Fjallað um mál tengd Hrólfsskálavör og Steinavör

Nokkur mál voru til umræðu á fundi Skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarnesbæjar á dögunum. Flest fjölluðu erindin um breytingar á reitum við Hrólfsskálavör og Steinavör sem Davíð Helgason hefur fest kaupa á.

Í fyrsta lagi má nefna fyrirspurn Kristjáns Arnar Kjartanssonar fyrir hönd Davíðs Helgasonar, um útilistaverk við Hrólfsskálavör 2. Í fyrirspurninni var óskað álits Seltjarnarnesbæjar á að reisa útilistaverk í fjörunni fyrir neðan Hrólfsskálavör 2. Nefndin hefur bent á að samkvæmt fornleifaskráningu séu minjar á svæðinu og vísaði því erindinu til umsagnar hjá menningarnefnd og umhverfisnefnd.

Í öðru lagi var lögð fram fyrirspurn Kristjáns Arnar Kjartanssonar fyrir hönd Davíðs Helgasonar varðandi stöðuleyfi fyrir Yurt-tjald og timburpall á lóðinni Steinavör 10. Skipulags- og umferðarnefnd tók jákvætt í erindið en benti á að sækja þurfi formlega um stöðuleyfi fyrir lausafé sem standa eigi lengur en tvo mánuði.

Þá var lögð fram fyrirspurn Kristjáns Arnar Kjartanssonar fyrir hönd Davíðs Helgasonar um niðurrif einbýlis og bílskúrs á lóðinni Steinavör 10. Skipulags- og umferðarnefnd tók jákvætt í erindið en benti á að samkvæmt gr. 2.3.1 Byggingarreglugerðar þurfi að sækja formlega um byggingarleyfi fyrir niðurrifi mannvirkja á þar til gerðu eyðublaði og skila inn til byggingarfulltrúa.

You may also like...