Aðalatriðið að krökkunum líði vel

– segir Jóhannes Guðlaugsson sem nú vinnur að því að vekja athygli barna á íþrótta- og frístundaþátttöku í Breiðholti –

Jóhannes Guðlaugsson hefur verið ráðinn í starf íþrótta- og frístundatengils í Breiðholti.

Jóhannes Guðlaugsson hefur verið ráðinn í starf íþrótta- og frístundatengils í Breiðholti. Um er að ræða nýtt starf í tengslum við stóra frístundaverkefnið ,,Frístundir í Breiðholti“ sem nú er hafið. Hlutverk Jóhannesar verður að fylgja börnum fyrstu skrefin inn í íþrótta- og frístundaþátttöku sem kennarar skólanna hafa bent á að eru óvirk. Þetta er ný aðferð við að efla óvirk börn til þátttöku og festa þau í sessi. Jóhannes býr í Breiðholti og hefur starfað mikið fyrir ÍR í gegnum árin. Hann var einnig var um árabil forstöðumaður í frístundamiðstöðinni Árseli í Árbænum. Hann þekkir því íþrótta- og frístundabransann út og inn. Jóhannes settist niður með Breiðholtsblaðinu á dögunum.

„Ég var búinn að búa erlendis um tíma þegar ég kom í Breiðholt 29 ára gamall. Ég bjó í Svíþjóð. Ég var í námi í frístundafræðum í Lundi og starfaði þar um tíma eftir að náminu lauk. Ég spilaði líka fótbolta ytra. Eftir að ég kom heim fór ég að starfa að félagsmálum í Árbænum og var líka að þjálfa í fótboltanum. Konan mín er hins vegar hreinn Breiðhyltingur. Hún er Ungverji í aðra ættina. Faðir hennar er Mikael Fransson einn af þeim sem kom hingað í fyrsta hópi flóttamanna eftir uppreisnina í Ungverjalandi haustið 1956. Hann ílengdist hér eins og flestir sem komu í þessum hópum. Þetta var á þeim tíma sem aðflutti fólki var skipað að taka upp íslensk nöfn ef það fengi ríkisborgararétt. Hann hér réttu nafni Miklos Tölgyes en ég veit ekki hvort Fransson nafnið sem hann tók upp sem eftirnafn eigi einhverjar rætur í fjölskyldu hans eða sögu. Þetta nafn hefur þó ekki alveg horfið þótt Mikael hætti að nota það. Mið sonur minn hefur tekið það upp sem millinafn og systir konunnar minnar einnig. Mikael starfaði lengst af eftir komuna til Íslands sem auglýsingateiknari og hönnuður og vann ákveðið brautryðjendastarf á því sviði. Á þessum tíma var fátt um fólk af erlendu bergi brotnu hér á landi. Þetta ungverska fólk sem kom hingað var að flýja átök í heimalandinu og gerði sér grein fyrir að það ætti ekki afturkvæmt á heimaslóðir. Gunnlaugur heitinn Þórðarson vann að komu þess hingað. Ungverjar eru líkir okkur að útliti. Þeir lærðu íslensku og tengdust mannfélaginu. Við fluttum í fyrstu inn á fjölskylduna eftir að við komum heim frá Svíþjóð. Elsti sonur okkar var komin í Ölduselsskóla og þarna var leiðin lögð. Sú leið að við myndum setjast að í Breiðholti.”

Aðalatriði að krökkunum finnist gaman og þeim líði vel

Jóhannes segir fjölskylduna ákveðna í að búa áfram í Breiðholti. “Við kunnum vel við okkur þar. Eigum ágæta nágranna og erum með gott tengslanet. Eftir meiðsli sem ég verð fyrir í fótboltanum úti hóf ég að þjálfa í 2. deild og með unglingalið. Því tók við þjálfun hjá ÍR um leið og við komum í Breiðholtið. Nú er ég í hálfu starfi hjá Þjónustumiðstöð Breiðholts og í hálfi starfi sem yfirþjálfari í fótboltanum hjá ÍR. Ég hef átt gott samstarf við Þráinn Hafsteinsson sem starfaði lengi hjá ÍR. Aðstaða til þjálfunar er þar mikilvægust og er það strax farið að hafa áhrif.

