Steinunn garðyrkjustjóri kvödd

Steinunn Árnadóttir garðyrkjustjóri og Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri.

Eftir tæplega 30 ára starf sem garðyrkjustjóri Seltjarnarnesbæjar hefur Steinunn Árnadóttir nú kvatt okkur Seltirninga á þeim vettvangi en hún hætti störfum þann 30. nóvember sl. Þegar Steinunn hóf störf hjá Seltjarnarnesbæ árið 1992 hafði lítil stefnumörkun verið sett fram í garðyrkjumálum Seltjarnarness en á því varð breyting með komu Steinunnar. 

Strax það ár var hafist handa við að móta og tyrfa svæðið í Bakkavör og ganga frá svæðunum við Valhúsabraut, Kirkjubraut, Norðurströnd, Suðurströnd og mikið lagt upp úr vönduðum undirbúningi áður en hafist var handa við að gróðursetja. Þess var gætt í upphafi að velja salt- og vindþolnar plöntur enda ekki hægt að rækta hvað sem er á Seltjarnarnesi. Með sanni má segja að ræktuð svæði hafa stækkað umtalsvert á Seltjarnarnesi síðastliðna áratugi undir hennar stjórn. 

Endurhlóð sjóvarnarvegginn

Þá var það eitt af fyrstu verkum Steinunnar að endurhlaða sjóvarnar-vegginn neðanvert við Eiðistorg en Steinunn er mikill áhugamaður um grjóthleðslu og hafði starfað töluvert við slíkt áður en hún réði sig til starfa á Seltjarnarnesinu. Hitabeltisgróðurinn á Eiðistorgi hefur alla tíð verið einstakur og bæði verið mikil áskorun og metnaður af hennar hálfu að láta hann dafna eins og hugsunin á bak við hönnun torgsins gerði ráð fyrir. 

Vinnan með unglingunum skemmtilegust

Í gegnum árin hefur Steinunn átt sinn þátt í að auka áhuga Seltirninga á garðyrkju bæði með því að fara heim til fólks og veita ráðgjöf um hvað þrífist best í görðunum auk þess sem flest ungmenni á Seltjarnarnesi hafa tekið sín fyrstu skref í vinnu undir hennar stjórn í Vinnuskólanum. Að sögn Steinunnar hefur vinnan með ungmennunum verið eitt hennar skemmtilegasta verkefni hér hjá bænum og jafnvel ástæða þess að hún hefur varið nær allri sinni starfsævi í garðyrkjumálunum á Seltjarnarnesi. 

Það var vel við hæfi að leysa sjálfan garðyrkjustjóra Seltjarnarnesbæjar út með blómum þegar að hún var kvödd á sínum síðasta starfsdegi og heldur á vit nýrra ævintýra í sínu lífi.

You may also like...