Kæru vegna smáhýsis í Grjótaþorpi hafnað

Sverri Guðjónssyni söngvara og Oddi Björnssyni rithöfundi leist ekki á að hafa smáhýsið í Grjótaþorpinu.

Úrskurðarnefnd hefur hafnað kæru íbúa í Grjótaþorpinu í Reykjavík vegna umdeilds smáhýsis sem hefur verið komið fyrir á lóðinni Garðastræti 11a. Þar stendur húsið Háakot sem er friðað. Íbúarnir töldu smáhýsið stríða gegn hverfisvernd Grjótaþorps en eigendur Háakots töldu sig hafa verið fegra umhverfi þess. 

Íbúarnir sögðu í kæru sinni að smáhýsið gengi gegn anda skipulagslaga. Jarðrask hefði átt sér stað undir skúrnum þar sem hugsanlega væri að finna fornminjar frá upphafi landnáms. Ekki hefði verið sótt um leyfi fyrir skúrnum fyrr en eftir á og þeim hrjósi hugur við skúravæðingu framtíðarinnar. Skúrinn minni á skipagám, beri næsta nágrenni sitt ofurliði og hleypi heillegri götumynd Grjótaþorps í uppnám. Eigendur Garðastrætis 11a sögðust hafa talið að þau væru að fegra umhverfi Grjótaþorps með flutningi smáhýsisins í þorpið. Það væri hugarsmíði og handverk akureysks listamanns og föður eins eiganda lóðarinnar.

Form, byggingarefni, handverk, áferð og litir garðhýsisins ættu lítið sameiginlegt með skipa­gámum og smekksatriði væri hvort það bæri næsta nágrenni sitt ofurliði. Úrskurðarnefndin benti á að að samþykkið sem skrifstofa rekstrar og umhirðu borgarlandsins veitti fyrir smá­hýsinu sé einkaréttarlegs eðlis. Það teljist því ekki vera stjórnvaldsákvörðun sem hægt sé að kæra til úrskurðarnefndarinnar.

You may also like...