Börnin frædd um álfabyggðir
Börnin á frístundaheimilum Breiðholts hafa í vetur unnið að verkefninu Álfabyggð undir handleiðslu Tönju Bjarnadóttur sem er í sérverkefnum hjá frístundaheimilunum tengt sköpun og útinámi.
Tanja fór á milli frístundaheimilanna og leiðbeindi börnunum í að föndra álfahús og álfa. Efniviðurinn sem notaður var í álfahúsin var að langmestu leyti eitthvað sem annars hefði verið hent, svo sem afgangspappi, plastumbúðir og þvíumlíkt. Verkefnið var öðrum þræði hugsað til að auka á ímyndunarafl barnanna og kenna þeim að nýta allan efnivið sem fellur til á frístundaheimilunum.
Afraksturinn var svo sýndur í Fella og Hólakirkju i tengslum við barnamenningarhátíð 2022 og var virkilega gaman að sjá hversu fjölbreytt og skemmtileg álfabyggð reis þar.