Sendiherrar Breiðholts
Verkefnið Sendiherrar í Breiðholti hefur verið starfrækt í rúmt ár, og undirbúningur og hugmyndavinna lengur. Sendiherrarnir eru fulltrúar 8 mál- eða menningarhópa, og fleiri þar sem arabíski og afríski hópurinn er mjög fjölbreyttir hópar. Alls vinna 14 sendiherrar fyrir verkefnið.
Sendiherrarnir hafa staðið í ströngu í allan vetur þar sem mikið af þýðingum, kynningum og verkefnum hafa verið á þeirra herðum. Það er nánast í hverri viku sem við óskum eftir þýðingu frá þeim fyrir okkur í Suðurmiðstöð (áður Þjónustumiðstöð Breiðholts), eða fyrir aðra samstarfsaðila innan hverfisins. Þeim upplýsingum er síðan miðlað til þeirra mál- eða menningarhópa í gegnum vefsíður, Facebook-síður eða tölvupósta. Einnig hafa verið skipulagðir fundir með viðkomandi hópum sem sendiherrarnir hafa skipulagt í samstarfi við Suðurmiðstöð. Mikið hefur verið leitað til sendiherrana til ráðgjafar og t.d. óskaði verkefnastjóri ,,Hverfið mitt“ eftir aðkomu þeirra að rýnisvinnu og fleiri sambærileg verkefni hafa á þeirra daga drifið.
Fyrir kosningarnar núna 14. maí eru þau að vinna að því að hvetja til kosningaþátttöku. Þetta er gert með að þýða og útskýra hvernig lýðræðið virkar í okkar samfélagi. Þetta ver einnig gert gert í fyrra vegna alþingiskosninga.
Þess ber að geta að sendiherrarnir hafa tengslanet um alla borg og út fyrir borgarmörkin. Það má því segja að sú grasrótarvinna sem unnin er hér í Breiðholtinu teigir anga sína víða. Verkefnið Sendiherrar í Breiðholti hefur verið lyftistöng í upplýsingamiðlun milli borgarkerfisins og þeirra mál- og menningarhópa sem tenging hefur verið við í gegnum þá einstaklinga sem taka þátt. Það er okkur mikið í mun að ná til fleiri hópa sem vinnum nú ötullega að.
Jóhannes Guðlaugsson.
Frístundatengill í Suðurmiðstöð.