Velheppnuð Menningarhátíð Seltjarnarness 2021

Mikill fjöldi fólks tók þátt í menningarhátíð Seltjarnarness sem haldin var dagana 7. – 10. október sl. Um 30 viðburðir og sýningar voru í gangi víðsvegar um bæinn.  Á barnadagskrá bókasafnsins mætti Gunni Helga rithöfundur en hann sló þar algjörlega í gegn. 

Mikill fjöldi fólks tók þátt í menningarhátíðinni sem haldin var dagana 7. til 10. október sl. og virtist njóta vel þess sem boðið var upp á enda var dagskrá hátíðarinnar afar fjölbreytt. Markmiðið var að flestir gætu fundið eitthvað við sitt hæfi en um 30 viðburðir og sýningar voru í gangi víðsvegar um bæinn. 

Mörg hundruð manns lögðu leið sína út í Gróttu til að upplifa hljóðlistaverk í Gróttuvita, myndlistarsýningu og kennslu í að tálga. Stöðugur straumur fólks var á viðburði og sýningar á bókasafninu ekki síst á sýningu Guðrúnar Einarsdóttur auk þess sem börnin nutu sín í botn á barnadagskrá bókasafnsins en Gunni Helga rithöfundur sló þar algjörlega í gegn. Á hátíðinni var boðið upp mörg tónlistaratriði og tónleika alla dagana en bæjarlistamennirnir Bjössi Sax og Árni Heimir Ingólfsson komu fram auk margra annarra tónlistarmanna. Troðfullt var á Legosýningunni og opnun Lyfjafræðisafnsins vakti að vanda verðskuldaða athygli. Rúsínan í pylsuendanum var svo alvöru bílabíó sem fjöldi fólks sótti og fékk sér auðvitað popp og kók í bílana. Myndir segja meira en þúsund orð eins og sjá má. Enn fleiri eru birtar á fésbókarsíðu Seltjarnarnesbæjar.

You may also like...