Ég vil vinna með fólki
— segir Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur og borgarfulltrúi —
Hver er Kolbrún Baldursdóttir. Sálfræðingur, Breiðholtsbúi, borgarfulltrúi í Reykjavík, ræktunarmanneskja austur í sveitum og fyrrum hænueigandi. Hvað þar á milli. Manneskja sem hefur kosið að vinna með fólki. Sem sálfræðingur og nú undanfarin fjögur ár sem stjórnmálamaður. Hún kveðst stefna að því að eyða næstu fjórum árum í borgaramálaharkinu.
Kolbrún var beðinn að lýsa sjálfri sér aðeins. Hver hún sé og hvernig. „Ég er frökk, dálítið kjörkuð og verkglöð,“ segir hún og brosir út í annað. „Ég vil koma sem mestu í verk. Vinna er mitt helsta áhugamál fyrir utan fjölskylduna barnabörnin mín fjögur og það fimmta sem er á leiðinni. Ég hugsa líka oft um sveitina mína sem við hjónin höfum ræktað í tugi ára. Þangað fer ég stundum til að slaka á og hugsa. Ef einhver spyr um ókosti mína þá eru þeir margir. Mörgum þyki ég stjórnsöm en ég sé það nú reyndar oft sem kost. Ég vil drífa í hlutunum. Og sennilega segi ég of mikið. Ef mér mislíkar og misbýður þá segi ég sennilega of mikið. Jafnvel getur þá sviðið undan. Ég þoli bara ekkert bull og kjaftæði ef ég má orða þetta pent.”
Minnihlutinn vængstýfður
Kom henni eitthvað á óvart þegar hún steig inn í Ráðhús Reykjavíkur. Hún segir að viðvarandi óeining á milli meiri og minnihluta hafi einkennt kjörtímabilið. Að mörgu leyti sé erfitt að starfa í minnihluta. Tilhneigingin sé að svæfa allt sem fulltrúar þeirra afla. Ekki sé horft á hvort um góð eða nauðsynleg mál sé að ræða heldur hver leggi þau fram. Þetta sé allt of algengt í sveitarstjórnarmálum. Með þessari skiptingu sem eigi rætur í starfsháttum Alþingis sé hluti borgarfulltrúa nánast óvirkur, honum ekki hleypt upp á dekk. „Auðvitað vona ég að fólki finnst ég hafa staðið mig, gert gagn þó nánast öll mín mál sem telja mörg hundruð í þágu fólksins hafa verið felld eða vísað frá. Þannig er líf minnihlutafulltrúa – því miður. Ég lifi eftir þeirri speki að orð séu til alls fyrst. Umræðan geti verið af hinu góða og sumt nái að rata til betri vegar. En það gengur ekki að láta þar við sitja. Ég vil framkvæma. Framkvæma af skynsemi.”
Fæði og klæði fyrir alla
Og nú er aftur komið að slagnum. Hvernig leggst hann í ýtna og stjórnsama konu sem hefur barist áfram í minnihlutastarfi í borginni. “Kosningabarátta er erfið en einnig skemmtileg fyrir kappsama manneskju eins og mig. Ég er afar þakklát mínum flokki og formanni hans fyrir að gefa mér tækifæri til að leiða þennan góða lista aftur. Með mér er úrvals fólk sem brennur fyrir málefnunum og er tilbúið að leggja nótt við dag í þágu borgarbúa. Við ætlum að halda áfram að hlusta og ekki bara hlusta heldur heyra og við viljum almennilegt samráð við fólkið og að það samráð sé haft á fyrstu stigum mála en ekki í miðju ferli þegar búið er að ákveða grunnmyndina. Flokkur fólksins berst fyrir auknum jöfnuði í Reykjavík og útrýma fátækt enda á engin að þurfa að líða skort í borginni. Við viljum fæði, klæði og húsnæði fyrir alla, samgöngur án tafa og almennilegt samráð við borgarana.”
