Brúna tunnan er mætt í Breiðholtið
Brún tunna undir sérsöfnun á lífrænum eldhúsúrgangi stendur nú íbúum Breiðholts til boða og er tunnan því valkostur í öllum hverfum Reykjavíkurborgar austan Elliðaáa. Stefnt er á að þjónustan verði í boði í öðrum hverfum borgarinnar um mitt ár 2022.
Hægt er að panta tunnu á ekkirusl.is eða með tölvupósti á sorphirda@reykjavik.is. Samþykki húsráðanda, hússtjórnar fjöleignarhúss eða meirihluti eiganda í fjöleignarhúsi þarf að liggja fyrir.
Allir fá flokkunarkörfur í eldhúsið
Þegar tunnan er keyrð út til íbúa fylgir með hentug flokkunarkarfa til að hafa í eldhúsi fyrir allar íbúðir, auk einnar rúllu af maíspokum undir úrganginn. Einnig fylgir með handhægt upplýsingablað með helstu atriðum um þjónustuna. Mikilvægt er að þeir sem panta fyrir hönd íbúa í fjöleignahúsum taki að sér að dreifa upplýsingaefni og flokkunarkörfum til nágranna sinna.
Brúna tunnan er fyrst um sinn valkvæð en flokkun á lífrænum úrgangi verður síðan að skyldu við öll heimili í borginni frá og með 2023 þegar ný lög um meðhöndlun úrgangs taka gildi.
Fyrst um sinn er boðið upp á staka brúna tunnu, sem hentar til dæmis öllum fjölbýlishúsum og þar sem nokkrar íbúðir deila sorpgeymslu. Unnið er að því að innleiða hentugri lausnir fyrir til dæmis einbýli og raðhús þannig að hægt sé að auka sérsöfnun við heimili án þess endilega að fjölga ílátum. Öllum stendur brúna tunnan til boða í dag og verður hægt að breyta um ílát eftir því sem aðrar lausnir bætast við.
Tækifæri fyrir minni tunnu eða fækkun íláta
Þar sem það á við er hægt að óska eftir minna íláti undir blandaðan úrgang, eða svokallaðri spartunnu í stað hefðbundinnar grátunnu. Í fjölbýlishúsum gæti gefist tækifæri til að fækka grátunnum og draga þannig úr kostnaði.
Gjaldið fyrir brúna tunnu er nú 10.700 krónur á ári. Gjaldskráin er þannig sett upp að með því að skipta úr hefðbundinni grárri tunnu í minni spartunnu er hægt að bæta brúnu tunnunni við án þess að greiða meira fyrir þjónustuna. Þannig væri í mörgum tilfellum hægt að auka flokkun án þess að gjöldin hækki. Íbúar eru því hvattir til að kanna nýtingu á ílátum í sorpgeymslum þegar líður að tæmingu.
Tæmd á 14 daga fresti
Vinnsla á lífrænum úrgangi fer fram í gas- og jarðgerðarstöð Sorpu (GAJA), þar sem gasvinnsla er í fullum gangi en fullvinnsla á jarðvegsbæti liggur tímabundið niðri meðan unnið er að breytingum á húsnæði stöðvarinnar.
Brúna tunnan verður tæmd á 14 daga fresti að jafnaði, á sömu dögum og grátunna/spartunna. Hægt er að sjá losunardaga á sorphirðudagatali Reykjavíkurborgar: Reykjavik.is/sorphirdudagatal.