Náttúruminjasafn Íslands í Nesi
– þetta er risastór áfangi í sögu safnsins, segir Hilmar J. Malmquist forstöðumaður –
Hátt er til lofts og vítt til veggja á þaki Náttúruminjasafns Íslands á safnasvæðinu á Seltjarnarnesi. Af þakinu blasir Nesið við. Óbyggt svæði á vestur-nesinu er fyrir framan bygginguna og í björtu veðri má sjá allt til Snæfellsjökuls og yfir Reykjanes. Gosstöðvarnar í Geldingadölum blasa við og vel mátti fylgjast með eldsumbrotunum þegar gosið stóð sem hæst. Húsið var upphaflega reist til að hýsa lækningaminjasafn en þau áform runnu út í sandinn þegar það var fokhelt. Liðin eru 14 ár án þess að unnið hafi verið við bygginguna. Þótt hún sé nánast fokheld hefur hún nokkuð verið notuð meðal annars við upptökur vegna auglýsingagerðar og kvikmyndaframleiðslu.
Á síðasta ári tókust samningar milli Seltjarnarnesbæjar og stjórnvalda um yfirtöku ríkisins á húsnæðinu. Verkefnið var hluti af fjárfestingarátaki til að vinna gegn samdrætti af völdum heimsfaraldurs kórónaveirunnar. Hagkvæmara var talið að nýta þetta hús sem er hálfbyggt og aðlaga það af þörfum safnsins en að hanna og byggja nýtt hús frá grunni.
Risastór áfangi
Hugmyndir um nýtingu þessa húsnæðis undir starfsemi Náttúruminjasafns Íslands eru ekki alveg nýjar af nálinni. Eftir að Seltjarnarnesbær sagði sig frá samningi um að bæjarfélagið stofnaði og ræki Lækningaminjasafn Íslands árið 2012 bauð bærinn mennta- og menningarmálaráðuneyti að taka húsið yfir og nota það fyrir Náttúruminjasafn og Lækningaminjasafn sem rekið yrði á kostnað ríkisins. Síðan þróaðist hugmyndin í að húsnæðið yrði eingöngu notað fyrir Náttúruminjasafnið. Þetta er risastór áfangi í sögu þess,“ segir Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður á meðan hann röltir með tíðindamanni um þak byggingarnar á Nesinu. „Með þessum samningi er 130 ára bið Náttúruminjasafns Íslands eftir varanlegu safnhúsi lokið. Eðlilega er mikil vinna eftir við frágang á húsinu en við ætlum að láta hendur standa fram úr ermum og stefnum á að opna safnið hér vorið 2023. Með því færist líf í húsið og raunar allt safnasvæðið á vestanverðu Seltjarnarnesi.“ Hilmar bendir á að Nes eigi sér mjög langa og merkilega sögu náttúrufars og byggða. „Upphaf skipulegra rannsókna á náttúru Íslands um og upp úr miðri 18. öld tengjast Nesi og þar slitu læknisfræðin og lyfjafræðin barnsskónum hér á landi á sama tíma.“ Hann segir fýsileika sýningarhalds á vegum Náttúruminjasafnsins á Seltjarnarnesi mjög mikla og áhugaverða með hliðsjón af náttúru og umhverfisaðstæðum á staðnum. Hið sama eigi við um tengsl við fornar mannvistarleifar, en byggð hófst á Nesi á landnámsöld og á Seltjarnarnesi megi víða finna merki um athafnir.
Heildstætt safnasvæði
Hilmar segir að með tilkomu Náttúruminjasafnsins verði til mjög heildstætt safnasvæði. “Nesstofa er við hliðina á safnahúsinu með urtagarðinum og lyfjaminjasafnið er nánast á sömu lóð. Bakkatjörn er skammt undan með fjölbreyttu fuglalífi. Ráðagerði er hér rétt fyrr neðan og svo er örskammt út að Gróttu. Gamla fólkið býr hér við hliðina á okkur á hjúkrunarheimili fyrir heldri borgara og nú er verið að hefja byggingu á nýju íbúðahverfi í Bygggörðum. Við höfðum horft til þess að Ráðagerði yrði hluti af starfseminni hér og þar færi fram veitingarekstur. Nú hefur bæjarfélagið hins vegar selt Ráðgerði og því er sú hugmynd út úr myndinni. Þetta þýðir þó ekki að við höfum aflagt hugmynd um veitingarekstur í safninu. Nú er unnið út frá þeirri hugmynd að stækka neðri hæð hússins eða jarðhæð nokkuð til vesturs og koma þar fyrir aðstöðu til veitingareksturs sem verður í beini tengingu innanhúss við safnið.“
Eitt þriggja höfuðsafna landsins
Náttúruminjasafn Íslands var stofnsett árið 2007 en rekja má sögu þess allt aftur til ársins 1889 að stofndegi Hins íslenska náttúrufræðifélags. Með setningu Safnalaga árið 2001 var tekið skref í þá átt að þjóðin eignist almennilegt safn í náttúrufræði sem hæfir landi og þjóð. Í lögunum er ríkisstofnunin Náttúruminjasafn Íslands gerð að einu þriggja höfuðsafna landsins. Annað skref var stigið árið 2007 með setningu laga um Náttúruminjasafn Íslands þar sem kveðið er á um hlutverk og skipan í starfsemi stofnunarinnar.
