi Örnu en Jón er annars búsettur í Boston í Bandaríkjunum, þaðan sem hann sinnir starfsemi sinni. Jón kveðst þó hafa verið talsvert hér heima í sumar. Aðallega til þess að hvíla sig á kóvitinu. Sóttvarnaraðgerðir hafi verið mun harðri þar en hér. „Við rétt gátum fengið okkur göngutúr í kringum húsið og máttum alls ekki hittast mörg saman. Hér gat maður að mestu lifað eðlilegu lífi þrátt fyrir talsverðar sóttvarnartakmarkanir.“

Jón segir að Ísland standi vel að vígi ef miðað sé við önnur lönd. Ferðaþjónustan hafi vissulega orðið fyrir blóðtöku umfram aðrar atvinnugreinar en engin ástæða sé að örvænta. „Vestan hafs veit fólk vel af Íslandi og hefur áhuga á að koma hingað eins og dæmin eru þegar farin að sanna. Við eigum að geta þróað ferðaþjónustuna í samræmi við það, þótt vissulega verði af fara með gætni. Nýsköpun í ferðaþjónustu er eitthvað sem við eigum að horfa til. Fólk á heldur ekki að vera hrætt við skimun. Hún veitir vissu og öryggi.“

Vivaldi eftir tónskáldinu fræga

Jón er Seltirningur að ætt og uppruna og ólst upp á Seltjarnarnesi. Afi hans og amma voru Jón Gunnlaugsson lækir og Selma Kaldalóns. Jón ólst upp hjá þeim og segist hafa verið eins og yngsta systkinið í stóðum barnahóp þeirra þótt hann væri barnabarn. Hann gekk sína hefðbundu leið í Mýró og Való og síðan MR. Þaðan lá leið hans til Noregs að nema tölvufræði enda norskur í föðurættina. Hann settist síðan að í Noregi, kvæntist norskri konu og starfaði að fagi sínu. Hann er einn aðalhöfundurinn að vefskoðaranum Opera sem margir þekkja og hafa notað. Eftir að hann seldi hlut sinn í því fyrirtæki flutti hann til Bandaríkjanna og hóf að fjárfesta í ýmsum fyrirtækjum einkum þeim sem tengjast fagi hans og störfum. Einnig hóf hann vinnu við gerð annars vefskoðara eða vafra sem hann nefndi Vivaldi eftir tónskáldinu fræga enda sjálfur komin af tónlistarfólki þar sem Selma Kaldalóns tónskáld og píanóleikari var amma hans og Sigvaldi Kaldalóns var langafi hans. Það má því segja að Vivaldivefurinn sé íslenskur og umsvifin í kringum hann hafa verið umtalsverð hér á landi. Einkum á Eiðistorgi þar sem önnur starfsemi Jóns er til húsa. Hann segir að minna hafi þó verið í kringum Vivaldi að undanförnu vegna kóvid en bíða verði og sjá hver þróunin verði.

Langaði að gera eitthvað á heimaslóð

Jón hefur verið með ýmis  járn í eldinum á Eiðistorgi einkum er snúa að fjárfestingum. Hann segist hafa langað til að gera eitthvað á heimaslóð. Hann er líka aðal maðurinn að baki mjólkurvinnslunnar Örnu í Bolungarvík og samnefndu kaffihúsi á Eiðistorgi. Jón festi auk annars kaup á húsnæði á Eiðistorgi þar sem Íslandsbanki var með starfsstöð áður en hún var sameinuð starfsstöðinni í Örfirisey og flutti síðan í turninn í Kópavogi. „Sjónvarpsstöðin Hringbraut flutti í það húsnæðið um tíma en síðan hún fór hefur það staðið autt að hluta. Blómabúðin Bjarkablóm fluttu þó fljótlega þangað og gott að fá slíka starfsemi á torgið.“ Jón segir að nokkur þeirra fyrirtækja sem starfa undir hatti Innovation House hafi verið að auka við rými sitt enda hafi starfsemi margra þeirra vaxið umtalsvert. Vandinn sé þó að margt hafi verið í nokkurri biðstöðu vegna kóvid en vænta megi þess að líf fólks og fyrirtækja komist smám saman í eðlilegra horf. Þetta velti að miklu leyti á útbreiðslu bólusetninga þótt þær eigi víða erfiðara uppdráttar en hér á landi þar em flestir eru bólusettir.

Upplýsingasöfnun stórfyrritækja á netinu er hættuleg

Að lokum nefndi Jón mál sem snertir starfssvið hans og áhugamál. Er það söfnun upplýsinga sem á sér stað á internetinu. Hann telur þetta hættulega þróun. Fyrirtæki sem komist yfir mikið magn upplýsinga um fyrirtæki og ekki síður einstaklinga geti auðveldlega notfært sér þær. Í markasskyni sem öðru. Þetta sé þróun sem enginn viti hvar endi takist ekki að stöðva hana.

You may also like...