Gengu alltaf glaðar út um dyrnar
– segir Telma Khoshkhoo –
Síðastliðið sumar hefur hópur af erlendum konum, ásamt börnum þeirra, kannað hina ýmsu eiginleika, dyggðir og færni sem getur hjálpað þeim í daglegu lífi og í aðlögun að íslensku samfélagi. Námskeiðinu var valið hið sólbjarta heiti: Happy summer. Á hverjum föstudegi í átta vikur hittust konurnar í Gerðubergi, unnu saman í þrjá tíma og fundu sinn innri styrk. Þær áttu innihaldsríkar samræður, fóru í leiki með börnunum sínum, horfðu saman á stuttmyndir og lásu saman sögur. Þann 1. október síðastliðinn var svo haldin uppskeruhátíð sem konurnar undirbjuggu til að fagna vel heppnuðu og árangursríku námskeiði. Boðið var upp á mat sem þátttakendur námskeiðsins elduðu og einnig héldu konurnar kynningar. Gleðin sveif yfir vötnum og það leyndi sér ekki að þarna höfðu einhverjir töfrar átt sér stað.
Telma Khoshkhoo, menningarmiðlari og fjölskylduráðgjafi hjá Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, þýddi frásagnir kvennanna fyrir gestum uppskeruhátíðarinnar. Telma skipulagði og stýrði verkefninu sem óhætt er að segja að hafi gengið vel og vakið áhuga. Blaðamaður Breiðholtsblaðsins vildi fá að vita meira eftir að hafa verið gestur á uppskeruhátíðinni og settist niður með Telmu nokkru síðar til að ræða við hana um námskeiðið og mikilvægi þess fyrir mæður af erlendum uppruna.
Af hverju “Happy Summer”
Aðspurð um hvernig nafnið á námskeiðinu kom til segir Telma: „Námskeiðið byrjaði í sumar og þess vegna ákváðum við að kalla það „Happy Summer“, enda var þetta ánægjuleg samkoma sem innihélt mikinn lærdóm.“ Hún bauð átján mæðrum frá Sýrlandi, Írak, Kúrdistan og Palestínu að taka þátt og fann þátttakendur í gegnum lista frá móttöku flóttafólks: „Allar konurnar sem sátu námskeiðið voru nýkomnar til Íslands og aðeins búnar að búa hér í ár eða minna.“
Létu vanda ekki aftra sér
Í júní hittust konurnar á sínum fyrsta fundi, en vegna faraldursins höfðu orðið þó nokkrar tafir á að námskeiðið hæfist. „Í covid var erfitt að skipuleggja samkomurnar,“ upplýsir Telma. „Konurnar voru tilbúnar, staðurinn var tilbúinn, en margt var óvíst út af faraldrinum. Ég bauð átján mæðrum þátttöku en vegna takmarkana þurftum við að skipta þeim í tvo hópa. Einn mánuðinn tókum við á móti öðrum hópnum og í næsta mánuði þar á eftir tókum við á móti hinum hópnum.“ Telma bætir við að fjöldi þátttakenda hafi einnig breyst og verið nokkuð fljótandi. „Sumar þurftu að vinna og þegar tímasetningin breyttist kom fyrir að það skaraðist við vinnu. Aðrar konur tókust á við heilsufarsvandamál, til að mynda krabbamein, en létu það þó ekki koma í veg fyrir mætingu, svo mikill var áhuginn. Það voru því ljón í veginum og áskoranir sem þurfti að vinna bug á en okkur tókst það og námskeiðið var haldið.“
Sjálfsöryggi, áhugamál og ný færni
Markmið þessa námskeiðs eru mörg og ólík eins og glöggt kom fram á uppskeruhátíðinni en gegnum þau öll endurómar áherslan á að styrkja konurnar, bæði út á við í samfélaginu og inn á við í sambandi þeirra við börnin sín. Unnið var markvisst með hvernig þær geta lagt sitt af mörkum til samfélagsins og lögð var rík áhersla á að þær kynntust sjálfum sér betur og kæmust að því hvar áhugi þeirra lægi ef þær voru ekki með fastmótaðar hugmyndir og skoðanir á því. Telma segir að í byrjun hafi markmiðið aðeins verið að efla með konunum sjálfsöryggi og kynna þeim leiðir til þess: „Í fyrstu var þetta eina markmiðið mitt,“ segir hún. „Mig langaði að sýna þeim að hlutverk þeirra sem konur væri ekki lengur einungis að elda og þrífa heldur að sjá um sig sjálfar, læra nýja hluti og stunda nám. Ég sá og sé þessar konur, áfall þeirra og reynslu. Ég held að þær gleymi því að þær eru konur og manneskjur og að þær eiga sitt eigið líf. Líf þeirra á ekki bara að snúast um að sjá um börnin sín og eiginmennina, heldur um sig sjálfar. Þær þurfa að gera það til að vera sterkari fyrir fjölskyldur sínar, ég þurfti að undirstrika það við þær.“