Rúmir 1300 fermetrar
Hilmar segir að á þeim 13 árum sem eru liðin frá því safnið var formlega stofnað hafi það ekki átt sérstakt safnhús. Safnið er hins vegar með aðstöðu til 15 ára í hluta Perlunnar fyrir sýninguna Vatnið í náttúru Íslands „Nú eignast þetta höfuðstafn þjóðarinnar loksins viðunandi aðstöðu. Safnið er búið að vera á hrakhólum síðan það var stofnað formlega árið 2007. Við höfum aldrei haft eigið húsnæði, hvorki til sýningar-halds né annarrar starfsemi, þannig að þetta er langþráð. Og staðsetningin hér er frábær.“ Hilmar segir þetta húsnæði duga til að byrja með. Húsnæðið á Nesinu er 1363 fermetrar að stærð. Jarðhæðin er 937 fermetrar og kjallari 426 fermetrar, einkum ætlaður fyrir geymslur með um fjögurra metra lofthæð. “ Hilmar segir að í fjárlagafrumvörpum til næsta árs og næstu þriggja ára sé gert ráð fyrir 1,2 til 1,3 milljörðum til að gera við húsið og laga það að þörfum safnsins. Það hefur staðið svo lengi autt að það hefur ýmislegt gerst sem þarf að laga og endurbæta. Það eru strax komin fram ýmis viðhaldsverkefni.“ Inn í þessum tölum er líka stofnkostnaður fyrir grunnsýningu safnsins,“ segir Hilmar. Hann segir að á meðal þess sem vinna þurfi sé yfirbyggt skýli fyrir móttöku muna. Stækkun neyðarútgangs í kjallara. Nýja fólkslyftu og breytingar vegna vörulyftu. Þá þurfi að huga að breytingum á steyptum veggjum í kjallara og á jarðhæð og færslu votrýma auk betri loftræstingar þar. „Hönnun hússins er frá árinu 2007 og hana þarf að endurskoða með tilliti til þarfa. Náttúruminjasafnsins. Við það tækifæri verða þeir verkþættir rýndir sem á eftir að framkvæmda og teikningar af innra skipulagi endurskoðaðar frá grunni.
Fundaraðstaða og fræðsla
Eftir gönguferð um þakið og að hafa virt frábært útsýnið fyrir sér liggur leiðin á aðalhæð hússins. Þar er ekkert nema gráir veggir og kuldalegt viðmót í byggingu sem ekki hefur verið hituð upp. Hilmari verður litið til jarðbors sem stillt hefur verið upp í nágrenni við safnasvæðið. Nánast í útjaðri þess „Þarna er verið að bora eftir heitu vatni fyrir Seltjarnarnes þannig að okkur ætti ekki að skorta yl í framtíðinni. Rafmagnið var líka tekið af húsinu meðan óvissuástand ríkti um framtíð þess en verður að sjálfsögðu sett á þegar vinna við áframhaldandi byggingu og endurbætur hefst.“ Gönguferðin hófst í suðurhluta hússins. Þar er ætlunin að starfsmannaaðstöðu verði komið fyrir en síðan tekur við sýningarsalur. Til hliðar við hann er annar salur. Í hinum enda hæðarinnar verður komið á fót aðstöðu til funda og kennslu. „Við ætlum okkur að fá bæði æskuna og fleiri hingað inn til þess að kynnast því sem við erum að gera og íslenskri náttúru. Í norðurendanum liggur stigi niður á neðri hæð eða jarðhæð hússins. Hilmar sagði hann þröngan og íhuga þyrfti hvort gera megi breytingu á þessari tengingu á milli hæðanna. „Við teljum nauðsynlegt út frá notagildi byggingarinnar að efri og neðri hæðin séu vel tengdar og auðveldur samgangur á milli þeirra.“
Góð veitingaþjónusta
Ljóst er að út frá öllu sem fyrir augun ber í húsnæði safnsins þá býður það upp á margvíslega aðstöðu bæði er varðar geymslu, sýningarhald og fræðslustarfsemi. Ekki má heldur gleyma þeim möguleikum til mannlegra samskipta sem Náttúruminjasafnið mun bjóða í framtíðinni. „Af þeim ástæðum viljum við hafa góða veitingaþjónustu á staðnum.“ Á Hilmar von á að ferðamenn sæki í safnið. „Já ég geri ráð fyrir því og sú reynsla sem við byggjum á til dæmis úr Perlunni sýnir áhuga ferðamanna. Eitt af því sem gerir Ísland eftirsóknarvert fyrir ferðamenn er náttúra landsins. Þegar við verðum búin að setja Náttúruminjasafnið upp hér í tengslum við þetta fallega umhverfi og útsýni efast ég ekki um áhuga ferðamanna. Ég sé fyrir mér mikið og fjölbreytt mannlíf innlendra sem útlendra á safnareitnum á Seltjarnarnesi.“