Átján nýjar leiguíbúðir í Vesturbænum

Hið nýja hús Kvennaathvarfsins í Vesturbænum.

Kvennaathvarfið hefur tekið í notkun 18 leiguíbúðir í nýju áfangaheimili í miðborg Reykjavíkur. Íbúðirnar eru 27 til 75 metrar að flatarmáli og hugsaðar sem úrræði fyrir konur sem dvalist hafa áður í neyðarathvarfi og geta ekki farið aftur á sitt fyrra heimili. Þegar er komið fólk í fimm íbúðir og fjölgar á næstu mánuðum.

Leiga í íbúðunum verður í lágmarki auk þess sem konunum mun bjóðast margvíslegur félagslegur stuðningur til betra lífs. Leigusamningar verða til eins árs og við undirritun þeirra gera leigutakar og ráðgjafar Kvennaathvarfsins áætlun um hvernig árið skuli notað á uppbyggilegan máta; svo sem í námi, starfi eða öðru sem hverjum og einum hentar. Að þeim tíma liðnum skal viðmiðið vera að konurnar fari út í lífið og þá í húsnæði á almennum markaði. Áfangaheimilið er á þremur hæðum um 680 fermetrar að flatarmáli. Undirbúningur framkvæmda hófst árið 2017 og framkvæmdir snemma árs í fyrra. Samanlagður byggingarkostnaður er um 480 milljónir króna. Um þriðjungur þeirrar upphæðar var stuðningur frá ríki og borg en ýmis samtök lögðu byggingunni einnig lið.

You may also like...