Myndlistin alltaf blundað í mér

– segir Ásdís Kalman myndlistarmaður –

Þessi mynd af Ásdísi Kalman er tekin á sýningu í anddyri Þjóðminjasafnsins eftir að hún efndi til námskeiðs fyri börn hælisleitenda. „Hælisleitendur hafa nákvæmlega ekkert að gera og mér datt í hug að setja upp vikuleg námskeið fyrir börn og ungmenni úr þeirra hópi í samvinnu við Rauða krossinn. Oft komu í kringum fimmtán börn. Þau vissu öll að til greina kæmi að verkin yrðu sett á sýningu. Sýninguna kallaði Ásdís börn á flótta.

Ásdís Kalman myndlistarmaður og kennari hélt málverkasýningu sem hún nefndi Ljósbrot í Gallerí Gróttu um liðin jól og áramót. Heiti sýningarinnar var vel til fundið. Féll vel að myndum hennar en á þessari sýningu er einbeiting að strangflatarforminu. Myndformi sem var algengt á fimmta og jafnvel sjötta áratug liðinnar aldar. Í þessu myndformi hefur ljósið mikið að segja. Það skapar blæbrigði sem listamaðurinn vill ná fram. Hún sýndi myndir frá tveimur síðustu árum þar sem hún leitaði forma í strangflatastílnum. Ásdís er fædd og uppalin í Umeå í Svíþjóð en hefur búið í um einn og hálfan áratug á Seltjarnarnesi. Ásdís settist niður með Nesfréttum á Kaffi Örnu á dögunum og spjallaði um lífshlaup sitt.

„Ég hef ekki sýnt á Seltjarnarnesi áður en verið með í menningarviðburðum í bókasafninu. Ég hef búið hér síðan 2006. Við áttum áður heima í Vesturbænum vorum búin að fara í marga göngutúra um Nesið og kynnast því í dagsbirtunni. Okkur fannst eðlilegt að leita fyrir okkur hér þegar kom að því að festa sér hús til frambúðar. Ég áttaði mig þó ekki til fulls á því fyrr en eftir að við fluttum hingað hversu margir kostir eru við að búa á Seltjarnarnesi. Ég finn hversu vel er haldið utan um börn hér í bæjarfélaginu og bæjarbragurinn er sérstakur. Ég hef ekki verið í neinum sérstökum félagssamtökum hér í bænum en finn hversu margir þekkjast og tengsl fólks eru almennt góð. Ég kann því mjög vel við mig hér.“

Fædd og uppalin í Umeå

Þú ert fædd og uppalin í Svíþjóð. „Ég er fædd í Umeå sem er háskólabær í Norður Svíþjóð og á stærð við Reykjavík. Foreldrar mínir Björn B. Kalman læknir og Þórdís Ingibergsdóttir bókasafnsfræðingur fluttust þangað eftir að þau luku nami. Í stað þess að flytja heim fóru þau þarna norður eftir. Hann fékk stöðu í Umeå og þau settust þar að. Þau eignuðust átta börn og ég ólst því upp í stórum systkinahóp. En ég er það eina af börnum þeirra sem settist að á Íslandi. Hin eru öll búsett í Svíþjóð. Ég kýs að líta á mig sem Íslending þótt ég eigi eðlilega sænskar rætur. Ég gekk í barnaskóla þar og lauk stúdentsprófi frá Östra Gymnasiet. Þá flutti ég til til Íslands. Ég hafði áhuga á læra íslensku, kynnast landinu og huga að mínum íslensku rótum.“ Ásdís segir ekki hafa verið mikil viðbrigði að koma hingað nema ef til vill til hins betra. „Umeå og Reykjavík eru af svipaðri stærð hvað fólksfjölda varðar og veðráttan er köld. Þó er miklu meira vetrarríki í Umeå en hér á suðvesturlandi. Frost eru meiri og þar snjóar oft meira. Frostið getur verið stöðugt á bilinu 10 til 20 gráður yfir vetrarmánuðina. Að því leyti svipar veðráttan þar meira til Norðurlands en höfuðborgarsvæðisins.“   

Þrjú tungumál á heimilinu

Ásdís tók inntökupróf í Myndlistar- og handíðaskólann og útskrifaðist þaðan af málaradeild 1988. Hún hóf síðar nám við Listaháskólann og lauk þaðan diplómanámi til kennsluréttinda 2004. Þá sótti hún frönskunámskeið við Sorbonne 1989 og myndlistarnámskeið við Centre des arts et de la culture de Vence. „Þegar ég útskrifaðist hafði ég kynnst eiginmanni mínum sem er franskrar ættra og heitir Daníel Karel Niddam og starfar í dag sem sölustjóri hjá 3X Technology. Hann kom hingað upphaflega sem ferðamaður en hefur tengst Íslandi vel. Er alveg sama um kuldann þótt hann sé alin upp í hlýrra loftslagi en ég. Hann hefur líka gaman af að stúdera tungumál og hefur náð góðu valdi á Íslensku. Vegna atvinnu hans fluttum við til Bretlands 1989. Ég fór að vinna við þýðingar úr ensku á sænsku fyrir Discovery Channel. Við fluttum síðan til Frakklands í árslok 1989 og vorum búsett þar til 1991 að fluttum aftur til Íslands þar sem við höfum verið síðan.“ Ásdís segir að börnin heyri þrjú tungumál á heimilinu auk ensku sem öll börn læri í dag. „Enskan er auðveldari en til dæmis franskan auk þess sem hún er alls staðar í fjölmiðlun, snjalltækjum og sækir sig í veðrið í námi.“  

