Norður Mjódd

– nýtt íbúðahverfi eða sól og útsýni í eldri byggð –

Garðheimareitur í Norður Mjódd. Þar er áætlað að byggja íbúðahverfi í framtíðinni.

Íbúar í Neðra-Breiðholti eru uggandi yfir því að borgaryfirvöld ætli sér að byggja fjögurra til sjö hæða byggingar í Mjóddinni. Um 96 prósent íbúa skrifuðu undir mótmæli gegn fyrirætlunum borgarinnar. Hæstu hús í Neðra-Breiðholti eru þrjár hæðir fyrir utan eina undantekningu – blokkina við Þangbakka. Í athugasemdum íbúa kemur fram það mat þeirra að fimm til átta hæða hús skerði útsýni og hafi mikil áhrif á skuggavarp á öll húsin í vesturhluta hverfisins. Hverfið hafi verið byggt þannig að lágreistu húsin séu neðst í jaðri Neðra-Breiðholts og þriggja hæða blokkir fyrir ofan þannig að allir hafa gott útsýni. Með því að byggja fimm til átta hæða hús í Mjódd og Norður-Mjódd sé verið að fara gegn núgildandi skipulagi. Allt að átta hæða samfelld byggð vestan við byggðina, með möguleika á tíu hæðum að hluta sé því forsendubrestur frá því.

Þetta kemur fram í umsögnum frá íbúum í Neðra-Breiðholti. Þeir fara fram á að viðmiðunarhæð bygginga á svæðinu verði ekki meiri en fimm hæðir. Í svari borgarinnar við umsögnunum kemur fram að ekki hafi verið teknar endanlegar ákvarðanir um mögulegan íbúðafjölda aða byggingarmagn á svæðinu. Ákvörðun um það muni meðal annars grundvallast á mati á áhrifum uppbyggingar á grunnskóla og áhrifum á samgöngur.

Gert ráð fyrir óbyggðu útivistarsvæði

Í fyrsta skipulagi af Norður Mjódd frá 1962 til 1983 var gert ráð fyrir að þar yrði óbyggt útivistarsvæði hugsað til þess að tryggja íbúum í Neðsta hluta elsta Breiðholtshverfisins útsýni. Í grenndarkynningu fyrir Norður Mjódd frá 1974 má finna fyrstu teikningar um nýtingu þessa svæðis undir byggingar. Þar kom meðal annars fram að í Norður Mjóddinni yrði komið fyrir lágum byggingum, sem myndu ekki trufla útsýni úr neðstu húsum Stekkjarhverfis. Um svipað leyti hafði Olís fengið vilyrði hjá Reykjavíkurborg til að flytja bensínstöð sína sem þá stóð sunnan Álfabakka yfir götuna og verða syðst í Norður Mjódd þar sem hún er nú. Þá voru komnar fram hugmyndir um að reisa hverfisstöð fyrir Strætisvagna Reykjavíkur við Álfabakka og því varð að færa bensínstöðina.

Um 700 íbúðir á Garðheimareit 

Í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur er Mjóddin skilgreind sem svæði þar sem hús geti verið níu hæðir eða hærri. Þrátt fyrir að með uppfærðu aðalskipulagi sé verið að lækka viðmiðið á hæðum húsa á þessum slóðum niður í fimm til átta hæðir virðast íbúar óttast að sá hæðarrammi verði nýttur til fulls er reitirnir verða nánar útfærðir í deiliskipulagi. Hugmyndir hafa komið fram um að bygga yfir 700 íbúðir á hinum svokallaða Garðheimareit, sem er í eigu Haga. Borgin sjálf gerir ráð fyrir 800 nýjum íbúðum í Mjódd í nýjustu húsnæðisáætlun sinni.

Mögulegt byggingasvæði lækkað 

Breytt aðalskipulag Reykjavíkurborgar fram til ársins 2040 var samþykkt í skipulags- og samgönguráði borgarinnar fyrir skömmu. Þær breytingar hafa verið gerðar frá auglýstri tillögu að hæðaviðmið bygginga í Mjódd verður fjórar til – sjö hæðir. Búið er að lækka mögulega byggingahæð um eina hæð – úr átta hæðum í sjö. Í aðalskipulaginu er gert ráð fyrir fjögurra til sjö hæða byggingum í Mjódd. Það þýðir um 800 íbúðir og 600 þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði. Íbúar óttast að nýja byggðin verði á skjön við hverfið.

Sól og útsýni stór liður 

Íbúum finnst skorta á samtal við borgaryfirvöld og vilja samtal áður en framkvæmdir hefjast. Bent hefur verið á að um barnvænt hverfi sé að ræða með góðum gönguleiðum og góðri miðju, þar sem börn þurfa nánast aldrei að fara yfir götu. Þetta þýði þó ekki andstöðu við uppbyggingu. Þetta sé mikilvægt svæði sem þurfi að byggja upp þótt það þurfi ekki að vera á skjön við það sem fyrir er. Það byggingamagn sem ætlunin sé að reisa þarfnist þjónustustofnana á borð við leik- og grunnskóla að ógleymdu stórauknu álagi á umferðamannvirki. En hvað sem því líður virðist sól og útsýni vera stór liður í áhyggjum íbúanna í Neðra Breiðholti.

You may also like...