Það er nauðsynlegt að ólíkar íþróttagreinar geti hjálpast að og stutt hvor aðra. Nú er orðin mikil breytinga á allri aðstöðu hjá ÍR. Félagið getur tekið stórt stökk með þeirri aðstöðu sem nú er komin upp og er að koma. Ein mesta breytingin er fyrir fótboltann að fá íþróttahúsið. Við verðum líka að hugsa um þau verðmæti sem íþróttir og íþróttastarf fela í sér. Við verðum að nýta þau bæði í uppeldislegum og einnig öðrum samfélagslegum tilgangi. Þetta snýr bæði að afreksíþróttum og einnig almenningsíþróttum. Þegar kemur að almenningsíþróttunum er aðalatriðið að krökkunum finnast gaman og að þeim líði vel í starfinu.“  

Mitt hlutverk er að kynna

Í Breiðholti býr fólk af margvíslegum uppruna. Fólk sem á rætur sínar í öðrum löndum og samfélögum. Fólk sem hefur alist upp við ýmsi lífsskilyrði og lífsviðhorf sem geta verið ólík því sem við erum vön hér á landi. Jóhannes segir ljóst að þessi ólíki bakgrunnur fólks valdi því að krakkar fari á mis við það íþróttastarf sem er í boði. Þar geti ýmiskonar ástæður komið til. Foreldrar séu oft ekki nægilega upplýstir um þessa möguleika. Eru oft ekki vanir þeim úr sínu fyrra umhverfi. Ef til vill geti tungumálaerfiðleikar átt þátt í þessu. Krakkarnir séu oftast fljótari að ná að tileinka sér íslensku. Í einstökum tilfellum geti verið um skoðanafestu að ræða sem fólk getur tekið með sér úr öðrum heimkynnum. „Mitt hlutverk er að kynna fyrir krökkum og forráðafólki þeirra hvað er í boði. Hvað krakkarnir geti gert með því að verða virkir í íþróttastarfi. Mörg börn sitja of föst fyrir framan við tölvuna og covid faraldurinn hefur eflaust aukið á. Krakkar eru meira heima við og forðast stundum að hitta aðra krakka. Aðaláherslan í mínu starfi verður að kynna fyrir þeim hvað möguleika þau eiga og styðja þau við að koma inn í íþrótta- eða frístundastarf. Kynna fyrir þeim hvaða styrkir eru í boði. Margir aðkomnir foreldrar eru ekki vanir því að geta sótt um íþrótta- og útiverustyrki í samfélagslega sjóði. Ég hef veitt því athygli að fólk verður hissa þegar það fréttir af þessu. Get ég gengið styrk fyrir barnið mitt er spurning sem hefur komið upp og mun koma upp. Við þurfum að fá þetta fólk með okkur í lið. Þetta getur líka verið liður í aðlögun fólks að samfélagi okkar og gildum þess.“

Fáum fulltrúa þjóðarbrota í þetta starf 

Fer það ef til vill eftir uppruna fólks hversu fjarlægt það getur verið starfi af þessu tagi. Jóhannes segir það vel geta verið. „Eftir því sem fólk kemur úr ólíkari samfélögum og umhverfi getur munurinn verið meiri. Fólk upprunnið úr arabaheiminum og einnig frá Asíu er oft alið upp við ólíkari menningarhefðir en við. „Við þurfum að ná til þessa fólks en  verðum líka að gæta þess að gera það á þess eigin forsendum. Við megum ekki þröngva einhverju upp á fólk sem það áttar sig ef til vill ekki nægileg vel á. Við erum til dæmis búin að fá fulltrúar flestra þjóðarbrota með okkur í samstarf. Komi með að tala við fólk og skýra út fyrir því um hvað sé að ræða. Þannig verður auðveldara að öðlast traust þess í því sem fyrir því geta verið nýjungar.“ Jóhannes segir mikið af þessu starfi tengjast skólunum í Breiðholti. En mætti nefna að hátt hlutfall innflytjanda sé í Breiðholti og hefur aukist hratt. Þetta leggst vel í mig og ég vona að þær aðferðir sem við höfum verið að þróa komi okkur að gagni. Það er slæmt að ef börn fara á mis við íþróttastarf út af menningarlegum eða félagslegum aðstæðum og það er okkar að bregðast við og kynna þeim möguleikana og aðstoða þau af stað í nýjum heimkynnum.“

You may also like...