Myndlistin alltaf blundað í mér

Ásdís segir að myndlistin hafi alltaf blundað í sér. „Ég var á listabraut á menntaaskólaárum og eftir að ég var búin að vera hér sótti ég um í Myndlistar- og og handíðaskólanum. Ég var heppin að ná eldri körlunum sem þá voru að kenna. Braga Ásgeirssyni og Herði Ágústssyni. Þarna var um að gera að vera ófeimin og reyna að læra. Ég hef sinnt listinni frá því ég útskrifaðist úr náminu. Ég var komin undir fertugt þegar ég ákvað að ná mér í kennsluréttindi. Fór til náms við Listaháskóla Íslands sem þá var tekinn til starfa og fór að sinna myndlistakennslu við Ingunnarskóla í Grafarholti árið 2006 og hef starfað þar síðan. Ég hef einnig gripið í að kenna sænsku sem er í raun móðurmál mitt. Ég byrjaði á því fyrr tveimur árum. Nú er farið að bjóða upp á nám í sænsku fyrir krakka sem hafa alist að einhverju leyti upp ytra og hafa ákveðinn grunn þaðan. “

Myndverk í strangflatarstíl eftir Ásdísi. Þeim stíl sem hún sýndi í Gallerí Gróttu um jólin.

Einkasýningar og samsýningar

Á meðal einkasýninga Ásdísar í gegnum árin má nefna sýninguna Ljóseindir í Grafíksafninu – Sal íslenskrar grafíkur, 2012, Artótek í Borgarbókasafni Reykjavíkur, 2012, Lúmen í Listasal Mosfellsbæjar, 2009  og Innsetningu á umhverfisdögum í Norræna húsinu, 2008. Auk þess hefur hún tekið þátt í fjölda samsýninga. En er hún búin að ákveða næstu sýningu. „Ég er búin að sækja um á nokkrum stöðum en það er ekki alveg komið á hreint hvert ég fer. Ég þarf líka að halda mig að verki til að eiga nýtt efni til að hafa á boðstólum. Ég er í fullri vinnu en fer svo í vinnustofuna eftir vinnu og þó aðallega um helgar. Ég þarf að nota svona heraga á sjálfa mig en ég nýt þess bara. Stundum getur líka verið erfitt að skapa. Finna sér viðfangsefni og vinna síðan úr þeim. Stundum dettur maður niður á eitthvað sérstakt. Sýningin í Gallerí Gróttu var afrakstur þess að ég datt niður á strangflatastílinn. Ég hafði ekki málið mikið í þessum stíl en ákvað að reyna við hann með þeim árangri sem líta mátti á Gróttusýningunni. Hann hefur ekki verið mikið áberandi hér á undanförnum árum en meir áður fyrr. Það voru menn eins og Kjartan Guðjónsson, Hörður Ágústsson og Karl Kvaran sem unnu mikið með hann.“

Hjálpar að vera fjölþjóðleg

„Ég hef verið að vinna aðeins í þrívídd,“ heldur Ásdís áfram. „Mig langar til þess að eiga meira við þá sköpun. Kannski byggist næsta sýning á því. Þetta er eilífðarspurning en aðalmálið er að vera sáttur við það sem maður er að gera á hverjum tíma. Það hjálpar mér að vera fjölþjóðleg. Það hjálpar mér að sjá hlutina frá fleiri sjónarhornum. Maður fær fjölbreyttari sýn á umhverfið, sjálfan sig og samfélagið. Maður tengir sig við landið hvar sem maður er.  

Hef hugmynd um að gera eitthvað tengt Seltjarnarnesi

„Ég hef líka verið með þá hugmynd að gera eitthvað sem sérstaklega yrði tengt Seltjarnarnesi. Hér eru til dæmis ýmsar minjar um hernámsárin. Það hefur ekki verið fjallað mikið um þær. Ef til vill hefur fólk viljað gleyma þessum tíma. Ég hef veitt því athygli að víða er borin mikil virðing fyrir slíkum minjum. Ég var komin með smá drög í þessa átt þegar ég var á námsárunum. Það getur verið að ég dragi þau fram aftur. En ég verð að liggja betur yfir þessari hugmynd og velta fyrir mér hvernig ég myndi útfæra hana í dag.“

You may also like...