Hverfisskipulag Breiðholts staðfest

– nýjungar og uppbygging einkenna skipulagið

Frá einum af mörgum kynningarfundum sem efnt var til vegna hverfaskipulagsins.

Hverfisskipulag fyrir Neðra-Breiðholt, Selja­hverfi og Efra-Breiðholt hefur tekið gildi. Það leysir eldri deiliskipulagsáætlanir af hólmi. Helstu markmið hverfisskipulagsins eru að gróin hverfi í borginni verði sjálfbærari og vistvænni en áður, íbúðum fjölgi og þægilegra verði fyrir húseigendur að gera breytingar á fasteignum sínum.

Hverfisskipulagið er afrakstur vinnu- og samráðs­ferlis sem hófst árið 2016. Haldnir hafa verið samráðsfundir með íbúum, bæði nemendum í grunnskóla og eldri íbúum, auk þess sem Gallup stýrði aldursskiptum rýnihópum úr öllum hverfum Breiðholts. Meðal helstu atriða í hverfisskipulagi eru uppbygging og efling hverfiskjarna í öllum hverfum Breiðholtsins, við Arnarbakka og Eddufell-Völvufell þar sem deiliskipulagsvinnu er að mestu lokið, samhliða gerð hverfisskipulagsins. Efling byggðar við Austurberg og Gerðuberg þar sem styrkja á miðju Efra-Breiðholts og borgarhlutans, m.a. með uppbyggingu dans- og fimleikahúss sem nýst getur öllum borgarbúum. 

Innviðir við borgargötur

Borgargötur sem njóta forgangs við endurhönnun og fegrun verða við Arnarbakka í Neðra Breiðholti, Rangársel í Seljahverfi og Austurberg í Efra Breiðholti. Við borgargötur verða byggðir upp innviðir eins og hverfistorg, hleðslustöðvar og djúpgámar. Hverfiskjarnar við Hólagarð og Rangár- og Hólmasel eru skilgreindir sem þróunarreitir og unnið verður sérstakt deiliskipulag fyrir þá. Sama gildir um Mjóddina þar sem vinna við deiliskipulag hefst á þessu ári.

Áhugavert þróunarsvæði er einnig skilgreint við Jórufell, en í skipulagsferlinu komu fram hugmyndir um að þróa þar nýja byggð í samvinnu við Félagsbústaði, sem eiga allar íbúðir þar. Önnur skil­greind þróunarsvæði fyrir nýja byggð eru við Suðurfell og Suðurhóla. Síðast en ekki síst skal nefna vetrargarð í Seljahverfi sem hlaut feikilega góðar viðtökur í samráðsferli hverfisskipulags. Undirbúningur framkvæmda er þegar vel á veg kominn.

Auðveldara að breyta fasteignum

Með samræmdum skipulagsskilmálum, sem m.a. hafa tekið mið af algengum umsóknum um breytingar á fasteignum, verður nú mun auðveldara fyrir húseigendur í Breiðholti að sjá hvaða heimildir þeir hafa til breytinga á sínum fasteignum og ein­faldara að sækja um leyfi þar sem tímafrekar og kostnaðarsamar deiliskipulagsbreytingar og grenndarkynningar verða að mestu úr sögunni

You may also like...