Þetta er það sem þarf til að við verðum hluti af einni heild

– Kynningarfundur á Tungumálatöfrum – íslenskuörvun fyrir fjöltyngd börn –

Undanfarin ár hefur börnum og unglingum verið boðið upp á einnar viku aldursskipt sumarnámskeið í íslensku á vegum Tungumálatöfra á Ísafirði og á Flateyri. Nú eru tungumálatöfrarnir komnir í Breiðholtið. Myndin var tekin á námskeiði á Ísafirði í ágúst í ár. 
Mynd. Bæjarins besta.

Hugmyndin að Tungumálatöfrum kviknaði í Bretlandi og varð að veruleika á Ísafirði og Flateyri. Nú er mikill áhugi á að þróa verkefnið áfram í samstarfi við Þjónustumiðstöð Breiðholts og af því tilefni var haldinn kynningarfundur þann 7. október. Foreldrar barna af erlendum uppruna hafa sýnt áhuga á íslenskukennslu fyrir börnin sín og markmiðið er að innleiða hugmyndafræði Tungumálatöfra í grunnskóla-, frístunda- og íþróttastarfi. Áhugafélagið býður upp upp á fjölbreytt úrræði fyrir fjöltyngd börn til að læra íslensku og ásamt því eru þau að þróa vefskóla sem nýverið var settur í loftið. Í hverju námskeiði er unnið með ákveðið þema og orðalista. Einnig er lögð rík áhersla á íslenskuörvun í gegnum listsköpun og leik og fyrir eldri nemendur er boðið upp á útinám. Í boði er listsköpunarnámskeið fyrir fimm til ellefu ára og útivistarnámskeið fyrir tólf til fimmtán ára. Börnin læra og styrkja íslenskuna í gegnum tónlist, myndlist, leiklist og dans og jafnframt er lögð áhersla á fjölbreytilegt foreldrasamstarf.

Jasmina Vajzovic Crnac, verkefnastjóri hverfisverkefna í Þjónustumiðstöð Breiðholts.

„Með þessu verkefni veitum við betri þjónustu fyrir börn í samræmi við fjölmenningarstefnuna okkar,“ sagði Jasmina Vajzovic Crnac, verkefnastjóri hverfisverkefna í Þjónustumiðstöð Breiðholts, á kynningarfundi Tungumálatöfra þann 7. október síðastliðinn sem haldinn var í Árskógum 4. Fundinn sat fólk víðsvegar að úr Breiðholti og frá Reykjavíkurborg sem kemur að málefnum barna og unglinga með ýmsum hætti. 

Tungumálatöfrar er í senn heiti áhugafélags og samnefndrar hugmyndafræði og námskeiða um íslenskukennslu og fjöltyngi. Undanfarin ár hefur börnum og unglingum verið boðið upp á einnar viku aldursskipt sumarnámskeið í íslensku á vegum Tungumálatöfra á Ísafirði og á Flateyri, þar sem notaðar hafa verið aðferðir fjölbreyttrar listþátttöku og – sköpunar auk svokallaðrar töfraútivistar til að örva íslenskukunnáttu barnanna. Þjónustumiðstöð Breiðholts er nú komin í samstarf við Tungumálatöfra til að kynna þessa spennandi hugmyndafræði í grunnskóla-, frístunda- og íþróttastarfi í borgarhlutanum og vinna að meðfylgjandi þróun verkefnisins og fyrirhuguðu námskeiðahaldi. 

Vefsíðan Tungumálatöfrar.is er komin í loftið

Eftir inngangsorð frá Jasminu tóku þær Anna Hildur Hildibrandsdóttir stofnandi Tungumálatöfra og Dagný Arnalds, kennari við keflinu og sögðu fundargestum nánar frá verkefninu. „Verkefnið byrjaði því ég átti tvö börn í Bretlandi og langaði að styrkja íslenskuna þeirra,“ upplýsir Anna Hildur. Hún fann síðar kennara og fleiri samstarfsaðila og verkefnið tók að vaxa og dafna. „Þetta byrjaði á Ísafirði en við vonum auðvitað að þetta breiðist út“, segir hún. Vefsíðan Tungumálatöfrar.is er komin í loftið og samhliða henni vefskóli sem þegar hefur verið prufukeyrður, auk ýmiss annars þróunarstarfs. 