Vesturbæingur en innfluttur Breiðhyltingur
Kolbrún hefur búið lengi í Breiðholti og hugsanlega vilja margir tengja hana við þann borgarhluta. En er hún hverfismanneskja í þessum öfluga borgarhluta. “Það tengja mig eflaust ýmsir við Breiðholtið. Ég hef verið þar svo lengi. Síðust 20 ár hef ég búið í Breiðholti. Þetta er dásamlegt hverfi og finn ég hvert sem ég fer að hér á ég heima. Mér mætir bros og hlýja sem yljar um hjartarætur. Nei, er ekki innfædd í Breiðholtið heldur innflutt. Ég er Vesturbæingur. Ég ólst þar upp. Gekk í Melaskóla, Hagaskóla. Þaðan lá leiðin í Versló og síðan í Háskóla Íslands. Hinum eiginlega námsferli lauk með því að ég fór til Bandaríkjanna í framhaldsnám í sálfræði. En auðvitað er maður alltaf að læra þótt um eiginlegt nám sé ekki að ræða. Lífsleiðin hefur alltaf eitthvað nýtt að færa.”
Fangamál, barnaverndarmál og heilsugæslumál
Starfsferill Kolbrúnar hefur að mestu legið innan sálfræðilegra verkefna. Hún fékk löggildingu sem sálfræðingur 1992 og hóf störf hjá Fangelsismálastofnun. Í því starfi hitti hún marga sem voru sviptir frelsi sínu fyrir margvíslegar sakir. Eftir það varð hún yfirsálfræðingur á Stuðlum og sálfræðingur barnaverndarmála í Kópavogi. Loks starfaði hún sem heilsugæslusálfræðingur í Mjódd þar til borgarmálin tóku yfir. Hef rekið stofu síðan 1992, verið skólasálfræðingur í 10 ár, starfað á Göngudeild Sóttvarna í 6 ár þar sem ég veitti hælisleitendum sálfræðiþjónustu. Hef kennt á öllum skólastigum og haldið fjölda námskeiða og fyrirlestra m.a. um sálfræðileg málefni þ.m.t. eineltismál og úrvinnslu þeirra. Var um tíma formaður Stéttar-félags sálfræðinga og formaður Barnaheilla Save the Children í 6 ár. Þetta er ekki tæmandi en kannski er ég að verða leiðinleg með þessari upptalningu. Hef alltaf skrifað mikið og var fyrir löngu farin að tjá óánægju mína með hversu lengi börn þurfa að bíða eftir fagþjónustu sálfræðinga áður en ég kom í borgarstjórn.
Þoli ekki óréttlæti
“Alveg frá því ég man eftir mér hef ég brunnið af sterkri réttlætiskennd,” segir Kolbrún. “Hvers kyns óréttlæti, mismunun, óheiðarleiki og valdníðsla sem ég hef orðið vitni að á lífsleiðinni hefur vakið í brjósti mér kraft tígrisdýrsins. Með þessari samlíkingu er ég að reyna að lýsa því báli sem blossar upp finni ég mig í aðstæðum í starfi jafnt sem einkalífi þar sem fólki líður illa og þar sem beitt er ofbeldi eða óréttlæti. Sú staðreynd að margt fólk á hvorki í sig né á og þeir erfiðleikar sem það hefur í för með sér er hrein skömm fyrir gott samfélag. Ég vil laga það sem þarf að laga hvað sem það kostar. Kjör aldraðra, öryrkja og láglaunafólks hafa versnað, húsnæðismál þessara hópa eru í ólestri og mun ég berjast af eldmóði í þágu þeirra verst settu. Ég vil útdeila fjármagni í þágu grunnþjónustu og annarra nauðsynlegrar þjónustu og að betur sé farið með fjármagn borgarbúa en gert hefur verið. Ég hef beitt mér og langar að fá að gera það áfram á vettvangi stjórnmálanna. Í vetur tók ég sæti á þingi sem varaþingmaður Tómasar A. Tómassonar. Það var skemmtilega lífsreynsla.”