Jákvætt lífsviðhorf
Telma nefnir að stór hluti námskeiðsins hafi snúist um að tileinka sér jákvætt viðhorf til lífsins og til þess að öðlast nýja færni. „Eitt af markmiðunum var að konurnar kynnist sjálfum sér“, segir hún, „og að þær komist að því hvað þær eru áhugasamar um og hvernig þær verða sjálfsöruggar. Ég vildi að þær lærðu nýja hæfileika, dyggðir, siði í íslensku samfélagi og að þeim líði eins og þær tilheyri. Þetta snýst ekki einungis um að lifa, heldur þurfa þær gleði á hverri sekúndu í lífinu, í áskorunum sínum, í afrekunum, að upplifa með gleði.“
Brjóta ísinn og skapa þægilegt rými
Í námskeiðinu var lögð áhersla á að skapa gott rými með jákvæðri orku. Þátttakendur mættu oft með börnum sínum og lærðu meðal annars að búa til góðar venjur og rútínur heima við og hvernig mætti bæta samskipti ef á því þyrfti að halda. Þessu var unnið að með stuttmyndaáhorfi á námskeiðinu, með því að lesa sögur saman og ræða um þær, og með því að fá gesti frá mismunandi stofnunum til að kynna starfsemi þeirra. Til að mynda fengu þær heimsókn frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og Miðju máls og læsis. Einnig var mikið um að farið væri í leiki, lögð áhersla á að gera mikið með fjölskyldunni og á að fá börnin til að mæta líka. „Við spiluðum leiki til að brjóta ísinn en engin af konunum gat svarað spurningum um hvert áhugamál þeirra væri eða hvað þær vildu vera,“ segir Telma. „Ég reyndi að kenna þetta í gegnum sögur, leiki og innihaldsríkar samræður og held að það hafi haft áhrif. Þær finna svörin við þessum spurningum með því að þekkja sjálfa sig, áhugamál sín og vita hver réttindi þeirra eru sem kona í íslensku samfélagi. Ég var líka að kenna þeim hvernig er best að vera í samskiptum við börnin sín og hvernig er hægt að leika með þeim heima við.“
Endurmat og næstu skref
Aðspurð um framhaldið á þessu frábæra námskeiði segir Telma að hún muni án efa halda áfram með það. Hún er nú þegar byrjuð að skipuleggja dagskrá og uppbyggingu næstu námskeiða enda augljóst að mikil þörf er fyrir hendi. „Næst þegar ég verð með þeim langar mig að fara dýpra í þeirra rútínu,“ segir hún. „Hingað til hef ég gefið þeim tímaáætlun til að fara eftir heima og þær hafa getað breytt henni sjálfar.“ Hún bætir við að á næstu námskeiðum verði tekið á móti sama hópnum og sótti námskeið síðastliðins sumars en einnig mæðrum sem hafa ekki sótt námskeiðið áður. „Mig langar að bjóða fjölbreyttari hópi af fólki því ég tala líka persnesku og darí, auk tungumálanna sem ég notaði á síðasta námskeiði.“ En hvað finnst Telmu standa upp úr eftir frumraunina á Happy summer? Ekki stendur á svari. „Það var gleðin og áhuginn. Það voru mismunandi tilfinningar í hverri viku og stundum spiluðum við leiki um hvernig má hafa áhrif á tilfinningar okkar. Þær gengu alltaf glaðar út um dyrnar. Fegurðin við þetta námskeið er að ég þurfti ekki að skrá mætingu. Það var ekkert stress eða þrýstingur, en þær mættu samt. Alltaf.“
Þórhildur Vígdögg