Hugrekki, samvinna, sköpun og vinátta

Vefskólinn spratt upp úr þeim takmörkunum á raunheima-hittingum sem heimsfaraldurinn leiddi af sér: „Í faraldrinum treystum við okkur ekki til að hafa alla í einum sal þannig að við ákváðum að láta reyna á vefskólann“, segja þær Anna Hildur og Dagný. „Markmiðið er að skapa aðstæður þar sem þau eru hluti af hóp og geta æft sig að tala“, segir Dagný. „Við ákváðum á Ísafirði að hafa námskeiðið opið öllum börnum. Þetta var því mjög blandaður hópur og það var gaman að sjá tengingar og vináttu myndast meðal barnanna. Við erum fyrst og fremst að vekja ástríðu á tungumálum sem við höfum vald á. Við byrjum á vinalaginu og höfum alltaf unnið með eitthvað tiltekið þema, stundum fugla, báta og einu sinni töfra. Listgreinar eru notaðar til að þétta hópinn sem er fjölbreyttur og þarfirnar eru líka stundum mismunandi, þannig við reynum að vinna með hugrekki, samvinnu, sköpun og vináttu.“ 

Tungumálið er hluti af heild

Á málþingi með heimskaffisniði sem haldið var á sumarmánuðum töldu fundargestir að aukin virðing fyrir fjölmenningu væri mikilvæg. Aðstandendur Tungumálatöfra telja því að þessi áhersla gæti orðið hluti af þeim áherslum sem unnið verði markvisst með eftirleiðis, en sem fyrr segir er áhugi á að innleiða Tungumálatöfra meðal ungviðisins í Breiðholti og veita börnum og unglingum almennt aukna þjónustu og stuðning í samræmi við samþykkta menntastefnu og stefnu um frístundaþjónustu. „Þetta er það sem þarf til að við verðum hluti af einni heild, því tungumálið er það sem sameinar okkur og gefur okkur jöfn tækifæri í samfélaginu,“ sagði Jasmina Vajzovic Crnac í umræðum eftir formlega kynningu um verkefni Tungumálatöfra og mikilvægi þess að styðja börnin í að læra íslensku. 

Foreldrarnir, fjölmenningin 

Fundargestir spurðu meðal annars hvort unnið yrði með foreldrum sem sjálfir glímdu við íslenskuna eins og börnin, og þær Anna og Dagný bentu á lykilhugtak í verkefninu væri samfélag. „Á lokadegi námskeiðanna er til dæmis haldin svokölluð töfraganga sem foreldrar taka virkan þátt í. Sumir foreldrar eru með henna tattú og segja frá því, þeir koma með mat frá sínum heimshornum, fara í leiki og eru með atriði frá ýmsum löndum. Þá erum við með sex kennara á námskeiðum yngra hópsins. Við leggjum áherslu á að foreldrar geti líka hist, þau koma á námskeiðið, sækja krakkana og oft ákveða þau að hittast á kaffihúsi. Þá geta foreldrar líka fylgst með vefskólanum og lært sjálf um leið og börnin.“

Dans, leiklist og myndlist

Margt annað kom til tals í samræðum á kynningarfundinum og meðal annars kom fram að unnið er í kringum tiltekinn orðalista og ekki lögð áhersla á ritað mál. Vefskólinn hafði verið rekinn á styrkjum sem tilraunaverkefni í fjórar vikur þegar kynningarfundurinn var haldinn og vonir standa til að hægt sé að halda áfram með það góða starf, enda undirtektar góðar. „Þetta er sem stendur áhugamannafélag með takmarkað fjármagn,“ segja þær Anna og Dagný. „Verkefnið þarf að þróa áfram og það þarf tíma í hugmyndavinnuna. Við notumst við dans, leiklist, myndlist og fleira í kennslunni og félagslegi þátturinn er svo mikilvægur, börnin kynnast og heilsa hvort öðru fyrir utan námskeiðið og með því kynnast foreldrarnir líka.“

Get séð þetta sem þróunarverkefni í Breiðholti

Að sögn Jasminu var fundurinn einmitt ekki síst haldinn til að finna verkefninu styrkan farveg og kanna möguleikana á framhaldi í Breiðholtinu. „Ég get séð þetta fyrir mér sem þróunarverkefni undir handleiðslu Þjónustumiðstöðvarinnar hérna í Breiðholti. Ég sé möguleika á að við getum verið með námskeið í Miðbergi, ekki bara í eina viku heldur í lengri tíma. Við erum líka að hugsa að töfraútivistarnámskeið fyrir þrettán til sextán ára geti verið í ÍR. Hugmyndin að vera með Tungumálatöfra námskeið í boði í frístundum í Breiðholti og fá að þróa verkefnið með starfsfólkinu þar er spennandi. Mikilvægt er að fylgja stefna um frístundaþjónustu, sem leggur áhersla á fjölbreytt og skemmtilegt starf með sköpun að leiðarljósi. Síðast en ekki síst í stefnu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur um fjölmenningu í skóla og frístundastarf er lögð megináhersla á fjölbreytta kennslu- og starfshætti og að börnin læri hvert af öðrum. Tungumálatöfrar uppfyllir öll þessi skilyrði. Við þurfum að fjármagna þetta og finna út úr því hvernig er hægt að vinna verkefnið, það þarf að vera vilji til staðar til að framkvæma. Það er mikil þróun framundan og þetta er ótvírætt verkefni sem verður að vera til staðar,“ segir hún að lokum. 

Þórhildur Vígdögg

You may also like...