Bál óréttlætis
“Þótt ég segi sjálf frá finnst mér að ég hafi verið farsæl í starfi mínu sem sálfræðingur. Á hverjum degi er umbun þegar mætir mér bros og þakklæti og mér sagt að ég hafi hjálpað. Börn og unglingar voru minn skjólstæðingahópur til fjölda ára. Ég þrái að fá að halda áfram í borgarstjórn og satt að segja komast í meirihlutann svo ég geti gert eitthvað annað en að vonast til að dropinn holi steininn. Það má ekki linna látum fyrr en t.d. biðlistar barna er ekki lengur og eldra fólk og öryrkjar, sá hluti þeirra sem á ekki til hnífs og skeiðar eða eru einangruð og einmana hefur fengið það sem þarf til að lifa með sæmd og liðið vel. Í mér brennur bál óréttlætis og sorgar þegar ég hugsa til þess hvernig farið hefur verið með fólk í Reykjavík sem búið hefur við skerta örorku, lúsarlaun, fólk sem missti allt sitt í Hruninu og á annað hundrað eldri borgara sem bíða nú ýmist eftir hjúkrunar- og dvalarheimili eða þjónustu til að geta verið sem lengst heima. Eftir sértæku húsnæði fyrir fatlað fólk bíða á annað hundrað manns og margir hafa beðið árum saman”
Löngun til að hjálpa kom snemma
Kolbrún er hvergi deig þegar áhuga- og baráttumál hennar eru á dagskrá. En hvert er líf hennar fyrir utan sálfræðina og hina pólitísku baráttu. Hvað finnst henni mikilvægast í lífinu. „Árin eru orðin 63. Þá fer maður að líta meira til afkomendanna. Þá skynjar maður betur að ekkert skiptir meira máli í lífinu, hverju hefur maður áorkað? Hvað skilur maður eftir sig og hefur líf manns haft einhvern tilgang fyrir aðra og fyrir umhverfið? Þetta eru spurningar. Mér finnst skemmtilegt að vera með börnunum mínum, tengdasonum og umfram allt barnabörnunum. Ef ég er hreinskilin þá hefði ég viljað eignast hóp af börnum en beið of lengi. Það voru oft vonbrigði í bernsku. Ég bjó um tíma við alkóhólisma foreldris og heimilisofbeldi og fátækt og basl mömmu sem var ein að ala önn fyrir fjórum börnum. Lágt sjálfsmat og brotin sjálfsmynd fylgdi mér lengi fram eftir en metnaðargirni að ná árangri í því sem ég tók mér fyrir hendur varð yfirsterkari og löngunin til að hjálpa fólki kom mjög snemma.“
Heimakær og lifi fyrir sumarbústaðinn
„Ég er mjög heimakær. Vil helst vera heima eða í bústaðnum með fjölskyldu minni. Finnst líka gaman að dvelja endrum og sinnum á Tenerife en bara stutt í einu. Síðan er skemmtilegt þegar maður stendur sig vel, vandar sig í verkum sínum og stendur með sjálfum sér sama hvað gengur á. Ég þoli hins vegar illa óreiðu og rugl. Þurfa að hlusta á bull og afsakanir eða þegar fólk er að koma sér undan ábyrgð. En hvað ætlar Kolbrún að gera í sumar. „Ég ætla að vera eins mikið í sumarbústaðnum eins og ég get. Ég nýt þess að dvelja fyrir austan á sumarsvæðinu okkar. Þar hefur maðurinn minn Jón Guðmundsson sem er plöntulífeðlisfræðingur og listamaður ræktað fjöldann allan af ólíkum plöntum og trjám til meira en 30 ára. Þar er sumarhús og gestahús sem við höfum byggt. Þar eru endalaus verkefni.“